Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
7.3.2007 | 10:45
Kynferðisbrot gegn börnum
Kynferðisbrot gegn börnum Er samfélagið lamað?
Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði boða til opins fundar á Súfistanum miðvikudagskvöldið 7. mars næstkomandi kl. 20:00.
Rætt verður um refsingar fyrir kynferðisbrot gegn börnum og fyrirbyggjandi úrræði.
Frummælendur verða:
Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður Samfylkingarinnar.
Helgi Gunnlaugsson prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.
Katrín Júlíusdóttir alþingismaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.
Svala Ólafsdóttir prófessor í refsirétti við Háskólann í Reykjavík.
Að erindum frummælenda loknum verða pallborðsumræður og opnað fyrir spurningar úr sal.
5.3.2007 | 14:10
Sturlaðar samgöngur
Eins og talað útur mínum eigin munni... Gó Kata, gó Kata!
Annars langar mig líka til að benda á Tíðarandann... fáránlega flott framtak - eða litlu effin þrjú. Stóru effin eru, eins og þið munið kannski, Food, Fun og Fanney.
5.3.2007 | 12:46
Stórir steinar
Um daginn fór ég á fræðslufyrirlestur um tímastjórnun hérna í Kristnesi. Fínn fyrirlestur sem byrjaði á því að lesin var upp sagan Stórir steinar. Ég heillaðist alveg af henni og læt hana því flakka. Njótiði!
Dag einn var sérfræðingur í tímaskipulagningu að tala fyrir framan hóp viðskiptafræðinema. Til að koma meiningu sinni almennilega til skila, þá notaði hann sýnikennslu sem nemendurnir gleyma aldrei. Þar sem hann stóð fyrir framan þennan hóp af metnaðarfullu fólki, þá sagði hann: Jæja, þá skulum við hafa próf. Hann tók upp 5 lítra krukku með stóru víðu opi, og setti hana á borðið fyrir framan sig. Svo tók hann um það bil 10 hnefastóra steina og varfærnislega kom þeim fyrir í krukkunni, einn af einum. Þegar krukkan var full, og ekki hægt að koma fleiri steinum í hana, þá spurði hann: Er krukkan full? Allir í bekknum svöruðu: Já. Jæja? sagði hann. Hann teygði sig undir borðið og tók upp fötu með möl. Því næst sturtaði hann smá möl í krukkuna og hristi hana um leið sem orsakaði það að mölin komst niður í holrúmin á milli stóru steinanna. Svo spurði hann hópinn aftur: Er krukkan full? Í þetta sinn grunaði nemana hvað hann var að fara. Sennilega ekki, svaraði einn þeirra. Gott! svaraði sérfræðingurinn. Hann teygði sig undir borðið og tók upp fötu af sandi. Hann hellti úr henni í krukkuna og sandurinn rann í öll holrýmin sem eftir voru milli malarinnar og stóru steinanna. Enn spurði hann: Er krukkan full? NEI! æptu nemendurnir. Aftur svaraði hann: Gott! Hann tók því næst könnu af vatni og hellti í krukkuna þar til hún var alveg full. Svo leit hann á bekkinn og spurði: Hver er tilgangur þessarrar sýnikennslu? Einn uppveðraður nemandinn rétti upp höndina og sagði, Tilgangurinn er að sýna, að það er sama hversu full dagskráin hjá þér er, ef þú virkilega reynir, þá geturðu alltaf bætt fleiri hlutum við! Nei. Svaraði sérfræðingurinn. Það er ekki það sem þetta snýst um.Sannleikurinn sem þetta dæmi kennir okkur er þessi: Ef þú setur ekki stóru steinana í fyrst, þá kemurðu þeim aldrei fyrir. Hverjir eru stóru steinarnir í þínu lífi? Börnin þín Fólkið sem þú elskar Menntunin þín Draumarnir þínir Verðugt málefni Að kenna eða leiðbeina öðrum Gera það sem þér þykir skemmtilegt Tími fyrir sjálfa(n) þig Heilsa þín Maki þinn. Mundu að setja STÓRU STEINANA í fyrst, eða þú munt aldrei koma þeim fyrir. Ef þú veltir þér upp úr litlu hlutunum (mölin, sandurinn, vatnið) þá fyllirðu líf þitt með litlum hlutum sem skipta í raun ekki máli og þú munt aldrei hafa þann tíma sem þú þarft til að eyða í stóru mikilvægu hlutina í þínu lífi (stóru steinarnir). Semsagt, í kvöld, eða í fyrramálið, þegar þú hugsar um þessa stuttu sögu, spurðu þig þá að þessarri spurningu: Hverjir eru stóru steinarnir í mínu lífi? Settu þá svo fyrst í krukkuna. -höfundur ókunnur.
20.2.2007 | 15:50
WTF???
Vitiði.. án djóks... það ótrúlegasta hefur gerst! Ég er orðlaus. Ég næ engan veginn að grípa þessa hugmynd, að maðurinn hafi virkilega sprengt sig Í LÍKFYLGD! Fyrir utan þann sem var verið að kveðja létust 7. Þar með missti þessi vina- og aðstandendahópur 8 manns og enn fleiri liggja slasaðir. Þetta er í Bagdad. Hvernig ætli áfallahjálp sé háttað þar? Ætli það sé mikill skilningur á svona áföllum í þessu landi?
Vitiði, ég fæ alveg í magann..
Sjálfsmorðsárás á líkfylgd í Bagdad | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.2.2007 | 16:31
Gæti ég fengið texta, takk?
Í upphafi mánaðarins var enn og aftur lagt fram frumvarp til laga um textun í sjónvarpi. Síðast "sofnaði það í nefnd" og er nú komið aftur í menntamálanefnd. Ég vona að Siggi Kári og félagar geri meira í málinu nú en síðast. Löngu síðan orðið tímabært, löngu síðan. Og ég meina löngu síðan.
Í gær horfði ég á fréttir. Það er ekki fréttnæmt. En eitt verð ég að benda á, enn einu sinni. Í fréttatímanum var frétt um heyrnarlausa. Fréttin var textuð svo heyrnarlausir gætu áttað sig á um hvað fréttin væri. HALLÓ?!?! Heldur fólk virkilega að heyrnarlausir sitji bara fyrir framan sjónvarpið, horfi á fréttirnar án texta og BÍÐI eftir því að það komi frétt um þá sem er textuð? Hvað eru það.. 3 fréttir á ári eða? Er þessi texti ekki til á textavélum sem fréttamennirnir lesa af? Ohh.. ég verð svo hneyksluð.
Ég verð að láta fylgja með töflu um textun í ríkissjónvarpi nokkurra Evrópulanda. Taflan er úr frumvarpinu og tölurnar eru frá árinu 2003 og hafa (vonandi) eitthvað hækkað, en ég bít ekki af mér rassinn hafi svo ekki farið.
Land: | Textun á mánuði (ríkisstöðvar): |
Albanía | Enginn, aðeins textun fyrir erlent mál |
Austurríki | 170 tímar |
Belgía | 5 tímar |
Danmörk | 189 tímar |
England | 80% af öllu efni á BBC, ITV og C4 20% í stafrænum útsendingum |
Finnland | 15% af öllu innlendu efni |
Grikkland | 14 tímar |
Írland | 23 tímar |
Ísland | 1 tími |
Ítalía | 80 tímar |
Pólland | 30 tímar |
Spánn | 446 tímar |
Sviss | 240 tímar |
Þýskaland | 387 tímar |
EINN KLUKKUTÍMI Á MÁNUÐI???
Hvaða ár er eiginlega?
Díses kræst.is
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.2.2007 | 03:02
RÖSKVA!!!!!!!!!!
JÁ JÁ JÁ JÁ JÁ JÁ JÁ JÁ JÁ JÁ JÁ!!!!!!! LOKSINS LOKSINS LOKSINS!!!!!!!! JÁ JÁ JÁ JÁ JÁ JÁ JÁ JÁ JÁ!!!!!!!!!!!
ÚRSLIT KOSNINGANNA Í HÍ LJÓS.... MÉR LÍÐUR EINS OG FEGURÐARDROTTNINGU, ÉG GRÆT AF GLEÐI.... RÖSKVAN MÍN VANN!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!
RÖSKVA 5 MENN - VAKA 4 MENN
H-LISTINN RIP
VIÐ UNNUM!!!!
9.2.2007 | 00:04
Framheilabilun og siðferðiskennd
Í dag var ég á ansi áhugaverðum fyrirlestri sem sendur var út frá LSH. Um fyrirlesturinn sá María K. Jónsdóttir, yfirsálfræðingur á Landakoti, og var umfjöllunarefnið framheilaskaði. Síðan ég hóf starfsþjálfunina hérna á FSA hef ég lært alveg ótrúlega margt. Eitt af því er það að heilaskaðar eru ansi merkilegt fyrirbæri.
Ég man eftir því að hafa lært um Phineas Gage í sálfræði hér um árið. Gage þessi vann við járnbrautasmíði og varð fyrir því einn daginn að járnteinn (1 metri, 3.2 cm í þvermál og rúm 6 kg að þyngd) skaust uppí gegnum kinnina á honum og út um höfuðið (sjá mynd) af svo miklum krafti að teinninn lenti tæpa 30 metra frá Gage. Hann lést ekki og hlaut skaða í framheila þar sem teinninn hafði farið í gegn. Þeir sem þekktu Gage töluðum um að hann hefði breyst eftir meiðslin. Orðið að allt öðrum manni, með allt önnur persónueinkenni.
Slíkt gerist oft þegar fólk fær framheilaskaða. Persónuleikaraskanir eru algengar og almenningur gerir sér ekki grein fyrir því að þetta sé afleiðing heilaskaðans. ,,Framheilinn gegnir mikilvægum hlutverkum í starfsemi heilans. Þar er meðal annars staðsett framkvæmdarstjórn heilans, skipulag, sjálfsstjórn, rökhugsun og vinnsluminni. Framheilinn er tengdur tilfinningalífi, frumkvæði og félagslegri aðlögunarhæfni." Þannig verður einstaklingur með framheilaskaða öðruvísi en fyrir skaðann. Hömlur hverfa og hann stjórnast af umhverfinu og aðstæðunum sem hann er í. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig áhrif þetta hefur á alla sem að einstaklingnum koma.
María kom inná tengsl milli framheilaskaða og siðferðiskenndar. Hún sagði að sjúklingar sem hefðu hlotið framheilaskaða hegðuðu sér líkt og þeir einstaklingar sem eru siðblindir. Þannig gætu þeir leyst siðferðisleg mál með flottri rökhugsun munnlega, en svo var hegðunin hjá þeim allt öðruvísi og í anda siðblindra. Það að sjá t.d. einhvern veikan, deyja eða meiða sig vakti ekki upp tilfinningar hjá þeim. Hún sýndi mynd af siðferðisklemmu, en því miður fann ég ekki myndina á netinu svo ég lýsi henni bara. Þú stendur uppi á göngubrú yfir jánrbrautateina og við hlið þér er afar stór og mikill maður. Þú sérð að lestin fer að keyra undir brúna en hún stefnir á 5 manna fjölskyldu. Eina leiðin til að bjarga fjölskyldunni er að kasta manninum fyrir lestina svo hann deyji og stöðvi þannig lestina og fjölskyldan bjargast. Siðblindir köstuðu manninum framaf án þess að hugsa um það. Það var það rökrétta í stöðunni. Framheilaskaðaðir köstuðu í nær öllum tilvikum manninum framaf en hugsuðu málið örlítið. Stýrihópur kastaði manninum ekki framaf nema í örfáum tilvikum eftir þá mjög mikla umhugsun. Þetta fannst mér athyglisvert. Einnig sýndi hún okkur mynd af heilanum þar sem búið var að kortlegga þau svæði heilans sem hefðu áhrif á siðferðiskenndina. Merkilegt?
Klárlega er ég ekki með menntun og/eða reynslu til að fjalla um þetta málefni af einhverri dýpt en mér fannst þetta afar spennandi fyrirlestur og ég lærði alveg heilmikið af honum. Ég las líka aðsendar greinar úr Mogganum síðan 1996 og 1999 þar sem var verið að fjalla um skilningsleysi almennings á heilasköðuðum einstaklingum. Félagssálfræðilegar afleiðingar heilaskaða eru oftast taldar með verstu afleiðingunum, bæði af aðstandendum sem og sjúklingunum sjálfum. Í kjölfar persónuleikaröskunar missi sjúklingur vini sína og jafnvel vinnuna og alla sem þar eru, hlutverkaruglingur verður á heimilinu og börn sjúklings verða stundum hrædd við foreldri sitt, sjúklingur getur lent í skilnaði og svo mætti endalaust tína til afleiðingar.
En allavegana, langaði bara að deila þessu með ykkur - með þeim fyrirvara að ég er einungis leikmaður í þessum efnum, ekki fræðimaður
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.2.2007 | 16:26
Viva la Kompás!
Þvílík snilld sem þátturinn Kompás er. Ég verð svo glöð í hjarta mínu að vita af svona frábæru fólki þarna úti. Þættirnir þar sem barnaníðingsmál voru til umfjöllunar finnst mér nauðsynlegt innleg í umræðuna og ég gæti ekki verið meira sammála Rúnu í Stígamótum um þetta eftirlitskerfi. Það sem Kompás hefur verið að gera gæti stórminnkað samskipti þessara manna við börn. Svo er bara spurningin, hver á að sinna þessu? Lögreglan? Já, lögreglan er sá aðili sem að mínu mati á að sjá um þetta eftirlit. Það er svo annað mál hvernig það ætti að fara fram og hve oft. Ég held þó að við slíkt eftirlit yrðu til nýjar leiðir níðingsmanna til að komast í samband við börnin, en þá erum við amk búin að útiloka eina. Margt smátt gerir eitt stórt.
29.1.2007 | 22:50
Á faraldslöpp
Ég er á Egilsstöðum. Tjáði mig um málefni heyrnarlausra og að endurskoða þyrfti Almannatryggingakerfi okkar landsmanna. Áfram Samfylkingin!
Heiðskýrt - jább. Stjörnubjart - jább. Norðurljós - jább. Hreindýraborgari - looking for it!
Fyrir liggur 3ja tíma ferðalag til baka. Sybbin í fyrró...
28.1.2007 | 21:08
Ábyrgð stjórnmálamanna
Ég er algjörlega sammála því sem ISG sagði í ræðu sinni á aðalfundi Samfó í Reykjavík. Oft hef ég hneykslast á því hvernig stjórnmálamenn þurfa ekki að bera ábyrgð á sínum gjörðum. Erlendis koma fréttir um allskyns hneykslismál þarlendra stjórnmálamanna sem og uppsögn í kjölfarið. Hvað gerir íslenska stjórnmálamenn heilaga? Auðvitað geta kjósendur í næstu kosningum, eftir að slíkt mál kemur upp, "refsað" stjórnmálamanni eða flokki hans með því að kjósa hann ekki. En fólk gleymir fljótt og því fer sem fer.
Hvaða rugl er það svo að segja að ISG hafi talað krónuna niður? Hvurslags vald eru þessir aðilar að færa konunni? Ég myndi jú fagna því ef hún hefði slíkt vald, að geta talað niður (nú eða upp) krónuna eða aðra hluti. Er þetta ekki týpískt dæmi fyrir hina alræmdu smjörklípuaðferð Hr. Davíðs? Ég tek undir með Félaga Magga þar sem hann segir Hr. Haarde og Hr. Matthiesen bera töluverða ábyrgð á því ástandi sem við búum nú við. Ég held að nokkur hluti þess fylgis sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur er fólk sem kýs flokkinn af vana. Ekki af því að það trúir hugsjónum Sjallanna eða finnst Björn Bjarna foli (nú eða Bjarni Ben...), heldur vegna þess að fólk gleymir og gerir hluti af vana.
En að léttara hjali. Dreif mig loksins út í hreyfingu, skemmtiskokk á sunnudegi. Hringurinn varð fremur lítill þetta sinn, enda svoleiðis svimandi hálka að það er ekki hundi út sigandi. Ég brá mér því í smá bíltúr með Kermit og við skoðuðum Eyrina fögru, enda margt breyst frá því ég bjó hér síðast. Heilt hverfi nálægt Kjarnaskógi er risið og er m.a.s. leikskóli mættur á svæðið. Það er afar spes að keyra um þetta hverfi, sumstaðar eru bara götur með ljósastaurum og tilheyrandi - en engum húsum. Nú svo er komið risa risa íþróttahús á Þórssvæðinu sem kallað er Boginn. Margt nýtt er í gangi og skipulagning hverfa á fullu spani útum allar tryssur. Akureyri ætlar sér að halda Landsmót UMFÍ árið 2009 en ennþá er ekki búið að afgreiða í bæjarstjórn hvar það eigi að eiga sér stað. Vandinn er snúinn, hvar á að byggja nýja aðstöðu? Á að byggja á Akureyrarvellinum gamla og gefa skít í kaupahéðna sem vilja þessa gourmet-lóð? Á að byggja að Hömrum og nota náttúruna þar fyrir enn fleiri mannvirki? Jasko, ég prísa mig sæla að þurfa ekki að taka ábyrgð á þessum ákvörðunum
Ingibjörg Sólrún segist ekki taka þátt í þagnarbandalagi um Evrópumál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |