Færsluflokkur: Dægurmál

Verður æ betra að búa í Kópavogi

Ég var að koma úr svaðalegum göngutúr. Flúði troðfullu þvottakörfuna mína og tók i-podinn með. Saman lögðum við upp í leiðangur um Kópavog sem einungis er hægt að sjá fótgangandi. Þetta tengist líka allt rúnt sem ég fór með Þóru vinkonu í fyrrakvöld. Þóran tararna er Kópavogsbúi í alla enda og veit mest um Kópavog af þeim manneskjum sem ég þekki. Ég held að hennar æðsta ósk sé að ég kynnist Kópavogsbúa og muni giftast honum og búa í Kópavogi, helst vesturbænum í Kópavogi. Þetta var nú samt útúrdúr, ég var að tala um Kópavog.

Já, við fórum sem sagt svakalegan rúnt í fyrrakvöld þar sem ég skoðaði leyndar götur og garða, hús sem voru með svalir alveg ofan í sjóinn, "Central Park" Kópavogs, Rútstún (en Rútur var einmitt fyrsti bæjarstjórinn í Kóp. Hann átti þetta tún og gaf bænum það með því skilyrði að það ætti áfram að vera tún, sem það og er enn þann dag í dag. Konan hans hét einmitt Hildur og var líka bæjarstjóri í Kópavogi eftir að kallinn hætti. Segiði svo að ég sé ekki í sumarskóla!) og gamla Kópavogshæli. Einstaklega fræðandi rúntur get ég sagt ykkur.

Fræðslutúrnum var svo haldið áfram í morgun, en þá vorum við bara tvö, ég og Folinn eða i-podinn eins og hann er líka kallaður. Við gengum frá húsinu mínu og í átt að Nauthólsvík. Á leiðinni má sjá aragrúa listaverka, oft tengd skólum bæjarins. Þá má líka skoða Tré ársins 2005 sem er Rússalerki og stendur við göngustíginn. Nú svo má líka njóta þess að anda inn um nefið og finna lyktina af birkinu og hvönnunum sem vaxa eins og vindurinn þarna! Þess má geta að allt er þetta malbikað svo hægt er að fara þessa leið á línuskautum :) Jeij!

Svei mér þá, ef ég er bara ekki alvarlega að íhuga Kópavog sem framtíðarstað...


Beauty takes pain?

Ái! Hef verið að pína sjálfa mig með þessu tæki núna í hátt í klukkutíma. Fyrir þá sem ekki vita þá er þessi græja hrikaleg, en algjör snilld. Hún virkar eins og rakvél, nema hún plokkar hárin og því minnka ræturnar og það er eins og maður hafi farið í vax. Kosturinn við vaxið er þó að þá fer alveg heil rönd í einu, en þessi græja plokkar og plokkar og er vond við mann. En hey, allt fyrir mjúka leggi, right? ;)

Færeyskir dagar nálgast...

Mikið vona ég að sumarið sé núna komið. Sólin er á leiðinni til Ólafsvíkur um helgina, enda er hátíðin Færeyskir dagar haldin þar. Bryggjuball annað kvöld, Jónsi og folarnir í Svörtum fötum á laugardagskvöldið... svíííít!

Við frænkurnar lögðum leið okkar á Snæfellsnesið í gærkvöldi þar sem amman okkar átti 75 ára afmæli. Í tilefni þess fóru angar hennar með henni á Hótel Búðir í þvílíkt djúsí dinner, blandaðir sjávarréttir í lime-kóriandermarineringu, hægeldað lambafilé og svo súkkulaðikaka með vanilluís og ávöxtum... mmmm... var komin heim um tvö í nótt sem gerir mig ofurþreytta í dag - en það er alltaf hressandi.

Jæja þá, ætlar einhver að koma á Færeyska daga og taka dansinn með mér á föstudags- nú eða laugardagskvöldinu?


5 ára stúdent

Jæja, ég held að orkubyrgðir líkamans séu allar að koma til eftir helgina. Ég hélt ég væri of gömul í þetta en neinei... Það sem uppúr stendur er:

Láka-barmmerkin
  • 4ra daga djamm - úff
  • ógleymanlegar nostalgíu- sem og nýjar sögur
  • gisting á 5 stjörnu hóteli eina nótt (Takk Vallan mín! :-*)
  • gisting á heimavist hinar 3 næturnar
  • Alltof mörg Opal/Tópas/Gajol skot
  • Greifapizza mmm....
  • Karólína.. yeah!
  • Óvissuverðin á fimmtudaginn algjör snilld...
  • Flottasti búningurinn klárlega Lákamerkin og skeggin - 4. FG auðvitað
  • 16. júní = gæsahúð og gleðitár
  • Jónsi (fær þó mínusstig fyrir að kyssa konuna sína í miðju lagi!)
  • MacGretzky á Nætursölunni
  • Týndi veskinu mínu - fann það aftur
  • gekk um í hælaskóm í Kjarnaskógi og upp að Hömrum - maður er ekki á lausu fyrir ekki neitt!
  • Bíllinn með áfengiskerruna sem keyrði á eftir rútunum í óvissuferðinni, skníílld!
  • Allar heimsóknirnar sem ég ætlaði í, en fór ekki... ómögulegt að heimsækja aðra en MA-inga þessa helgi.. maður er ósamræðuhæfur um annað en MA-sögur
  • raddleysið eftir ballið á föstudeginum.. sem breyttist í hæsi en ég er öll að koma til
  • Kynnisferðin sem ég fékk frá 10. ára stúdent ... var sem sagt kynnt fyrir öllum 10. ára karlkyns stúdentum sem voru á lausu
  • Einar landó - jafnast ekkert á við hann
  • Allt þetta yndislega fólk sem ég þekki síðan úr Menntaskólanum á Akureyri! Takk fyrir frábæra skemmtun!
Fannsa að dimmitera

Umfjöllun um heyrnarlausa

Mig langar til þess að benda ykkur á að í Mogganum í dag er góð grein sem Júlía í SHH skrifar, hún er á bls. 29. Svo er líka í gangi 3ja daga umfjöllun um heyrnarlausa í Kastljósi, síðasti dagurinn er í dag. Hina þættina má finna hér og hér. MJÖG áhugavert málefni sem ég hvet alla til að kynna sér.

Að eignast fatlað barn

Á næturvakt er gaman. Fann möppu ofan í skúffu þar sem eru upplýsingar um þær fatlanir sem þjónustuþegar skammtímavistunarinnar hafa. Mjög fróðlegt og gott að lesa þetta, margt sem maður kannast við og annað sem kemur á óvart. Ég átti ekki von á því að finna eitthvað "nýtt" þegar ég fór yfir Downs pakkann en rakst á þessa frábæru sögu og fékk hana lánaða af www.downs.is. Hún er frábær leið til þess að gefa okkur pínku innsýn inní líf foreldra sem eignast fatlað barn. Njótiði vel og nýtiði hana vel!

Velkomin til Hollands

 

eftir 
Emily Perl Kingsley




Ég hef oft verið beðin um að lýsa því hvernig það er að ala upp fatlað barn, til þess að fólk sem hefur ekki notið þessarar sérstæðu reynslu geti skilið og ímyndað sér hvernig tilfinning það er.
Það er eins og...
Þegar þú átt von á barni er það eins og að skipuleggja dásamlegt ferðalag, t.d. til Ítalíu. Þú kaupir fullt af leiðsögubókum og skipuleggur frábærar ferðir.Til Colosseum-safnsins, sjá Davíð Michelangelos og gondólana í Feneyjum.Þú lærir jafnvel nokkrar setningar í ítölsku. Þetta er allt mjög spennandi.
Eftir að hafa beðið spennt í marga mánuði rennur dagurinn loksins upp. Þú pakkar niður og leggur af stað. Eftir nokkurra klukkustunda flug lendir vélin.Flugfreyjan kemur inn og segir: "Velkomin til Hollands."
"Hollands?!?" segir þú. "Hvað meinar þú með Holland? Ég ætlaði að fara til Ítalíu! Ég á að vera á Ítalíu. Alla ævi hefur mig dreymt um að fara til Ítalíu."
En það hefur orðið breyting á flugáætlun. Flugvélin er lent í Hollandi og þar verður þú að vera.
Mestu máli skiptir þó að þeir hafa ekki flogið með þig á hræðilegan, viðbjóðslegan, skítugan stað fullan af meindýrum, hungri og sjúkdómum. Þú ert bara annars staðar en þú ætlaðir þér í upphafi.
Þú verður því að fara út og kaupa nýjar leiðsögubækur og læra nýtt tungumál. Þú kemur til með að hitta hóp af fólki sem þú hefðir annars aldrei hitt.
En þetta er bara annar staður. Allt gerist miklu hægar en á Ítalíu og hér er ekki eins töfrandi og á Ítalíu. Þegar þú hefur náð andanum, staldrað við um stund og litið í kringum þig, ferðu að taka eftir því að í Hollandi eru vindmyllur... og í Hollandi eru túlípanar. Holland getur jafnvel státað af Rembrandt.
Allir sem þú þekkir eru uppteknir við að koma og fara frá Ítalíu... og þeir eru allir að monta sig af því hversu góðar stundir þeir áttu þar. Alla ævi átt þú eftir að segja: "Já, það var þangað sem ég ætlaði að fara, það var þangað sem ég var búin að ákveða að fara."
Sársaukinn mun aldrei, aldrei hverfa, því missir draumsins sem ekki rættist er mikill.
En... ef þú eyðir allri ævinni í að syrgja að þú fórst ekki til Ítalíu nærð þú aldrei að njóta þeirra sérstöku, yndislegu hluta, sem Holland hefur upp á að bjóða.


Íslensk þýðing: Indriði Björnsson


Málleysi

Sáuð þið Ísland í dag í gærkvöldi? Þar var tekið viðtal við sjómann sem heiðraður var á Sjómannadaginn í Reykjavík. Hann hefur verið á sjó í tugi ára og er heyrnarlaus. Mér finnst frábært að Ísland í dag hafi séð sóma sinn í því að taka viðtal við manninn, heyr heyr. Annað sem ég er gríðarlega hneyksluð á er framkoma fréttakonunnar við manninn. Hún byrjaði viðtalið á að segja: ,,nú ert þú bæði heyrnarlaus og mállaus..." !!! Halló? Er ekki fokkin 2006? Hvað gefur þessari fréttakonu rétt til þess að dæma það hvort táknmálið sem hann notar sé mál eða ekki? Með því að segja þetta var hún gjörsamlega að gefa skít í hans móðurmál, táknmálið. Það er líka alltof algengt, þrátt fyrir að árið sé 2006, að almenningur haldi að heyrnarlausir geti ekki talað. Auðvitað geta heyrnarlausir alveg talað.. alveg eins og Grænlendingar, Akureyringar, Vestmannaeyjingar, Slóvenar og Íslendingar. Það eru bara fordómar að halda öðru fram.

Jæja, það má vel vera að ég sé að gera úlfalda úr mýflugu yfir þessu. Mér finnst það bara þess vert að tala um þetta þar sem þetta kom fram í fjölmiðlum. Fjölmiðlar hafa gríðarleg áhrif á þankagang almennings í landinu. Fólk sem vinnur í fjölmiðlum verður að vera meðvitað um það hvernig það talar, ekki bara hvað málfar varðar. Heyrnarlausir eru ekkert heimskir, það eina sem greinir þá frá okkur er ekki það að þeir séu mállausir heldur að þeir heyra ekki - heyrnarlausir.


Reiðipistill um fatlaða... og dagbókarfærsla

Reykjavík Trópík: FRÁBÆR! Unaðsleg hátíð sem ég ætla pottþétt að mæta á að ári - þó svo að um þær mundir (getur maður sagt svo?) verði ég í Danaveldi. Supergrass voru frábærir, svei mér þá ef ég skoppaði ekki extra mikið akkúrat þegar þeir voru að spila. Trabant voru klárlega númer hátíðarinnar að mínu mati, sem og Sleather Kinney sem spilaði á Nasa. Fílaði þessar rokktussur í tætlur, trommaragellann er sko mín (ef ég bara væri lesbísk).

Hommaball á Kaffi Reykjavík var á dagskrá á sunnudagskvöldið eftir að Trópík lauk. Ég, Tinnan mín og Árni vinur minn fórum þangað. Ótrúlegt stuð, endalaust af Eurovision lögum og stemmingu. Pant fara á svona ball aftur! Vei vei vei!

Er búin að vera frekar lasin síðustu 2 daga, beinverkir, hálsbólga, höfuðverkir og almennt slen. Ömurlegt að vera lasin, algjörlega ömurlegt. En ofurtúttan er risin úr rekkju, enda tæp vika í reunion aldarinnar! Vúbbídúbbí!

Árni bauð mér á rúntinn í kvöld og fór meira að segja með mér á staði hér í borg sem ég hef aldrei skoðað áður. Meðal þeirra var gamli Heyrnleysingjaskólinn sem er rétt hjá kirkjugarðinum í Fossvoginum (þar sem Brúarskóli er núna). Unaðslegt umhverfi, hefði sko þokkalega verið til í að vera þarna í skóla. Endalaust af fallegum trjám og fallegu umhverfi. Þarna var líka (í gamla daga) heimavist fyrir heyrnarlaus börn sem voru tekin frá foreldrum sínum og beinlínist vistuð þarna for better or worse. Þarna var mötuneyti, félagsmiðstöð, íþróttasalur og allt sem þarf. Frábær hugmynd kannski, eða hvað?

Þrátt fyrir að vera falleg hugsun þá er þetta dæmi um aðgreiningarstefnu, þeir sem ekki eru eins og meginþorri almennings eiga að vera annars staðar. Í dag var ég á nýliðanámskeiði hjá Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Reykjanesi (en þar vinn ég einmitt) og kom þar kona nokkur, Salome að nafni, og talaði við okkur um fatlaða og aðra jaðarhópa í samfélaginu (s.s. konur, svarta, feita og aðra - allt á mismunandi tímapunkti). Hún sagði okkur m.a. að þegar hún byrjaði að vinna á Kópavogshæli (spáiði í nafni?!?) árið 1978 minnir mig, var hún á deild þar sem 17 karlmenn bjuggu. Þar voru 2 klósett með 4 klósettskálum og 2 sturtum, þröngur húsakostur og fyrir allan þennan skara voru til samtals 2 tannburstar! Hugsiði ykkur! Þeim fötluðu sem bjuggu þarna var "færð" öll þjónusta svo þau "þurftu" ekki að sækja hana útí bæ. T.d. kom hárgreiðslukona reglulega og klippti fólkið, það var bara einn tannlæknir sem samþykkti að þjónusta "þetta fólk", tískuvöruverslanir komu með stafla af fötum og seldu fólkinu og svo mætti lengi telja. Allt til þess eins að "auðvelda þessu blessaða fólki lífið". Iss piss, hlusta ekki á svona! Hvað er meira hallærislegt en að viðurkenna ekki sjálfræði fatlaðra (og hvaða jaðarhóps sem er ef út í það er farið?) og veita þeim valkosti til að lifa sínu lífi? Maður spyr sig?? Af hverju mega fatlaðir, svartir, heyrnarlausir, feitir og aðrir í samfélaginu ekki bara velja sína hárgreiðslustofu, sinn skóla, sinn farmáta og þar fram eftir götunum. Ef töluvert fatlaður einstaklingur ætlar að fara í bíó þarf hann að ákveða það með minnst sólarhrings fyrirvara svo hægt sé að panta ferðaþjónustu fatlaðra og gera ráð fyrir fötluðum á sýningu. Er þá ekki bara betra að sitja heima? Það er ekki þetta fólk sem er fatlað, gott fólk. Það er samfélagið sem við búum í sem fatlar þetta fólk! Jisús minn hvað ég get hneykslast á svona löguðu!

Já, og afsakiði öll upphrópunarmerkin. Þetta er bara ég...


Gleðilegan kjördag!

Þrátt fyrir að vera ekki lögfest í Höfuðborginni grípur mig mikil spenna þegar ég hugsa um kosningarnar í Dag. Svei mér þá ef ég á bara ekki eftir að verða svolítið æst líka yfir þessu. Annars er mitt atkvæði komið á sinn stað í Snæfellsbæ og þar með kaus ég í fyrsta skipti utan kjörfundar. Það var hressandi.

Í Dag er ég sem betur fer bara að vinna til rúmlega tvö og ætla að nýta Daginn í eitthvað sniðugt og skemmtilegt, svona í tilefni Dagsins. Ég mun þó ekki tapa mér í taumlausri gleði og villimennsku í kvöld þar sem vinnan bíður eftir mér árla morgunDagsins. En það er í lagi :)

Las yfir Fréttablaðið í Dag þegar ég kom hingað í vinnuna. Eina sem situr eftir er að það er ómótstæðilegur Dagur framundan og endalaust margar auglýsingar frá Frjálslynda flokknum.

En jæja, mér er ekkert að vanbúnaði og spái því að í Dag fari þetta svona:

D : 6   S : 5-6   V : 2-3  F : 1   B : 0

Þetta gæti verið óskhyggja að B fái engan mann inn, en vonum bara að sú óskhyggja gangi eftir. Eigiði frábæran Dag og munið að kjósa!


Gleðilega hátíð!

Þá er dagurinn runninn upp... Evróvisjón keppnin er í kvöld og eins og allir vita erum við ekki með - aftur. Kom mér engan veginn á óvart, en Silvía Nótt stóð sig bara vel miðað við öll púin sem hún fékk fyrir atriðið. Ekki besti flutningur ever, en hey, prik fyrir hana.

Annars er uppáhaldið mitt Grikkland... fjárfesti í disknum um daginn og hef verið að skoða þetta. Svíþjóð kemur líka sterkt inn hjá mér, þó svo að það sé eitthvað í fari Stormsins sem ég kann ekki við. Kannski voru það silfurlituðu buxurnar. En hún var amk í buxum, meira en 98% af kvenkynskeppendum voru með ber læri... ætli það fáist auka stig fyrir slíkt? Held samt ekki, þá hefðum við komist áfram.

Undankeppnin - hneyksli eins og vanalega. Spáði 10 löndum að komast áfram, hafði rétt fyrir mér varðandi 4. Segir voða lítið um spáhæfileika mína, þetta er alltof mikið Austantjaldspartý fyrir sum lönd. Mæli með að þið kíkið HINGAÐ og gleymið ykkur í skemmtuninni. Frábær spurningakeppni úr Evróvisjón efni... fékk 20 rétt af 20..  ;) En ekki hvað??

Svo er það bara Nasa í kvöld.. Páll Óskar býður til teitis og það klikkar aldrei. Ég á von á því að bestu lög keppninnar muni heyrast í alla nótt.. þar á meðal Sandra Kim og auðvitað folinn minn hann Sakis.. Shake it baby! Grrrrr.....

Sakis.. draumaprinsinn?
Sama hvernig fer, þá fæ ég að horfa á þennan mann í allt kvöld.. slefslef...
Góða skemmtun elskurnar!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband