Færsluflokkur: Dægurmál

Dekkjaþjófur, I´ll find you!

Síðasta prófið á morgun, loksins. Eftir prófið erum við á 3. árinu að fara saman í óvissuferð sem verður eflaust svakalega gaman. Svo er væntanlegt tjútt um kvöldið, enda er Tinna Mjöll DJ á Kofanum :) Ætli maður kíki eitthvað á Hressó líka?

Annars var ég að skipta um dekk á bílnum mínum. Það var "örlítið" meira mál en ég gerði ráð fyrir þar sem einhver er búinn að taka nýju sumardekkin sem voru versluð í fyrrasumar :( Leitaði í öllu húsinu, var eins og hæna á priki inní einhverri lítilli geymslu undir stiganum, öll í smurning og skít að leita að dekkjum. Helv... hvað ég var reið og sár... er í svo miklu ójafnvægi núna að ég get illa einbeitt mér að lærdómnum, sem er slæmt þar sem prófið byrjar kl. 9 í fyrramálið... Mig langar bara mest til þess að grafa mig ofan í smá holu hérna í garðinum og hvíla mig þar í svona viku... hnuss!


Er ég meðvirk eða hvað?

Ég hef heyrt það þónokkrum sinnum í gegnum mitt stutta líf að ég sé meðvirk, yfirleitt í tengslum við allt aðrar aðstæður en hugtakið þekkist. Ég er farin að halda að það gæti leynst sannleikskorn í þessu. Í dag var próf hjá mér í námskeiði sem heitir Greining geðrænna vandkvæða. Líkt og ég kom inná í gær þá fann ég mig í flestum röskununum sem ég las um alla síðustu viku, mismikið þó. Nú og svo dreymdi mig herlegheitin í alla nótt. Eins og þetta sé ekki nóg! Rétt fyrir hádegi varð ég ótrúlega kvíðin fyrir þetta próf og var eiginlega hætt við að fara í það. Ég hef aldrei lent í svona áður, yfirleitt er ég mjög kærulaus á prófdaginn, fer í sund, ræktina og dúlla mér fram að prófinu. Í dag gat ég varla andað á tímabili, ég skalf eins og kona í hríðum, svitnaði, grenjaði og allur pakkinn. Ég fór þó í prófið eftir mikla umhugsun og nokkra skammta af súrefni. Prófið gekk bara ágætlega en mikið er ég nú fegin að vera búin með það. Næsta próf er í stjórnun og stjórnsýslu á laugardaginn. Spurning hvort ég fari að skipa fólki fyrir fram að því...

Geitungar oj bara!

Uppstigningardagur geitunga? Vá hvað ég hlakka til... eða kannski bara ekki. Mínusinn við sumarið eru öll skordýrin sem vakna til lífsins í góðviðrinu. Ég er fáránlega hrædd við geitunga og býflugur, og alveg pínu við köngurlær líka. Svo finnst mér hrossaflugur ógeðslegar því þær eru svo lúmskar og ... jakk.. fæ bara hroll. En af því að ég er svo mikið fyrir áskoranir þá slengi ég einni hérna fram: Ég skora á þig lesandi kær að draga djúpt andann innum nefið næst þegar þú ferð út úr húsi. Lyktin af trjánum og grasinu er ótrúleg. Jafnast eflaust á við nokkurra tíma svefn. Svo ef maður stendur útí glugga í ca korter getur maður horft á laufblöðin stækka... unaðslegt alveg hreint.

Minna unaðslegt er þetta próf sem ég er að fara í eftir hádegið. Dreymdi geðræn vandkvæði í alla nótt og fólk sem ég þekkti kom og tengdi mig við nánast alla flokka vandkvæða - og allt skv. DSM-IV kerfinu sjáiði til! Ef þetta kallar ekki á skókaup eftir prófið, þá veit ég ekki hvað!


mbl.is "Uppstigningardagur geitunga" á næstunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sundlaug án fola er eins og...

pulsur...

... líf án stjórnmála? 

Dagurinn í dag var stórkostlegur. Ég vaknaði ekkert alltof seint, kíkti smá í bækurnar áður en ég og Kermit rúlluðum uppí Salalaug í Kópavogi. Þessi sundlaug er núna uppáhaldssundlaugin mín. Ekki skemmdi fyrir að sólin skein sem skærast og var alveg slatti af fólki sem ég gat fylgst með: Gamalt fólk: 50%, fjölskyldufólk: 25%, börn: 10%, einstæðingar eins og ég: 15%, folar: 0%. Þrátt fyrir þetta gef ég þessu nú alveg nokkur skipti í viðbót. En ef þetta heldur svona áfram þá er ég hrædd um að ég verð að halda áfram að fara í Laugardalslaugina og Árbæjarlaug.. þar eru amk. nokkur % fola.

Eftir að hafa stússað við mig alveg heillengi í klefanum kom ég fersk útí sólina og heyrði í Þóru. Hún sagði mér að frændi hennar hefði beðið hana um að koma og hjálpa til við að koma kosningaskrifstofunni í stand fyrir opnunina sem átti að vera kl. 15. Auðvitað sagði ég já. Kom svo í ljós að þessi frændi hennar er enginn annar en Pétur formaður, eða réttara sagt fyrrum formaður Röskvu. Frábær tilviljun. Eftir að hafa sett helíum í nokkur hundruð blöðrur og raðað upp stólum og borðum fékk ég aðalhlutverkið. Eða ég tók aðalhlutverkið af Pétri þar sem mér fannst hann ekki standa sig nógu vel. Ég stóð og grillaði mini-pulsur í um tvær klukkustundir og leyfði fólki að dást að grillmennsku minni. Grillvökvinn sem ég fékk var nú reyndar bara Egils Kristall, en það dugði. Núna ætla ég svo að vera dúleg að læra þangað til ég fer í mat á eftir... og svo auðvitað læra í kvöld þar sem ekkert annað er planað...


Viðurkennum alla Íslendinga, takk!

Um daginn sat ég málþingi uppí Háskóla Íslands þar sem umræðuefnið var menning heyrnarlausra. Slíkt málþing hefur aldrei áður verið haldið hér á landi og var því um stórviðburð að ræða. Enga fjölmiðla sá ég á svæðinu og finnst mér það til skammar hversu lítinn áhuga fjölmiðlar (og aðrir) sýna menningu heyrnarlausra og heyrnarlausum almennt. Mér finnst heyrandi fólk almennt fávíst um landa sína sem ekki heyra. Margir telja að enga menningu sé að finna í samfélagi heyrnarlausra og það hljóti bara að vera leiðinlegt að heyra ekki. En raunin er önnur. Meðal heyrnarlausra blómstrar menning líkt og í öðrum samfélgöum og flestir heyrnarlausir sem ég þekki vilja ekki fá heyrn, enda þekkja þeir mun betur inná sitt eigið samfélag heldur en samfélag heyrandi.

Það hlýtur þó að vera erfitt að búa í litlu samfélagi, eins og Íslandi, þar sem tungumál manns er ekki viðurkennt. Ef við viðurkennum ekki tungumálið, getum við þá viðurkennt einstaklinginn sem talar það tungumál? Á meðan sænska þjóðin heldur uppá 25 ára afmæli sænska táknmálsins sem móðurmáls í Svíþjóð hefur íslenska þjóðin ekki enn viðurkennt íslenska táknmálið sem móðurmál hérlendis. Heyrnarlausir einstaklingar eru stoltir af uppruna sínum og móðurmáli, táknmálinu, líkt og við heyrandi og íslenskutalandi erum stolt af okkar uppruna og íslenskunni okkar. Þar sem aðeins lítill hluti Íslendinga talar táknmál geta samskipti milli þessara tveggja hópa oft verið erfið og því kannski auðveldast að sleppa þeim bara.

Heyrnarlausir hafa í aldanna rás búið við kúgun hins heyrandi heims og tel ég lítið lát vera þar á. Vissulega hefur eitthvað breyst til batnaðar en alls ekki nóg. Í könnun sem unnin var fyrir Félagsmálaráðuneytið árið 2004 kom fram að heyrnarlausir búa enn í dag við félagslega einangrun – líka hérna á Íslandi. Samskipti heyrnarlausa við heyrandi eru skammarlega lítil og hverju er um að kenna? Eins og áður sagði eru fáir Íslendingar sem tala táknmál og því lítið um samskipti utan samfélags heyrnarlausra. Ég tel að í öllum grunnskólum landsins ætti að vera boðið uppá táknmál sem valnámskeið, ef ekki bara skyldunámskeið. Með því gætu allir borgarar þessa lands fengið grunn í íslensku táknmáli og lært á tjá sig við landa sína sem ekki tala íslensku. Táknmál er kennt í örfáum framhaldsskólum og er sú kennsla sem þar fer fram er skref í rétta átt. En betur má ef duga skal.

Frumvarp til laga um táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra hefur enn ekki fengið þá umræðu sem það á skilið á Alþingi þrátt fyrir að hafa fyrst verið lagt fram Alþingisárið 2003-2004. Lítið sem ekkert hefur komið útúr þeim nefndum sem áttu að skoða málefni heyrnarlausra. Heyrnarlausir fá einungis átta mínútna fréttatíma dag hvern. Hversu lengi á þetta að ganga svona? Mér finnst mál til komið að við tökum okkur saman í andlitinu og gera eitthvað í málunum. Ég skora á heyrandi Íslendinga að líta í eigin barm og ímynda sér þann veruleika sem blasti við ef tungumál ykkar væri ekki viðurkennt af meirihluta þjóðarinnar. Viðurkennum alla Íslendinga!


Fegurðardramadrottningar

Skemmtileg frétt hérna á mbl.is um íranska konu, Tamar Goregian, sem neitar því að hafa verið kjörin Ungfrú Íran á dögunum. Konan, sem er verkfræðingur að mennt, er sögð hafa afsalað sér titlinum eftir hótanir frá írönskum öfgamönnum enda brjóta fegurðarsamkeppnir í bága við íslömsk gildi. Nú þarf aumingja konan að flytjast búferlum og halda heimilisfangi sínu leyndu svo hún verði barasta ekki drepin. Daman sem var í öðru sæti þarf einnig að gera slíkt hið sama. Skrýtið samt ef Tamar man ekki eftir því að hafa verið kosin Ungfrú Íran. Maður hefur nú alveg heyrt um allsvakalega "black-out" en þetta hlýtur að skora ansi hátt á skalanum.

 Og í annað þessu tengt, eða ekki. Fletti í gegnum Séð og heyrt í gær, enda átti ég að vera gera ritgerð. Stórskemmtilegar fréttir eru þar oft á boðstólum og þetta tölublað var engin undantekning. Þarna las ég um hin ótrúlegustu pör sem voru að finna ástina, nú eða pör þar sem "ástin hafði kulnað". Einnig las ég um dreng sem keypti skó í Kringlunni fyrir nýju kærustuna sína og er sagður hafa heillað hana alveg uppúr skónum. Þá var þarna klausa um Óla Geir, fyrrum Herra Ísland, en hann er víst í turtildúfuleik með 16 ára gellu - þau kynntust á Hverfisbarnum. Jæja, burtséð frá því þá er gaurinn kominn með lögfræðing og neitar að afhenda sprotann og titilinn! Já, þið lásuð rétt. Hann telur að brotið hafi verið á sér og að hann sé með réttu hinni eini sanni Herra Ísland. Góð fyrirmynd það, að halda klámkvöld, sjá um stórfurðulegan sjónvarpsþátt og ég veit ekki hvað og hvað. 

Annars er ég að hugsa um að setja inn (aftur) greinina mína sem birtist í Lesbók Moggans um daginn. Jamm, það er margt hægt að dunda sér við í próflestri Ullandi


mbl.is Harðneitar því að hafa verið kjörin Ungfrú Írak en afsalað sér titlinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

I´ll spank you

spanking
Á hverjum degi kíki ég reglulega yfir fréttirnar á mbl.is og hef oft voðalega gaman af. Í morgun gat ég þó ekki annað en skellt uppúr við að lesa þessa frétt. Þar segir frá miðaldra konu sem kærði fyrirtækið sem hún vann hjá fyrir það að yfirmaður hennar rassskellti hana. Þessar rassskellingar áttu að þjóna þeim tilgangi að hvetja fólkið til þess að standa sig betur í vinnunni sinni. Þá var einnig kastað rjómatertum í andlit þeirra, starfsmenn látnir borða barnamat eða settir á þá bleyju. Þetta fyrirtæki hætti reyndar árið 2004 eftir að kona ein slasaðist við rassskellingu og kærði það. Ég fann þó heimasíðu þessa fyrirtækis og til gamans má geta að á forsíðu þess kemur fram: "...we’re always striving to better understand the needs and concerns of our customers". Talandi um að einblína bara á viðskiptavinina en ekki starfsfólkið!

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband