Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Hvað með okkur?

speaknoevilÞað væri nú gaman að sjá einhverjar tölur yfir okkur Frónbúa. Ég efast um að við séum að lenda í rifrildum í röðum. Ég held það gildi sama viðhorf í röðum og hvað lyftuferðir varðar = ekki segja múkk við aðra og horfðu á gólfið eða hlutlausan punkt á veggnum. Í alvöru, hvað er það? Erum við svona hrikalega lokuð þjóð að við getum ekki einu sinni rabbað við náungann í röðinni?

shopping_cart3Reyndar lenti ég einu sinni í skemmtilegustu röð EVER. Það var þegar Bónus í Smáranum reyndi að selja allt í búðinni á massa afslætti. Ég ákvað, þar sem ég bjó í nágrenninu, að skella mér þangað í leiðinni á starfsmannafund. Flaug eins og stormsveipur um búðina og týndi ofan í handkörfuna nauðsynjarnar og ætlaði svo í röð. Vitiði, það var svo mikið af fólki að raðirnar tepptu alla gangana sem liggja frá kössunum. Ég hef eflaust verið eitthvað leitandi á svip því eldri kona sem stóð hjá mér byrjaði að ræða við mig hvar væri hentugast að fara í röðina. Sameiginlega fundum við röð sem var fýsileg og hún bauð mér að geyma körfuna mína í stóru körfunni hennar. Kona þessi var að versla með barnabarni sinu sem var stúlkukind á aldur við mig. Röðin var svo löng, ég fæ bara pirringskast að hugsa um það, en ég er hrikaleg í biðröðum - alveg hrikaleg. Eftir skamma stund fóru svo hlutirnir að gerast. Séð og heyrt blað kom "gangandi" eftir röðinni, Vikan, Mannlíf og Nýtt líf - svona til að stytta biðina. Las ég úr þeim brandara og sagði slúður við mikinn fögnuð viðstaddra. Nú svo gekk vínberjaklasi eftir röðinni og ýmiskonar sælgæti. Ég og barnabarn konunnar vorum farnar að ræða um aðra konu sem var töluvert fyrir framan okkur í röðinni en hún var með 3 fullar innkaupavagna af vörum! Þá erum við að tala um alveg 2 kassa af rjóma, 1 kassa af tannkremstúpum og þar fram eftir götunum. Ekki nóg með það heldur var hún í slagtogi með annarri konu sem var "bara" með 2 innkaupavagna af vörum. Þegar þær komu að kössunum skiptumst við á að labba að kassadrengnum og kíkja á hvað vörunar kostuðu. Það tók alveg heillangan tíma að renna þessu öllu í gegn. Það er ég viss um að drenginn á kassanum hefur dreymt pííp hljóð alla nóttina. Ég man nú ekki nákvæmlega hvað þetta kostaði hjá þessari elsku, en í síðustu ferðinni sem ég fór að gá var upphæðin komin í rúm 45 þúsund.

hawa33031Eins og ég sagði áðan þá tepptu raðirnar gangana og okkar röð var fyrir goshillunum. Við barnabarnið fórum því að rétta fólki vörur og fíluðum okkur eins og í búð. Buðum Ginger ale í kaupbæti með 2 l kóladrykk, rassaþurrkur (sem einhver hafði skilið eftir í goshillunni) með kippu af sódavatni og sokkabuxur með tónik-vatni. Sumir, sem við afgreiddum, tóku þessu bara ekki. Settu upp skeifu og svipinn: bíddu, veistu ekki að það á ekki að tala við aðra í búðinni? Aðrir tóku þessu athæfi okkar príma vel og spiluðu með - tóku til við að bjóða í gosið með vörum úr sínum innkaupavagni. Algjör snilld. 

Ég tók svo eftir því að einn öldungur var fyrir aftan gömlu konuna, ömmuna í sögunni, með eina ljósaperu - ekkert annað. Ég bauð honum því að koma framfyrir okkur, sem hann þáði eftir að við barnabarnið höfðum útlistað að það væri ekkert mál. Við tókum okkur svo til og fórum til annarrar kvennanna með fjallið af vörum og spurðum hvort öldungurinn mætti koma framfyrir þær, hann væri bara með eina peru. Vitiði, ef ég bara hefði haft myndavél til að taka mynd af svipnum á þeim. Hann var priceless! Ég hefði allt eins geta spurt þær hvort þær væru til í að kúka á höfuðið á mér. En við barnabarnið brostum og jújú, "það ætti að vera í lagi - ef hann er þá bara með þessa einu peru". Öldungurinn okkar varð ekkert smá þakklátur fyrir þetta og sagði að konan sín yrði ánægð því hún biði úti í bíl, enda slæm í mjöðminni eftir brot nokkrum vikum áður. Krúttukallinn. Svo þegar hann var búinn að borga þá veifaði hann okkur og þakkaði kærlega fyrir daginn, enda hafði röðin tekið rúmlega klukkutíma af deginum okkar. Þegar ég var svo loksins komin að kassanum gat ég ekki setið á mér og sagði pirringslega við drenginn: "æji, geturðu ekki drifið þig maður? ég er búin að vera í röð í meira en klukkutíma!" Hann, greyið kúturinn, leit á mig svona puppy-augum og þá hló ég. Sagði bara eins og Borat: NOT!!! þú ert að standa þig eins og hetja, takk fyrir að afgreiða mig. Sem betur fer hló hann, annað hefði verið dálítið mis. Þegar ég var svo búin var það bara veif til ömmu og barnabarnsins og við vorum staðráðnar í því að hittast aftur í svipaðri röð næst þegar það yrði svona útsala. Hvað starfsmannafundinn varðar þá kom ég alltof seint, en ég hafði þó góða afsökun sem var eins og skemmtiatriði :)

friends-cats-largeSvona á þetta að vera. Kannski svolítið ýkt, en tíminn sem við vorum í röð var líka ýktur. Ég er ekkert að segja að maður þurfi að fá lestrarefni og meððí þegar maður bíður í röð. En er ekki allt í lagi að ræða við náungann? Nú, ef náunginn er svo eitthvað álitlegur þá má kannski bara daðra við hann. Allavegana ekki stara útí loftið eða á gólfið og vona að enginn yrði á þig - það er svo ekki kúl. 


mbl.is Deilt og daðrað í biðröðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Túttan á listasafn í Svíþjóð

Sykurmolakórónan sem ég klæddist í afmælinu hennar Völlu um daginn hefur vakið gríðarlega lukku um allan heim og nú er svo komið að mynd af Túttunni er komin á listasafn í Stokkhólmi. Jasko. Ég tek mig nú bara ágætlega út, svona enn stærri en ég er í raun og veru.

 

DorafromIceland
 
Not.
Þessi brandari var í boði Borat.

 


Ályktun

Ályktun Félagsráðgjafafélags Íslands  á alþjóðadegi félagsráðgjafa

Á alþjóðadegi félagsráðgjafa 27. mars var vísað til margra rannsókna á alvarlegum afleiðingum fátæktar á lífsskilyrði fólks.  Alvarleg fátækt er að finna í íslensku samfélagi og kemur hún m.a. í veg fyrir að fólk taki þátt í athöfnum daglegs lífs. Rannsóknir félagsráðgjafa bæði hér á landi og erlendis benda til að fátækt ali  á félagslegri einangrun bæði barna og fullorðinna sem ýtir undir vanmátt, kvíða og vonleysi – oft frá einni kynslóð til annarrar.

Lausnin felst ekki í plástrastefnu sem felur í sér skammtímasjónarmið heldur þarf að vinna að stefnumótun sem felur í sér að uppræta fátækt til frambúðar. Liður í þeirri viðleytni er m.a. öflugt velferðarráðuneyti og altæk velferðarþjónusta.  Hækka þarf laun þeirra sem lifa á samfélagslaunum og skapa aðstöðu til að komast upp úr þeirri fátækargildru sem er við líði í dag.


Í þá gömlu góðu daga...

Muniði eftir laginu sem hljómaði: Í þá gömlu góðu daga, er hann Ómar hafði hár..? Ekki ég. Rámaði bara í þessa setningu þegar ég sá myndina sem er við greinina mína á pólitík.is í dag. Í þá gömlu "góðu" daga þegar ég hafði ekkert hár, eða svona næstum því.

Gaman frá því að segja að í nótt dreymdi mig að ég væri nýkomin með hárlengingar. Já, ekki laust við að mig langi í svoleiðis.

Annars á ég heima í SPSS þessa dagana. Ótrúleg þessi smáatriði sem þarf að fiffa til við það eitt að gera súlurit. Almáttugur, verð orðin spinnegal eftir þessa törn.


Játning

Jæja, það er kannski bara eins gott að játa það hér fyrir ykkur í stað þess að taka á móti skrilljón símtölum um þetta efni. Ég minntist á það um daginn að ég hefði sótt um vinnu nokkru áður. Ég fékk sem sagt svar í síðustu viku og er svakalega spennt vegna þessa. Hreint ótrúlegt hvernig ég gat legið á þessu í heila 4 daga! En seisei, kélla að þroskast held ég bara.

AkureyriMerkiEníhú, nýja vinnan mín er ótrúlega spennandi og kannski svolítið öðruvísi en ég hefði reiknað með að byrja í strax eftir nám. En verður maður ekki bara að stökkva út í djúpu laugina og láta slag standa? Og hvar er ég svo að fara vinna? Júmm, ég mun sjá um nýtt úrræði á vegum Akureyrarbæjar fyrir unglinga sem stunda áhættuhegðun! Tadaramm... einmitt það sem mig hefur langað til þess að gera frá því ég hóf nám. Bjóst ekki við þessu, en það er kannski bara skemmtilegra þannig. Jamm.. meira get ég ekki sagt að svo stöddu þar sem þetta er allt svoldið leyndó ennþá.

confusedOg úr einu í annað. Eftir að ég kom hingað norður hef ég gjörsamlega þurft að læra að nota áttirnar. Hérna segir fólk "norðan við x" og "í syðsta húsinu" og þar fram eftir götunum. Það er sem sagt ekki nóg að segja hægra megin eða vinstra megin - þá skilur fólk mig illa. En þetta er nú allt að koma hjá mér, það get ég sagt ykkur. Ég fór þó í gærkvöldi og ákvað að leigja mér vídjóspólu eftir erfiðan dag. Jújú, ekkert svosem um það að segja nema að eins og á mörgum öðrum stöðum fylgir ein gömul hverri nýrri spólu. Sumstaðar eru ákveðnar hillur fyrir þessar spólur en á flestum stöðum eru þetta spólur undir ákveðnu númeri. En á Akureyri? Jú, þá eru allar spólurnar í austurhlutanum sem fylgja með nýrri spólu. Eftir að hafa staðið í smástund og reynt að gera mér í hugarlund hvað væri austur miðað við staðsetninguna þá fór ég til gaursins sem var að vinna og spurðist fyrir. Eflaust eina manneskjan sem veit ekki hvað er austur þegar maður stendur inní Bónusvídjó...  Tók myndina Proof með Gwyneth Paltrow, Jake Gyllenhaal og Anthony Hopkins. Hún var svosem ekkert til að hrópa húrra fyrir, nema fyrir það að Jake Gyllenhaal er afar myndarlegur piltur. Gamla myndin sem ég tók úr austurhlutanum var sálfræðitryllirinn Trauma með Colin Firth í aðalhlutverki. Hef ekkert heyrt um hana en finnst Colin afar myndarlegur maður og svo sjarmerandi miðað við hlutverk hans í Bridget Jones. Klárlega verð ég að láta annað en fegurð karlkynsleikara ráða för þegar ég vel mér bíómyndir því "tryllirinn" í myndinni var Colin, myndin sjálf var crap.


Ánægði flóðhesturinn

Happy-Hippo-CocoaAhhh... fátt betra en að skríða heim seint um síðdegið og narta í eins og einn Happy Hippo. Sem betur fer fæst sá ánægði ekki hérlendis því þá væri annað en nammið eins og flóðhestur í laginu. Ég luma þó á nokkrum sem ég smyglaði til landsins frá Parma. Fjársjóðurinn minn, leynihornið, varabirgðirnar, eðall.

Annars má ég til með að óska öllum félagsráðgjöfum og félagsráðgjafarnemum til hamingju með daginn í dag. Í dag er nefnilega Alþjóðlegi félagsráðgjafardagurinn haldinn hátíðlegur um heim allan. Af þessu tilefni hélt norðandeild SÍF (Stéttafélag íslenskra félagsráðgjafa - sem nú heitir reyndar Félagsráðgjafafélag Íslands) fund fyrir þá félagsráðgjafa sem starfa á Norðurlandi. Þar sem málstofan mín með fjarfundarbúnaðinum glæsilega féll niður var ég svo heppin að komast á fundinn. Var þar margt um manninn enda félagsráðgjafar hérna á þessum fjórðungi einstaklega fróðleiksfús stétt. Eftir ansi fjörugar og skemmtilegar umræður, m.a. um hið nýja nafn félagsins, steig starfsþjálfunarkennarinn minn í pontu og kynnti MSW-rannsókn sína sem hún gerði á félagsráðgjöfinni við almennar legudeildir FSA. Ég er svo heppin að hafa fengið að lesa rannsóknina strax í janúar þegar ég kom, en góð vísa er sjaldan of oft kveðin. Eftir áhugaverðan fund var svo skundað á Strikið og snætt ljúfan löns. 

Ég hef svosem lítið annað markvert að tjá mig um. Ekkert nema lærdómur í gangi þegar vinnu lýkur. Í kvöld ætla ég þó að líta inn til Síra Óskars og hans ektakvinnu Unu og annað kvöld er ég bókuð á bingókvöld í MA með Völlunni minni. Það skulu því hendur standa fram úr ermum þess á milli, enda styttist ansi mikið í lokaskil BA-ritgerðar.

Jú, svo er það í fréttum að ég er búin að sækja um vinnu á Akureyri í sumar. Upp með ferðatöskuna, þið kíkið við! 

 

20050301180159!Menntask%C3%B3linn_%C3%A1_Akureyri

 


Þér er boðið í afmæli!

Vertu velkomin/nn!!!
 
ammli

Hlemmur - a must see!!

hlemmurÉg gerði mér dagamun í kvöld eftir langa vinnuviku. Á leið minni um hið stórkostlega Amtsbókasafn á Akureyri kom ég við í kvikmyndahillunni og skoðaði fýsilegar myndir. Voru þar allnokkrar sem ég gat hugsað mér að verja/eyða tíma mínum í. Þar á meðal Notting Hill (eins og einhverjir kunna að vita þá er ég fíkill á þá mynd), Volver (Pedro Almodóvar er bara klárlega einn mesti snilli tilli sem ég veit um) og svo Hlemmur. Fyrir valinu að þessu sinni var heimildarmyndin Hlemmur eftir Ólaf Sveinsson, sem fékk hina eftirsóttu Eddu árið 2003 sem besta íslenska heimildarmyndin auk þess sem Sigurrós fékk Edduna sama ár fyrir frumsamda tónlist í myndinni. Ekki slæm ræma það.

Allavegana. Myndin byrjaði vel, afar vel. Mjög athyglisverðar persónur kynntar til leiks, flott settings og tónlistin fúnkeraði vel við það sem var að gerast á skjánum. Reyndar fannst mér spurningarnar mjög leiðandi sem notaðar voru, en svörin sem viðmælendur komu með tilbaka voru aftur á móti sönn. Ég fékk það a.m.k. ekki á tilfinninguna að spurningarnar hefður verið stór áhrifavaldur. Að mínu mati er þetta mynd sem flestir ættu að sjá. Eins og Birgir Örn segir í gagnrýni sinni: ,,Sterk og nauðsynleg mynd sem gefur sýn inní hluta þjóðfélagsins sem við reynum að þegja í hel". Ég gleymdi mér algjörlega í lífi þessara aðila sem myndin tók til. Áberandi fannst mér sögurnar af því að enginn þeirra hafði neitt samband að ráði við börnin sín (og barnabörnin) og margir bara alls ekkert - ekki að þeirra undirlagi. Ég finn ennþá sting í hjartanu vegna þessa. Þetta undirstrikar einnig hvað það er ofboðslega mikilvægt að hafa aðstandendur með í dæminu, hvað svo sem er að gerast í lífi fólks. Fjölskyldan er eins og órói sagði Virgina Satir, ef eitthvað kemur fyrir einn þá riðlast allur óróinn. Oft er lítið hugsað um aðstandendurna og hvað þeir eru að fást við. En aftur að myndinni. Einn aðilinn var/er? strætóbílstjóri. Hann virkaði alveg þokkalega vel á mig, búinn að ganga í gegnum margt en einnig búinn að hífa sig upp og ná sér aftur á strik. Ljúfur og rólegur maður sem langaði svolítið til þess að eiga konu til að koma heim til á kvöldin og spjalla við. Hann sagðist vera að íhuga það að fá sér konu frá Asíu, þær væru svo broshýrar og nytu lífsins. Allt gott og blessað með það. En svo kom höggið á hana Fanney Dóru. Stuttu seinna í myndinni sagðist hann ekki treysta ráðamönnum þjóðarinnar og ekki aðhyllast neina pólitíska stefnu hérlendis. Stefnan sem hann aðhyllist er sósíalískur þjóðernisstefna. Já. Maðurinn var alveg með það á hreinu að Nazi ætti eftir að gerast hérna á Íslandi. Það væri alltaf að koma fleira og fleira dökkt fólk hingað til landsins og það þyrfti að gera eitthvað í því. Jámm.. ekki orð um það meir. Horfið á myndina! Þegar fór á líða undir lokin þurfti ég svo að setja á pásu öðru hverju til að þurrka vot augun svo ég gæti fókusað á skjáinn. Meyra konan.

Afsakið.. þetta kom útúr mér í einni bunu. Ergo: Sjáið myndina sem fyrst! Og ef þið munið eftir því, deilið skoðun ykkar með öðrum, bloggið, sendið sms og talið um myndina á kaffistofum. Ég veit ég er svolítið á eftir, myndin orðin nokkurra ára gömul, en hún er klassi. Tékkið á kynnismyndbandinu.

Kvót myndarinnar: Manni svíður oft og maður grætur. Svo koma nætur. Sorgin hverfur með sólinni þegar hún skín að morgni. (þegar hann talaði um að hann fengi ekki að vera með börnum sínum og barnabörnum)


Kynferðisbrot gegn börnum

Kynferðisbrot gegn börnum – Er samfélagið lamað?  

Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði boða til opins fundar á Súfistanum miðvikudagskvöldið 7. mars næstkomandi kl. 20:00.

Rætt verður um refsingar fyrir kynferðisbrot gegn börnum og fyrirbyggjandi úrræði.  

Frummælendur verða:

Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður Samfylkingarinnar.

Helgi Gunnlaugsson prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.

Katrín Júlíusdóttir alþingismaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.

Svala Ólafsdóttir prófessor í refsirétti við Háskólann í Reykjavík. 

Að erindum frummælenda loknum verða pallborðsumræður og opnað fyrir spurningar úr sal.


Stórir steinar

Um daginn fór ég á fræðslufyrirlestur um tímastjórnun hérna í Kristnesi. Fínn fyrirlestur sem byrjaði á því að lesin var upp sagan Stórir steinar. Ég heillaðist alveg af henni og læt hana því flakka. Njótiði!

stones-02Dag einn var sérfræðingur í tímaskipulagningu að tala fyrir framan hóp viðskiptafræðinema. Til að koma meiningu sinni almennilega til skila, þá notaði hann sýnikennslu sem nemendurnir gleyma aldrei. Þar sem hann stóð fyrir framan þennan hóp af metnaðarfullu fólki, þá sagði hann: “Jæja, þá skulum við hafa próf.” Hann tók upp 5 lítra krukku með stóru víðu opi, og setti hana á borðið fyrir framan sig. Svo tók hann um það bil 10 hnefastóra steina og varfærnislega kom þeim fyrir í krukkunni, einn af einum. Þegar krukkan var full, og ekki hægt að koma fleiri steinum í hana, þá spurði hann: “Er krukkan full?” Allir í bekknum svöruðu: “Já.” “Jæja?” sagði hann. Hann teygði sig undir borðið og tók upp fötu með möl. Því næst sturtaði hann smá möl í krukkuna og hristi hana um leið sem orsakaði það að mölin komst niður í holrúmin á milli stóru steinanna. Svo spurði hann hópinn aftur: “Er krukkan full?” Í þetta sinn grunaði nemana hvað hann var að fara. “Sennilega ekki,” svaraði einn þeirra. “Gott!” svaraði sérfræðingurinn. Hann teygði sig undir borðið og tók upp fötu af sandi. Hann hellti úr henni í krukkuna og sandurinn rann í öll holrýmin sem eftir voru milli malarinnar og stóru steinanna. Enn spurði hann: “Er krukkan full?” “NEI!” æptu nemendurnir. Aftur svaraði hann: “Gott!” Hann tók því næst könnu af vatni og hellti í krukkuna þar til hún var alveg full. Svo leit hann á bekkinn og spurði: “Hver er tilgangur þessarrar sýnikennslu?” Einn uppveðraður nemandinn rétti upp höndina og sagði, “Tilgangurinn er að sýna, að það er sama hversu full dagskráin hjá þér er, ef þú virkilega reynir, þá geturðu alltaf bætt fleiri hlutum við!” “Nei.” Svaraði sérfræðingurinn. “Það er ekki það sem þetta snýst um.Sannleikurinn sem þetta dæmi kennir okkur er þessi: Ef þú setur ekki stóru steinana í fyrst, þá kemurðu þeim aldrei fyrir. Hverjir eru ‘stóru steinarnir’ í þínu lífi? Börnin þín… Fólkið sem þú elskar… Menntunin þín… Draumarnir þínir… Verðugt málefni… Að kenna eða leiðbeina öðrum… Gera það sem þér þykir skemmtilegt… Tími fyrir sjálfa(n) þig… Heilsa þín… Maki þinn. Mundu að setja STÓRU STEINANA í fyrst, eða þú munt aldrei koma þeim fyrir. Ef þú veltir þér upp úr litlu hlutunum (mölin, sandurinn, vatnið) þá fyllirðu líf þitt með litlum hlutum sem skipta í raun ekki máli og þú munt aldrei hafa þann tíma sem þú þarft til að eyða í stóru mikilvægu hlutina í þínu lífi (stóru steinarnir). Semsagt, í kvöld, eða í fyrramálið, þegar þú hugsar um þessa stuttu sögu, spurðu þig þá að þessarri spurningu: “Hverjir eru ‘stóru steinarnir’ í mínu lífi?” Settu þá svo fyrst í krukkuna. -höfundur ókunnur.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband