Bloggfærslur mánaðarins, maí 2006

Play Deaf

Fingrastafrófið

Jæja, þá er síðasta táknmálstímanum mínum lokið - í bili. Þá hef ég alls klárað 3 námskeið hjá SHH, það eru öll námskeiðin sem boðið er uppá á þessari önn. Svo byrjar tákn 4 bara næsta haust :) Þetta hefur verið brjálæðislega fróðlegt svo ekki sé meira sagt. Ég er búin að læra alveg heilmikið í  þessu erfiða tungumáli og slatta í poka um menningu heyrnarlausra. Frábært að fá svona nýja sýn á samfélagið, orðin þetta gömul ;) Námskeiðinu er svo sem ekki alveg lokið, síðasti "tíminn" er í næstu viku en þá ætlum við að hittast á kaffihúsi og spjalla saman - án þess þó að nota röddina. Við megum ekki einu sinni tala við afgreiðslustúlkuna með röddinni, bara tákn og e.t.v. skrifa eitthvað niður sem erfitt er að tákna. Það verður mjög fróðlegt að sjá, enda er þessi hópur sem er með mér á námskeiðinu mislangt á veg kominn hvað getu varðar.

Ég hef einmitt verið að velta því fyrir mér hvort halda eigi próf eftir námskeið, eða hvort viðurkenningarskjal sé nóg. Eftir mikla þankaganga hef ég komist að þeirri niðurstöðu að klárlega ætti að vera nokkurs konar próf í lok hvers námskeið hjá SHH. Í mínum hópi er fólk sem ætti engan veginn að vera komið svona "langt", fólk sem er ennþá í erfiðleikum með að stafa og lesa stöfun - eitthvað sem við áttum að kunna eftir 1. námskeiðið. Ekki misskilja mig, frábært að fólk vilji læra táknmál, ég fagna öllum sem sýna þessu áhuga. Það sem leiðir af þessu er að aðrir sem eru komnir á "réttan" stað í námskeiðinu þurfa oft á tíðum að bíða eftir því að verið er að útskýra sömu orðin aftur og aftur fyrir sama fólkinu - orð sem við ættum þokkalega að vera búin að læra (t.d. námskeið, gaman, táknmál...). Þegar ég verð komin á þing þá ætla ég að mælast til þess að þessu verði breytt.


Subway særir

Suway

Ég ákvað að vera góð við mig eftir sundferðina og splæsa á mig eins og einum Subway. Ekki skemmir að bátur mánaðarins er skinkubátur og hann er bara fínn, sérstaklega ristaður. En ég átti nú ekki von á því að særast við átið. Sat í makindum mínum fyrir framan sjónvarpið og horfði spennt á Kastljósið. En í öllum spenningnum og æsingnum kláraði ég bátinn minn og fattaði það eftir á að ég hef líkast til skorið mig á bátnum! Er það hægt, maður spyr sig? En jújú, auðvitað tókst henni Effdé að gera það. Segi nú ekki að mér muni blæða út... en maður verður nú að passa lúkkið þegar maður er á lausu ;)


Lárperur og ljúfmeti

Lárpera (e. Avocado)

Ég fór að versla áðan í Bónus í Smáranum. Það er kannski ekki frásögum færandi nema fyrir það að ég verð eiginlega að lýsa ánægju minni yfir því hversu gott úrvalið af ávöxtum og grænmeti var þar. Yfirleitt versla ég allt í Bónus, en get ekki hugsað mér að kaupa margt af ávöxtunum eða grænmetinu sem er þar í boði og skunda því í Hagkaup í slíkan leiðangur. En í dag var sagan önnur. Ég gat meira að segja fengið fínar lárperur á góðu verði, 215 kr. kg. Þær eiga reyndar kannski 2 daga eftir í að verða djúsíspúsí, en það kemur. Verlsaði mér líka ferskan ananas, enda er próftíð og þá er ferskur ananas mjög heitur réttur hjá kellingunni.

Ég verð líka að mæla með einu við ykkur, en það er nýtt brauð sem komið er í verslanir. Þetta brauð er spelt rúgbrauð með viðbættu kalki frá Gæðabakstri. Eitt besta brauð sem ég hef smakkað lengi, enda er það alltaf til hjá mér núna. Mæli sérstaklega með rauðu pestói, reyktri skinku, kotasælu og nýmöluðum svörtum pipar sem áleggi... namm nammm :)


Eilífðardraugurinn fallinn

Haldiði að kellingin hafi bara ekki rúllað upp þessari ritgerð á laugardagskvöldið! Jújú, náði alveg að koma þessu ágætlega frá mér held ég - vona ég :)

Er annars komin í "menninguna" eftir góða helgi í Ólafsvík. Ætla að vera ótrúlega dugleg í kvöld að þrífa íbúðina svo ég geti byrjað fersk að læra undir prófin í fyrramálið. Merkilegt samt hvað það er nánast alltaf gott veður þegar ég er búin að ákveða eitthvað svona. Núna langar mig bara mest til þess að setja á mig línuskautana og rúlla eitthvert og njóta lífsins.. Kannski ég kíki smá rúnt í kvöld. Annars á ég von á því að ég verði öflugur bloggari næstu daga, lof sé próftíðinni.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband