Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
26.2.2007 | 17:39
Kai sigurvegari
Ef ég ætti nógu falleg og sterk lýsingarorð til að lýsa laugardagskvöldinu, þá væri heimurinn algóður. Þessi matur var sá besti og fallegasti sem ég hef smakkað á ævinni. Fór framúr Jamie og vinum á Fifteen, svei mér þá. Þjónarnir á Vox eru líka fáránlega flottir, ótrúleg þjónustulund og svo snöggir til svara að hálfa væri nóg. Við völdum að fá sérvalin vín með hverjum rétti fyrir sig sem gerði hvern rétt enn betri. Kvöldið var í alla staði frábært, maturinn unaður, þjónustan súperb, félagsskapurinn fullkominn og þar fram eftir götunum. Ella frænka og Jón hennar fá hjartans þakkir fyrir að nenna að drösla mér með sér! Hipp hipp, húrra!!
Fyrst fengum við teaser, óendanlega létt graskersfroða og finnskt hreindýr með bláberi. Þessi réttur var svo góður og bar nafn með réttu - algjör teaser. Það var eins með þennan og alla sem á eftir komu, það var varla að ég týmdi að borða þetta!
Í forrétt var kóngakrabbi í aðalhlutverki. Var hann eldaður á þrenns konar vegu. Lengst til vinstri er tómatsúpa (broth) með kóngakrabbabitum. Þetta var svooo gott að það ætti að gera þetta að þjóðarrétti Íslendinga - bara að við hefðum kóngakrabba í tonnatali. Í miðjunni var svo smjörsteiktur kóngagrabbi með frisée salati sem saman hvíldi á unaðslegu geli. Til hægri er svo gullostabrauðbolla fyllt með kóngakrabba confit (sérstök matreiðsluaðferð þar sem maturinn er hægeldaður í eigin fitu). Allir þessir þrír þættir forréttarins voru frábærir, en uppúr stóð tómatsúpan, súrsæt með krabbakjötinu. Fáránlega gott! Með þessu fengum við Wolf Blass Gold label, riesling vín frá suður Ástralíu. Mér fannst það afar bragðgott, mátulega sætt og fór vel við súrleikann í súpunni og rjómafílinginn í krabbanum sjálfum.
Millirétturinn var lúða og blómkál. Lúðan var steikt uppúr heimagerðu karrísmjöri, vinurinn kom víst sjálfur með eðalkarrí að utan. Lúðan hvíldi á blómkálskúskúsi sem var svo gott, crunchy og milt brað sem fór frábærlega með karríinu. Lúðan sjálf var snilld, mátulega steikt, ekki þurr eins og oft vill verða þegar fólk vill "elda matinn í gegn". Ofan á herlegheitunum var svo fennel í næfurþunnum ræmum. Blómkálsmauk og rauðvínssósa umluktu turninn og sólþurrkaður kirsuberjatómatur gaf skemmtilegan kontrast. Það var áhugavert að borða rauðvínssósuna með þessu, gaf þessu smá kikk og góð blanda við karríið og blómkálið. Með þessum rétti var boðið uppá Lindamans Reserve, ástralskt chardonnay vín. Mér fannst það dálítið of blómalegt fyrir mig, en það virkaði fínt með lúðunni. Ég er ekki alveg fyrir svona blómabragð, en þetta slapp vel.
Í aðalrétt var svo himnaríki. Lambahryggvöðvi, svo frábærlega eldaður að hann bráðnaði í munninum. Bitlausi hnífurinn rann í gegn þegar hann kom við kjötið. Með þessu voru bulghur kryddaðar með sítrónu og einiberjum og hvítlaukssósa. Einn gljáður perlulaukur fylgdi í kaupbæti og virkaði frábærlega með basilkreminu. Efst má svo sjá lambabrisið sem var borðað með djúpsteiktri mini-gulrót sem var ó svo crunchy. Svolítið sterkt kjötbragð af brisinu en með gulrótinni varð þetta að sælu. Svarta duftið vinstra megin eru þurrkaðar ólífur - fáránlega gott dæmi. Þessi réttur var meiriháttar út í gegn. Ég hef aldrei fengið svona gott kjöt, það var fullkomið. Berin í bulghunum heilluðu mig alveg, gáfu smá kikk. Með þessum rétti fengum við Rosemount Traditional, cabernet sauvignon, merlot og petit verdot vín frá Maclaren Valle Langhorn Creek í Ástralíu. Tvímælalaust eitt besta rauðvín sem farið hefur innfyrir mínar varir. Það var eins og silki og færði réttinn í nýjar hæðir. Bravó!
Þvínæst fengum við gullost sem borinn var fram með heimagerðu hungangi sem sjálfur Kai útbjó. Hann gerði sem sagt hunangsbú líkt og býflugurnar gera. Þetta var meiriháttar góð blanda. Ég er ekkert gífurlega hrifin af hunangi en þetta virkaði mjög vel saman. Osturinn var mátulega þroskaður, ekki of rammur, og með hunanginu sem var mátulega sætt varð þetta að sælu. Með þessu var okkur boðið uppá Penfolds Bin 389, Cabernet sauvignon og shiraz vín frá Mclaren vale, Pedthaway og coonawarra í Ástralíu. Vínið sjálft hefði dugað sem eftirréttur, slík var gleðin. Það var eins og konfekt, hver einasti sopi.
Eftirrétturinn var meiriháttar. Súkkulaðiturn með rennandi súkkulaði í miðjunni, borinn fram með hindberjum í sírópi og krapís úr skyri og philadelphia rjómaosti. Toppurinn var ísinn, algjör sæla og frábært kombó. Ég var orðinn svo heilluð af matnum að ég gleymdi að taka myndir af honum.. úps. En myndin er í kollinum, og trúiði mér, þetta var himnaríki.
Með kaffinu var punkturinn svo endanlega sleginn yfir i-ið, konfektmolar frá Hafliða Ragnars. Pistasíumolinn er officially orðinn minn uppáhalds nammibiti. Hreinn unaður út í gegn. Sem sagt, kvöldið var fullkomið. Maturinn hans Kai var uppá 10 og rúmlega það. Skál fyrir því!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.2.2007 | 22:30
Stuð stuð stuð
Nokkrar myndir úr afmælinu hennar Völlu minnar... þemað var Höfuðföt og trúiði því, ég vann EKKI! Greinilegt hver hefur verið að sofa hjá dómaranum... hmm... Carola hvað.
Kærar þakkir fær Skvísan fyrir að koma með myndavélina sína og vera dúleg að mynda!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.2.2007 | 19:34
To Reykjavík, or not to Reykjavík?
Mig langar til Reykjavíkur um helgina, ótrúlegt en satt. En ástæðan er ærin. Ein skemmtilegasta hátíð ársins byrjar á morgun, Food and Fun hátíðin. Sjaldan skemmti ég mér eins vel í Reykjavík og á keppninni sjálfri sem haldin er á laugardeginum. Það er líka afar skemmtilegt að kíkja í Hagkaup Kringlunni á föstudeginum og fylgjast með kokkunum (og aðstoðarmönnum þeirra) þeysast um verslunina og versla matinn sem elda á. Þegar ég vann hjá Kokkunum var ég svo heilluð af þessu að það lá við að ég dissaði aðra viðskiptavini en þessa hæfileikaríku menn og konur í fallegu, hvítu göllunum með snilldarstrompana á höfðinu. Einu sinni kom útlenskur kokkur til mín og vildi fá að smakka íslensku ostana sem við höfðum. Mér finnst íslensku ostarnir prump miðað við þá erlendu. Ég hálfskammaðist mín fyrir að sýna honum ostana en leyfði honum þó að smakka allar gerðir og var afar alúðleg, enda á upptöku í sjónvarpinu. Hann verslaði svo hlunk af svörtum gouda og breskum cheddar. Daginn eftir þegar ég fór á keppnina fylgdist ég með honum elda og hann gaf mér að smakka af mörgu því sem hann var að gera. Ég var auðvitað eitt stórt sælubros allan hringinn og hélt með honum. Og öðrum sem var afar myndarlegur og bar sig vel við eldamennskuna.
Það sem er svo frábært við þessa keppni - og að hún sé opinn almenningi - er að þarna koma saman afar færir kokkar allstaðar að úr heiminum. Margir þeirra, og já flestir, eru að vinna eða eiga mjög eftirsótta veitingastaði. Þeir koma hingað til lands og elda mikið úr íslensku hráefni og tala um hversu flott það er. Íslenska lambið og auðvitað fiskurinn fá lof ár eftir ár frá þeim. Þeir beita öðruvísi aðferðum en maður hefur séð og maður getur starað eins og ugla heilan dag og lært heilmikið. Ekki skemmir hvað karlmenn í kokkagalla líta vel út.
Í hittífyrra kom Morten Heiberg sem er afar fær kokkur af dönsku bergi brotinn. Hann á fyrirtækið Dessertcircus, en hann hefur sérhæft sig í eftirréttum - sérstaklega úr Valhrona súkkulaði. Ein bók eftir hann hefur verið þýdd yfir á íslensku, bókin Súkkulaði sem kom út árið 2004 og er frábær kista girnilegra uppskrifta og hugmyndabanki. Á laugardeginum var hann með smá kennslu í allskonar eftirréttum úr súkkulaði. Hann var með sýnikennslu um það hvernig vinna má með súkkulaði og allskonar gullmolar flugu frá þessum fagra manni. Ég stóð með galopinn munn og saug í mig viskuna. Lyktin á svæðinu var auðvitað líka ómótstæðileg!
Núna er ég alveg að springa mig langar svo til Reykjavíkur um helgina. Ég fæ í mig svona gamalkunnan fiðring, árlegan fiðring sem hríslast um mig alla. Því spyr ég ykkur, kæru vinir: Vitiði um einhvern ofurskemmtilegan (sem ég kannast við!) sem er að fara frá Akureyri til Reykjavíkur á föstudaginn e. kl. 16:00? Ég víbra ég er svo spennt að sjá keppnina... Nörd, I know...
17.2.2007 | 14:55
Júró
Lokakvöld júróvísjón er í kvöld - jeij. Mig langar að Heiða vinni, Ég og heilinn minn er hresst lag og dansinn hjá bakröddunum einn og sér kemur okkur langt. Annars er ómögulegt að segja hvaða lag vinnur. T.d. miðað við lögin sem komust áfram síðasta úrslitakvöldið er ENGIN leið að spá. Klárlega vil ég ekki að Bríet Sunna fari út fyrir okkar hönd. Einfalt mál. Og þó svo að Sjonni Brink sé foli þá er ég ekki alveg að kaupa lagið hans. Lagið sem Matti syngur er alls ekki að heilla mig, þrátt fyrir að Meistari Pétur Jesús ljái því hæfileika sína. Hafsteinn tryllir mig engan veginn með sínu lagi. Skil ekki hvers vegna maðurinn fékk ekki einhvern til þess að syngja þetta annars ágæta lag. Hvað er svo málið með þennan Torfa og Bjarta brosið hans? Er fólk ekki búið að átta sig á því að Skímó-stíll er ekki málið? Eiki Hauks er náttúrulega fyrir löngu orðinn klassík og lagið er flott. Ég veit ekki alveg hvort þetta rokkdæmi sé að virka aftur eftir Lordi. Friðrik Ómar á eftir að fara í júró einhvern tímann en með þetta lag, ég er ekki viss. Lagið sem hann söng í fyrra fannst mér flottara, en Kristján Grétarsson Örvarssonar er hottie og fengi mitt atkvæði ef hann væri sjálfur að syngja. Jónsinn minn hefur mátt muna sinn fífil fegri hvað fataval varðar, lagið svosem ágætt.
Hvað varð um GÓÐU júrólögin? Bucks Fizz var náttla bara snilld, ég vildi að ég kynni dansinn og hefði svona háa rödd eins og önnur konan. Dschingkis Khan er klassi. Sandra Kim hefur alltaf verið mitt uppáhald með fáránlega hressa lagið sem ég söng hástöfum nokkurra ára gömul. Og hvað ég vildi eignast svona föt! Men ó men. Fangad av en stormvind á sérstakan stað hjá mér, snilldarlag hjá henni Carolu. Og ó hvað Diggiloo diggiley þeirra Svía er yndislegt! Ég get ekki annað en fengið gæsahúð við að hlusta og horfa á þessar elskur. Pæliði í dansinum! Bobbysocks = geggjun, unaður. Abba er klassík þó svo að ég diggi lagið kannski ekki í tætlur eins og mörg önnur. Endalaust mikið af snilldarlögum.
Fjallið lokað í dag vegna veðurs - afar afar sorgmædd yfir því. En ég er jafnframt afar afar hamingjusöm því bestasta sTinnan mín á afmæli í dag - KNÚS til hennar í tilefni dagsins. Góður afmælisdagur fyrir hana sTinnuna mína að júró sé í kvöld. Svo auðvitað konudagurinn á morgun. Býst nú ekki við hrúgu af gjöfum innum lúguna mína EN... Baddi frændi kom í gær og hafði meðferðis eina konudagsgjöf sem ég fékk þegar ég var hérna á Akureyrinni síðast. Pabbi gaf mér skauta í konudagsgjöf eitt árið, algjör snilld, og hafa þeir verið vel nýttir og verða nýttir í náinni framtíð.
Ó vell... kannski kominn tími að afklæðast skíðafötunum og koma sér í eitthvað þægilegra. Njótiði dagsins og kvöldsins. Ef þið eruð á Akureyri í kvöld þá mæli ég eindregið með því að þið komið á Amour að hlusta á Hlyn spila.
15.2.2007 | 22:56
Saga um skíðaskó
Skaust í Skíðaþjónustuna eftir vinnuna í dag. Skoðaði með stórum undirskálaaugum öll flottu skíðin og skíðaskóna, alla fylgihlutina og folann sem var að afgreiða. Sýndi honum loks skóinn minn og hann glotti.
Hann: ,,Nei, þetta er ekki hægt að gera við. Hver á þennan skó""
Ég: ,,ég á hann, nú?"
Hann: ,,þú? Þetta er junior skór, þú ættir nú að vera komin í fullorðinsskó. Ekki það að ég vilji móðga þig neitt sko"
Ég: ,,neinei, engin móðgun maður. Þetta er gamalt dót sem ég fékk í jólagjöf. Hefur dugað mér hingað til. Hvað segirðu, áttu einhverja sæta skó?"
Hann: ,,sæta? ja, ég veit það nú ekki. En skó á ég" Sýnir mér rekkann með skóm í minni stærð og tekur strax upp hvíta og fjólubláa skó. ,,Hvað segirðu um þessa? Flokkast þeir sem sætir?"
Ég verslaði auðvitað þessa skó þó svo að þeir væru ekki bleikir og fallegir eins og mig langaði í. Þeir eru svaðaleg þægilegir, notaðir, í mínu númeri, í flottum lit og kostuðu bara 3.900 krónur. Jasko. Sko mig. Ég spurði folann hvort hann gæti stillt bindingarnar í leiðinni, þar sem skórinn væri eflaust ekki í alveg sömu stærð. Jújú, lítið mál, svo ég náði í skíðin.
Hann: ,,jahérna. Það er nú alveg kominn tími á þig!" Hlær.
Ég: ,,ha? hvað meinarðu maður?"
Hann: ,,nei, ekki þannig sko, skíðin, þetta eru gömul skíði. Þau eru alltof stór fyrir þig, þetta er síðan það var í tísku. Núna flokkast þetta sem karlmannsskíði!"
Skíðin mín eru 1,70 en ég er 1,63.
Ég: ,,jájá, eins og ég segi, gamall búnaður en hann virkar nú. Ég er enginn Kiddi Bubba!"
Hann: ,,ja, ef þetta virkar þá... já... látum okkur nú sjá..." Fer og lagar bindingarnar.
Þá er ég semsagt reddí fyrir helgina. Baddi frændi og konan hans koma á morgun og verður fjallið stundað grimmt. Svo er Hlynur Ben að koma og trúbba á Amour á laugardagskvöldið svo það verður ansi hresst andrúmsloftið.
Enda þetta á view-inu sem maður hefur þegar maður er kominn upp að Strýtu. Priceless! Útsýnið þegar upp Strompinn er komið er sko ennþá flottara.. þá sér maður yfir allan fjörðinn! Men, ó men!
14.2.2007 | 16:31
Gæti ég fengið texta, takk?
Í upphafi mánaðarins var enn og aftur lagt fram frumvarp til laga um textun í sjónvarpi. Síðast "sofnaði það í nefnd" og er nú komið aftur í menntamálanefnd. Ég vona að Siggi Kári og félagar geri meira í málinu nú en síðast. Löngu síðan orðið tímabært, löngu síðan. Og ég meina löngu síðan.
Í gær horfði ég á fréttir. Það er ekki fréttnæmt. En eitt verð ég að benda á, enn einu sinni. Í fréttatímanum var frétt um heyrnarlausa. Fréttin var textuð svo heyrnarlausir gætu áttað sig á um hvað fréttin væri. HALLÓ?!?! Heldur fólk virkilega að heyrnarlausir sitji bara fyrir framan sjónvarpið, horfi á fréttirnar án texta og BÍÐI eftir því að það komi frétt um þá sem er textuð? Hvað eru það.. 3 fréttir á ári eða? Er þessi texti ekki til á textavélum sem fréttamennirnir lesa af? Ohh.. ég verð svo hneyksluð.
Ég verð að láta fylgja með töflu um textun í ríkissjónvarpi nokkurra Evrópulanda. Taflan er úr frumvarpinu og tölurnar eru frá árinu 2003 og hafa (vonandi) eitthvað hækkað, en ég bít ekki af mér rassinn hafi svo ekki farið.
Land: | Textun á mánuði (ríkisstöðvar): |
Albanía | Enginn, aðeins textun fyrir erlent mál |
Austurríki | 170 tímar |
Belgía | 5 tímar |
Danmörk | 189 tímar |
England | 80% af öllu efni á BBC, ITV og C4 20% í stafrænum útsendingum |
Finnland | 15% af öllu innlendu efni |
Grikkland | 14 tímar |
Írland | 23 tímar |
Ísland | 1 tími |
Ítalía | 80 tímar |
Pólland | 30 tímar |
Spánn | 446 tímar |
Sviss | 240 tímar |
Þýskaland | 387 tímar |
EINN KLUKKUTÍMI Á MÁNUÐI???
Hvaða ár er eiginlega?
Díses kræst.is
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.2.2007 | 03:02
RÖSKVA!!!!!!!!!!
JÁ JÁ JÁ JÁ JÁ JÁ JÁ JÁ JÁ JÁ JÁ!!!!!!! LOKSINS LOKSINS LOKSINS!!!!!!!! JÁ JÁ JÁ JÁ JÁ JÁ JÁ JÁ JÁ!!!!!!!!!!!
ÚRSLIT KOSNINGANNA Í HÍ LJÓS.... MÉR LÍÐUR EINS OG FEGURÐARDROTTNINGU, ÉG GRÆT AF GLEÐI.... RÖSKVAN MÍN VANN!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!
RÖSKVA 5 MENN - VAKA 4 MENN
H-LISTINN RIP
VIÐ UNNUM!!!!
31.1.2007 | 22:56
Þegar ég eignast barn...
Ég stenst ekki mátið að leyfa þessari mynd að njóta sín hérna. Þessi krúttusnúður er eitt mesta uppáhaldið mitt, og á ég þau mörg. Þessum finnst ég svo ofurskemmtileg að það er ekki einu sinni fyndið!
Bjarki Steinarr er nýlega orðinn hálfsárs en er samt alls ekkert smábarn, því hann hefur fanta góðan húmor á við fullorðinn einstakling. Þetta er sem sagt sonur hennar Erlu minnar. Þegar við vorum í stífri hópavinnu í skólanum í haust kom pjakkurinn oft með Erlu mömmu sinni og var eins og vindurinn á meðan við kjöftuðum úr okkur allt vit. Hann bara horfði á okkur, brosti og hló þegar við horfðum á hann. Að sjálfsögðu var oft erftit að vinna með svona augnakonfekt nálægt sér. En það sem besta er, drengnum finnst ég svo fyndin og skemmtileg! Það er nánast sama hvað ég geri, honum finnst það fyndið. Þetta á ekkert við um alla, kannski nokkuð marga, en ekki alla. Ég mátti alltaf halda á honum, klæða hann og gefa honum að borða - og Bjarki, ja hann bara brosti! Þegar ég eignast barn þá má það alveg vera svona, brosandi og ofurfallegt! Svakalega hlakka ég til að hitta hann (og auðvitað Erlu gúllu líka!)... Meina, getiði staðist þessa mynd? Ímyndið ykkur að hitta hann í eigin persónu og heyra hann hlægja... jahérnahér!
28.1.2007 | 01:16
Sykurmolakórónan sigraði ekki!
Þá get ég birt mynd af höfuðfatinu mínu sem, þrátt fyrir miklar væntingar, bar ekki sigur úr býtum í keppninni góðu. Nokkurra daga vinna lá að baki gerð höfuðfatsins, en það er lúmskt erfitt að líma þetta saman. Erfitt en gaman :) Anna Rósa var sigurvegari kvöldsins fyrir að finna einu notin sem hægt er að hafa af meintri brauðkörfu sem ku hafa verið jólagjöf frá KB Banka, Kaupþingi banka, Kappaflingfling etc. Ekki var verra að sjá hversu vel Anna Rósa klæddist við þetta höfuðfat, en daman var í smóking. Leikir kvöldisins heppnuðust vel, allir fengu eitt hlutverk á miða sem þeir áttu að leika í laumi, þ.e. enginn mátti vita hvert þeirra hlutverk var. Útúr þessu varð svo heilmikil skemmtun þegar miðarnir voru lesnir upp og fólk átti að giska hver átti hvern miða. T.d. talaði kærastinn hennar Svönu endalaust um hvað það hefði verið ömurlegt að Tóta hefði ekki komist í afmælið (það stóð á hans miða) en hann hefur hitt Tótu einu sinni og þekkir hana lítið sem ekkert. Við þetta varð Svana (bekkjarsys okkar Tótu úr MA) hneyksluð á þessari hegðun mannsins síns og lét vel valin orð falla, skildi ekkert í því hvað hann væri að röfla um þetta núna. Afar fyndið. Meðal annarra hlutverka má nefna:
- þegar þú sérð fólk vera fá sér bjór/vín/kokteil áttu að segja hissa: bíddu, ert þú að fá þér annan? Varstu ekki á bíl? Kona eins samstarfsmanna Völlu fékk þetta, fáir vissu hver hún væri og því kom þetta afar skoplega út.
- þú gerir í því að dásama útsýnið útum klósettgluggann í íbúðinni. Þegar þér er bent á að það sé nú enginn gluggi á klósettinu segirðu hissa: Ó!
- Þú ert sífellt að finna undarlega lykt úr eldhúsinu og stanslausa prumpulykt. Reyndu að komast að því hver á þessa lykt. Þetta var miðinn minn. Fólk hefur eflaust haldið að ég hefði einhverjar vafasamar kenndir, síspyrjandi hvort það hafi verið að prumpa, hvort þetta sé ekki lyktin þeirra. Spés í hið minnsta
- Þú bendir iðulega á það hvað Addi (maðurinn hennar Völlu) sé líkur Guðmundi í Byrginu, með þennan hatt.
- Þú ert alltaf að heyra einhver furðurleg hljóð af svölunum og spyrð fólk í kringum þig hvort það hafi heyrt þau líka. Þetta var hrikalega fyndið. Einn gaur var sífellt að spyrja hvort þau ættu kött sem þau geymdu á svölunum, hvort fólk hafi heyt í kettinum etc.
Ekki stóð Amour undir væntingum þetta skiptið, afar fámennt, nú en góðmennt. Eftir smá innlit á Vélsmiðjuna var stefnan tekin heim á Klettastíg. Ekki hitti ég stjörnumerkið sem ég ætlaði að hitta, en ég var svosem upptekin við annað. Kvöldið var þó afar, afar vel heppnað. Ég spjallaði heilmikið við uppáhaldskennarann minn úr MA, sem jafnframt er félagi í Samfó, og hann tjáði mér að ég væri eini nemandinn á öllum hans ferli sem hefði fengið að lesa upp nemendur. Ég sóttist stíft eftir því að fá að lesa upp, örugglega í heilt ár, þar til hann gafst upp og veitti mér pennann sem notaður var til að benda á nemendur svo þeir þögnuðu. Upplesturinn var heilög stund. Ahh.. sælla minninga.
Í dag týndi ég mér í smástund á Youtube, þvílíkur snilldarveruleiki sem þar er. Verð að benda ykkur á þessi tvö brot hérna, þau gleðja ekki bara augað, heldur eru þau líka fáránlega fyndin. Fyrri ræman er hinn munúðarfulli dans sem Napoleon Dynamite tók þegar félagi hans Pedro var í framboði. Það eykur á fyndni þessa myndbands að lagið er fyrsta lagið í Body Jam tímanum mínum og svei mér ef hreyfingarnar þar eru ekki í anda Naopleons. Seinni ræman er úr sænskum þætti í anda Tekinn með Audda Blö. Þar fær Jamie Oliver á baukinn. Há jú læk kokk, jes? Vesgú!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.1.2007 | 08:08
Sónar í fyrsta skipti
Ég fór í sónar í fyrsta skipti í gær í vinnunni. Þvílíkt og annað eins undur sem þetta er. Ég var svo gapandi hissa á öllu sem ég sá og þurfti að hemja mig gríðarlega svo ég hoppaði ekki upp klappandi lófum eins og smástelpa öskrandi á foreldrana: sjáiði! sjáiði! Þetta er barnið ykkar! Ótrúlegt hvað þetta er flott. Ótrúlegt að eftir 20 vikur sé allt bara komið, hjarta, nýru, magi og læti. Gærdagurinn var sem sagt ótrúlegur hjá mér með tilheyrandi upphrópunum inná milli skoðanna við kátínu læknanna. Fyrir þeim er þetta bara daglegt brauð.
Ó vell... á mánudagskvöldum hér á Akureyri er stuð. Þá er Samfylkingin alltaf með bæjarmálafund þar sem farið er yfir þau mál sem tekin verða fyrir á næsta bæjarráðsfundi og flokksmenn geta komið með sínar skoðanir á málunum. Ungir Jafnaðarmenn hittast jafnan fyrir þessa fundi og í gær var mjög hressandi fundur. Þann 1. febrúar n.k. erum við að fá góða gesti til okkar hingað í Demant norðursins. Þingmennirnir Katrín Júl og Ágúst Ólafur ætla að kíkja hingað og spjalla við okkur unga fólkið um okkar hjartans mál, hvort sem það eru skólagjöld, skerðing náms til stúdentsprófs, harðari refsingar við kynferðisbrotum eða eitthvað annað. Fundurinn er klárlega opinn öllum, líka ykkur í Reykjavík, og verður kl. 20:00 í Lárusarhúsi (Eiðsvallargötu 18). Pizza og meððí eins og í alvöru partýi!
Vil svo benda á guðdómlega ályktun UJA - án gríns, þetta er svo mikil snilld!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 08:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)