Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Bridget Jones - enn og aftur

 

31

 

Í kvöld var stemningin þannig að Bridget vinkona mín Jones varð bara að birtast á skjánum. Hvað ég hef horft oft á þessa bíómynd veit enginn. Ætli þetta séu ekki hvað, 8-9 skipti á ári? Þrátt fyrir það finnst mér myndin alltaf jafn fáránlega skemmtileg og fyndin. Bridget Jones er snillingur. Upphafssenan þegar hún er að tala við Mark Darcy í hreindýrapeysunni gæti alveg (og hefur eiginlega) gerst í mínu lífi. Þvílík snilld. 

MarkDarcy023Þó svo að ég viti nákvæmlega hvernig myndin er, hvernig hún endar og hver segir hvað, þá er tilfinningin í upphafi myndar alltaf spennandi. Daniel Cleaver (Foli Grant) er náttúrlega sjúklega sætur og næs gaur en verður svo alger skíthæll. Mark Darcy er algjör lúði og þurrprumpulegur en verður svo unaðslega flottur. Ég vel Darcy, ómæ ómæ... Og í enda myndarinnar þegar hún er á brókinni að kyssa hann fyrir utan bókabúðina: Bridget: Wait a minute, nice boys don´t kiss like that! - Darcy: Oh yes the fucking do! Garg! 

bridget_bridgetÞessar setningar sem elsku vinkona mín hún Bridget er að fá eru setningar sem ég hef heyrt. Ég hef í alvörunni fengið spurningar á borð við: ,,hvernig er þetta með ykkur einhleypa fólkið, finnst ykkur.. blahh". Spurningar á borð við: hvað er að frétta í ástarlífinu? Komin með kall? Eitthvað að gerast í kallamálum? Enginn Amor mættur til þín Fanney? Á ekkert að fara ná sér í förunaut? Langar þig ekkert að eignast börn? og Hvenær ætlarðu eiginlega að finna þér kærasta? eru alltaf súrsætar. Ekki bara vegna þess hve heimskulegar þær eru, heldur rifjast alltaf upp fyrir mér atriði úr myndinni og ég skil þessa elsku svo vel. 


Búið spil!

Jæja... þar fór það... enn einn í vaskinn... ó vell... 

Farwell my love... Við Ída sjáum svakalega eftir þér.. þakka þér góðar stundir í Köben, foli!

 

joshduhamel1

Update: stjörnuspáin mín fyrir föstudagskvöld:

Vog: Löngun og áráttukenndar hugsanir sýna að grunnþörfum hefur ekki verið fullnægt. Ef það er gert hverfa einkennin loksins. Umtalsverður árangur næst í kvöld.

Umtalsverður árangur?? Ég er að fara spila Popppunkt heima hjá Völlu og Adda.. Ég ætla að vera Jónsi. Ég vinn greinilega - þrátt fyrir yfirlýsingar Adda um annað.


Uppfærsla - heyrnarlausir

Lati, lati bloggarinn sem ég er. Frábær vinnuvika liðin og eflaust önnur eins í vændum.

Afrek síðustu viku:

  • Fór á snjóbretti uppí Hlíðarfjall með Önnu Rún. Kristur á Krossinum. Hef tvisvar sinnum áður farið á bretti en það var fyrir sirka 7-8 árum. Þessi ferð var afar athyglisverð. Ég komst ekki niður brekkuna frá skíðahótelinu niður að fyrstu lyftunni. Jahá... datt bara á hausinn þrátt fyrir mikla hjálp frá Önnu við að halda mér á fótum. Lét plata mig til að fara með stólalyftunni alla leið upp, jahér, og þar uppi beið ég í sirka korter, tuttugu mínútur því ég þorði ekki niður. Eftir þúsund föll, frosna vettlinga, snjó inná maga, náladofa í fótunum og rúmum klukkutíma síðar komst ég loksins niður en þá var búið að slökkva ljósin í fjallinu þar sem það var búið að loka. Jahá, ég get sagt ykkur það. Núna er eiginlega algjört möst að fá skíðin mín hingað norður, meika ekki margar fleiri svona ferðir.
  • Fór í ræktina á hverjum degi og prófaði m.a.s. Body Jam sem eru svona danstímar, salsa, bollywood, diskó og ég veit ekki hvað og hvað. 
  • Kom herberginu mínu í frábært horf með aðstoð Tiger. Vörur á 200 kjédl eru unaður!
  • Fékk Mettu frænku í heimsókn og eldaði fyrir hana kjúklingabringur sem við borðuðum með penne pasta í piparrjómasósu með perum og valhnetum. Fórum svo á Children of Men sem var afar, afar spés... ég held ég treysti mér ekki til að mæla með henni - þrátt fyrir fegurð Clive Ovens. Eftir myndina var svo bara rúntað fram á nótt og kjaftað í sig hita. Nææææs.

Ég mæli eindregið með því að þið lesið viðtalið við Kolbrúnu í Fréttablaðinu í gær, laugardag, en hún er heyrnarlaus kona sem er í hóp þeirra sem beittir voru kynferðisofbeldi í grunnskóla. Mér finnst þetta mikið hugrekki hjá henni að koma fram og segja sögu sína. Auðvitað eru allar svona sögur dæmi um hugrekki, en í því samfélagi sem hún lifir einna helst eru bara um 200 manns. Þar þekkja allir alla og ef við berum þetta saman við lítið þorp þá hlýtur það að taka ansi mikið á samfélagið þegar svona kemst upp. Eins og ég hef komið inná áður þá er það með eindæmum fáránlegt hvernig ríkið og íslenskt samfélag hefur farið með og komið fram við þá sem heyrnarlausir eru.

Mig langar af þessu tilefni til þess að benda sérstaklega á bloggið hennar Sigurlínar Magrétar en hún er oft með mjög góðar færslur tengd málefnum heyrnarlausra. Þarna er kona sem veit sínu viti og að mínu mati eiga stjórnvöld að hlusta eftir svona röddum. Í nútímasamfélagi er æ meira verið að taka upp notendasamráð í þeim málum sem lúta að einstaklingum og hópum sem eru undir í samfélaginu, af einhverjum ástæðum. T.a.m. hafa einstaklingar með geðröskun unnið með WHO við að móta geðheilbrigðisstefnu, einstaklingar sem greinst hafa með krabbamein vinna með sjúkra- og iðjuþjálfum við að hanna endurhæfingu og svo mætti lengi telja. Er þessi stefna góð og gild, enda vita þeir sem lent hafa í aðstæðunum mest um þær og því best til þess fallnir að leggja orð í belg um hvað betur mætti fara. Nú finnst mér bara nóg komið af þöggun samfélagsins á þeirri kúgun og misnotkun sem heyrnarlausir hafa orðið fyrir, ekki bara hér á landi heldur um allan heim. 

Ég tengi hér inná greinina sem ég skrifaði í fyrra, ykkur til yndisauka. Ég er líka búin að bæta við fullt af nýjum tenglum undir Daglegt brauð, skora á ykkur á lesa framhaldssöguna á netinu sem heitir Nágranninn - en ég vara ykkur við - hún er ávanabindandi!  


mbl.is Tillögur um aukna ráðgjöf fyrir heyrnarlausa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að flytja er góð skemmtun...

... en allt sem fylgir flutningum er frekar leiðinlegt. T.d. að pakka niður, ákveða hvað maður þarf að eiga og hvað ekki, taka uppúr kössum og töskum, koma dótinu fyrir o.þ.h. Ekki minn tebolli, enda hef ég fengið minn skerf af flutningum. 

Eftir að hafa búið á sama stað, í Ólafsvík (flutum reyndar 2 sinnum í nýtt og betra hús en það telst ekki með því ég man varla eftir því), flutti ég norður á Akureyri til þess að stunda mitt nám í Menntaskólanum á Akureyri. Ég bjó á heimavistinni fyrstu 2 árin, með tilheyrandi pakka-niður-elsi og taka-upp-elsi. Þegar ég kom heim um jólin var ég með slatta af dóti en fór alltaf með enn meira dót norður aftur. Svo þurfti jú að pakka öllu niður aftur um vorið og tæma og þrífa herbergið. Þetta gerði ég sko 2 sinnum, hana nú. 

 

powers_te_movingpictures

 

Þá flutti ég í íbúðina í Hrafnagilsstrætinu og bjó með Svenna og Nonna. Þar sem þeir eru karlmenn, og ég safnari, tók ég fullt af dóti með norður þá um haustið til að innrétta íbúðina (og fylla skápana). Sama gerðist um jólin, ég tók fullt af dóti heim, fór aftur norður með enn meira dót. Um vorið þurfti svo að pakka öllu niður og þrífa allt.

Fjórða og síðasta árið mitt í MA bjó ég á þremur stöðum í nágrenni við Súper (sem þekkist e.t.v. betur sem Strax Byggðarvegi). Sama sagan, dót norður, dót vestur, enn meira dót norður um jólin. Eftir jólin flutti ég svo í húsið við hliðiná þar sem ég bjó og nokkru seinna aðeins nær Súper. Þetta þýddi auðvitað "pakka niður ferli" frá helv... enda á ég allt - nánast. Um vorið var svo öllu pakkað niður með meiri gleði en áður, ég var búin með þetta tímabil ævi minnar - stúdent heillin.

Þegar ég fór svo í spænskuskóla í 3 mánuði var ég með um 20 kg í yfirvigt - á leiðinni út! Þið getið ímyndað ykkur hvað ég var með mikið þegar ég kom heim aftur, nokkrum skópörum og flíkum ríkari - svo ekki sé minnst á bækurnar og geisladiskana. Þessir flutningar teljast þó ekki alvöru flutningar, því ég þurfti ekki að pakka niður öllu draslinu mínu - bara fötum og svoleiðis.

packed-car

Síðan ég byrjaði í Háskólanum hef ég búið á 3 stöðum, fyrst í Skipasundinu með henni Hjördísi minni, svo í Gautlandinu alein og sæl og nú bý ég í Kópavogi með fríðum flokki (Kermit, Feita, Miss Piggy etc.). Allt hefur þetta krafist flutninga með tilheyrandi hendingum og ruslasöfnun, en einhvern veginn er ég voðalega klár að safna að mér aftur. Ég hefði verið fín rétt eftir Ísöldina.

Núna skal pían svo flytja í 4 mánuði. Margur hefði haldið það eilítið auðveldara en að flytja "for good" en svo er sko aldeilis ekki. Alltaf ómar spurningin: Hvað þarf ég að hafa í 4 mánuði? Nota ég þetta næstu 4 mánuði ef ég hef ekki notað þetta síðustu 2 ár? Þetta væri aðeins auðveldara ef ég væri að flytja á Selfoss, en það er ansi langt á milli Kópavogs og Akureyrar.  Núna er því Kermit við það að æla af dóti, en lítum á björtu hliðarnar: ef það kemur svaðaleg vindkviða á leiðinni þá fjúkum við að minnsta kosti ekki útaf sökum þyngsla! :)

Ergo: ég ætla að búa í húsbíl í framtíðinni. 

 

istockphoto_1268920_mini_rv_pink_trailer

 


Komin með íbúð!

Jámm.. kellan er að fara búa á Stúdentagörðunum á Akureyri.. allt í reynslubankann sjáiði til :)
Annars er góð helgi framundan... Brandur frændi að koma í heimsókn frá Svíþjóð með vini sína með sér, þeir sem til hans þekkja vita hvað helgin hefur í för með sér - eintóm skemmtun! :D

Bömmer vikunnar: verða bensínlaus á leiðinni í vinnunna á mánudegi, þora ekki að biðja um bensín í brúsa né setja bensínið á bílinn.
Leti vikunnar: nenna ekki að taka bensínbrúsann úr bílnum --> vond lykt. Nenna ekki að taka bensín.
Ofurbömmer vikunnar: verða bensínlaus á gatnamótunum Hringbraut-umferðarmiðstöðin, í hádeginu á föstudegi. Guð sé lof að ég var löt og nennti ekki með brúsann úr bílnum.
Hrós vikunnar: Höski, a) fyrir að vera ofurkall, b) fyrir að vera skemmtilegur, c) fyrir að hafa loksins komið útúr skápnum sem lesandi þessarar síðu og d) fyrir gjöfina sem hann ætlar að versla handa mér í Las Vegas.
Last vikunnar: Frjálslyndi flokkurinn, af því bara.
Afrek vikunnar: einkunnirnar mínar! :D
"hefði-átt-að-gera" vikunnar: taka til og þrífa, læra meira, taka bensín
Móment vikunnar: bíóferð á Saw III... búhúhúhúhú...
Fegurð vikunnar: Snæfríður Íslandssól, sú fagra fartölva
Ljótleiki vikunnar: götur borgarinnar, ógó drullugar og svartar... jakk
Lag vikunnar: Always look at the bright side of life...

Góða helgi! :)


Lítil íbúð eða herbergi á Akureyri?

Veistu um litla íbúð, eða gott herbergi, sem leigist á lítinn pening, kannski með húsgögnum, staðsetta á Akureyri, laus 1. jan og út apríl? Viltu vera svo væn/n að láta mig vita í komment eða í meili? fds@hi.is ... er í stökustu vandræðum :(

Mánudagur til mæðu?

56Þreyttur... ofurhelgi að baki með tilheyrandi vinnu (og pínu tjútti á lau). Bakaði jólakökuna ógurlegu í vinnunni um helgina (kryddskúffukaka), skreytti hátt og lágt og gleymdi mér í jólalögum. Ahhh... notó. Frábærir tónleikarnir sem ég fór á á laugardagskvöldið - John Lennon tónleikarnir. Maður kvöldsins er klárlega Bjössi Jör - kalt mat. Þegar hann tók síðasta lag tónleikanna, Strawberry fields, þá hélt ég að mér yrði allri lokið. Hakan hvíldi róleg í kjöltu minni, milli þess sem Ella frænka ýtti henni upp aftur og þurrkaði slefið. Kvenpeningur kvöldsins hefði nú alveg mátt missa sín (Eivör og Hildur Vala) en allir hinir voru unaðslegir. Nýja uppáhaldið mitt er Haukur, söngvari Dikta. Munúðarfull rödd sem maður getur gleymt sér í, og þessi augu! Jidúdda... hh

Skyndihugdettur eru æði. Var algjörlega ekki klædd til útiveru en fór samt sem áður í rauðvínsboð til Eika Keisara eftir tónleikana. Endaði sá hittingur á Café Cultura, sem er nýji uppáhaldsstaðurinn minn, þar sem við kjöftuðum og höfðum það næs. Hress mætti ég í vinnu daginn eftir, jólaþorpið í firðinum góða var skoðað og unaðslambalæri snætt á Strandveginum. Fór svo á næturvakt sem var svona líka hress. Það getur tekið á að koma öllum á lappir og út úr húsi á sama/svipuðum tíma.. fjúff... lak af mér á tímabili - en bara hressandi að byrja/enda daginn svona :)

Smá mánudagsmæða: ég skil ekki (amk) tvennt í fari flestra ökumanna.  Annað er stefnuljósanotkun, eða öllu heldur stefnuljósaleysi. Hvað er svona erfitt við það að gefa stefnuljós þegar þú ert að beygja? Passiði ykkur nú bara á því að sýna ekki tillitsemi í umferðinni. Það gæti eitthvað hrikalegt gerst. Hitt er sá (ó)siður að hleypa öðrum inní raðir. Umferðin á morgnanna er nú ekki sú hraðasta og það gæti tafið viðkomandi bíl um nokkrar sekúndur að hleypa öðrum framfyrir sig. Eða á Laugarveginum þegar fólk er ekki að hleypa bílum framfyrir sig eða að bakka úr stæða. Meina, fer maður einhvern tímann á Laugarveginn þegar maður er að flýta sér - svona yfir höfuð? Auðvitað veit ég að það eru til undantekningar og fólk misupplagt, en upp til hópa megum við skoða þetta í okkar fari. Sjálf hef ég gefið fólki misgóð augu og svipi, flautað og talað við sjálfa mig. En meirihluta tímans sem ég eyði í Kermit er ég fyrirmyndarökumaður - kalt mat!

Gleðilega vinnuviku! 


Félagsráðgjöf meðal fatlaðra í Palestínu

Félagsráðgjöf meðal fatlaðra í Palestínu

Málstofa með Ziad Amro, félagsráðgjafa og forgöngumanni í málefnum blindra og fatlaðra, fyrrum framkvæmdastjóra og formanni Öryrkjabandalags Palestínu, verður í Odda stofu 106 þriðjudaginn 28. nóvember kl. 17.30.

Ziad Amro mun fjalla um starf félagsráðgjafa með fötluðum í Palestínu og starf hans sem formanns Öryrkjabandalagsins þar í landi. Hann er menntaður félagsráðgjafi frá Bandaríkjunum og hefur mikla þekkingu á málefnum fatlaðra.  

Hér er um einstakt tækifæri að ræða til að kynnast starfi félagsráðgjafa við erfiðar kringumstæður. Félagsráðgjafarskor hvetur sem flesta að nýta sér þennan fyrirlestur um félagsráðgjöf og stöðu fötlunarmála í alheimsljósi.

Félagsráðgjafarskor HÍ  
Rannsóknarsetur um barna- og fjölskylduvernd



Nóvember gegn nauðgunum!

Kæri viðtakandi,
Vinsamlega áframsendu þessa beiðni til vina þinna, félaga og ættingja um að fjölmenna á kröfufund fyrir framan héraðsdómsstólana á Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði, Reykjavík og Selfossi laugardaginn 25.nóvember n.k. kl. 16.00.

Krafan er:
Þyngri dóma fyrir nauðganir. - Nýtið refsirammann!

Refsirammi laganna kveður á um að dómar fyrir nauðgun séu frá einu ári upp í 16 ára fangelsi. Flestir sakfellingardómar fyrir nauðgun eru við lægri mörk refsirammans. Við viljum sjá réttlátari og sanngjarnari dóma.

Áskorun um slíkt verður afhent allsherjarnefnd Alþingis á þriðjudag.

með kærri kveðju,
Kristín Ingvadóttir
Anna Kristine Magnúsdóttir

Mig langar í...

Brot af þeim bókum sem mig langar í 2006

 

  • Stelpan frá Stokkseyri – Saga Margrétar Frímannsdóttur e. Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur.
  • Cook with Jamie – nýjasta matreiðslubók mannsins míns
  • Viltu vinna milljarð? e. Vikas Swarup.
  • Barn að eilífu e. Sigmund Erni Rúnarsson.
  • Það er til staður í helvíti fyrir konur sem hjálpa ekki hverri annarri e. Lizu Marklund og Lottu Snickare.
  • Viltu vinna milljarð? e. Vikas Swarup.
  • Matreiðslubók íslenska lýðveldisins e. Eyjólf Elíasson.
  • Brotaþolar, lögreglan og öryggi borgaranna e. Rannveigu Þórisdóttur, Helga Gunnlaugsson og Vilborgu Magnúsdóttur.
  • Eineygði kötturinn Kisi og hnakkarnir e. Hugleik Dagsson.
  • Brotaþolar, lögreglan og öryggi borgaranna e. Rannveigu Þórisdóttur, Helga Gunnlaugsson og Vilborgu Magnúsdóttur.
  • Listin að elska e. Erich Fromm.
  • Ræktað, kryddað, kokkað e. Magnús Jónsson.
  • Verndum þau e. Ólöfu Ásu Farestveit og Þorbjörgu Sveinsdóttur.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband