Bloggfærslur mánaðarins, september 2006

Geisp...

Núna eru aðeins 5 klukkustundir eftir af þessari fyrstu næturvakt minni þessa helgina. Tíminn hefur verið ansi fljótur að líða enda var ég agalega dugleg að lesa. Svo skellti ég í eina skúffuköku því hann Bjössi á afmæli í dag (9. sept) - til hamingju með afmælið kall! Þreytan er aðeins farin að gera vart við sig, sérstaklega í þessu illviðri sem nú geysar. Brjáluð rigning og rok = kúra undir sæng.

Ég var að skoða á netinu allskonar efni um sorg, sorgarferli, áföll og þannig og rakst á þennan vef Þetta er tenglasafn FVA (Fjölbr.skóla Vesturlands, Akranesi) og þarna má finna margt ansi fróðlegt og á breiðu sviði. Mæli með að þið kíkið á þetta. 

Ef þú, lesandi kær, þekkir mig eitthvað þá langar mig að benda þér á þetta hérna. Gerði svona fyrir ári eða svo, fann það í kvöld og langaði til að athuga hvort vinir mínir sjái einhverja breytingu á mér :) Ótrúlegt hvað maður getur fundið sér til dundurs á veraldarvefnum!  


Að læra um dauðann í 3 vikur

Þá er ég byrjuð í skólanum aftur - loksins. Síðasta árið mitt sem félagsráðgjafarnemi. Ótrúlegt að þetta sé að hafast. Ég lagði tímanlega af stað í morgun svo ég hefði góðan tíma til að finna stofuna sem við áttum að vera í. Aldrei hef ég stigið inní Læknagarð svo það leit út fyrir að vera smá challenge. En húsvörðurinn hefur greinilega fundið "nýju-nema-lykt" af mér og benti mér á stofuna. Þar sem ég er svo góð stúlka fór ég út aftur og beindi samnemendum mínum rétta leið. 

Á þessum 20 mínútum sem ég sat fyrir utan og beið eftir samnemendum mínum, spjallaði og blés hita í hendurnar, gengu margir læknanemar inn í bygginguna. Allt gott og blessað með það. Við stóðum nokkrar þarna fyrir utan og einhvern veginn hljóðnuðu samtölin þegar hver folinn á fætur öðrum kom askvaðandi að okkur og inn í Læknagarð. Ekki var útsýnið verra þegar inn var komið - "Men in uniformes" útum allar trissur.

Fyrsta námskeiðið sem við tökum fjallar um kreppukenningar, áfallavinnu og sorgarviðbrögð. Ergo sum: við erum að fara tala um dauðann í 3 vikur. Konan sem kennir okkur er gúrú á þessu sviði og hefur kennt þetta í möööörg ár. Hún er einnig virk í rannsóknum á þessu sviði og hefur unnið við þetta í tugi ára. Frábært að hafa svoleiðis kennara, sem í þokkabót er félagsráðgjafi :) Fór með Guðnýju skutlu-gúllu í Bóksöluna í dag og eyddi (höhömm.. "varði") rúmum tíu þúsundköllum í bækur sem ég ætla byrja að lesa. En þær eru allar djúsí svo það verður (vonandi) ekkert mál. Fékk nett í magann þegar skorarformaðurinn sagði að ef hún gæti þá myndi hún banna 4. árs nemum að vinna með skólanum því það væri svo mikið vinnuálag í námskeiðunum, enda öll á Mastersstigi. Hmmm.. ætla að sjá hvernig þetta fer. Verð bara að vera dugleg að skipuleggja mig - og það er alltaf hressandi. Tæknilega séð er ég þannig komin í Mastersnám núna.. athyglisvert, ekki satt? :)

 


Opið álver

Álverið í Straumsvík var opið almenningi í dag. Að sjálfsögðu fórum við í vinnunni með fólkið okkar til að berja þeessa reiðinnar ósköp augum. Ég verð nú að játa að ég var nokkuð mikið spennt að fara þangað. Það er einhver mistískur blær yfir svona stöðum sem alla jafna eru lokaðir almenningi. Hvað sem skoðun minni um álver líður þá verður að segjast að þessi dagur var mjög vel heppnaður hjá þeim. Boðið var upp á rútuferðir frá Fjarðarkaupum til þess að minnka umferð. Þegar inná svæðið var komið fengu allir dagskrá og búið var að merkja allt voðalega fínt. Þarna var t.d. vélasýning þar sem risavaxnar "gröfur" (eða svona dótarí sem líkist gröfum, með allskonar dótarí framaná) voru til sýnis. Þá var einnig til sýnis slökkviliðsbíll Álversins sem og tækjabílar. Frábært fannst mér að fara í skoðunarferð um Álverið í rútu. Það voru nokkrir strætóar sem keyrðu fyrifram ákveðna leið í gegnum svæðið og nokkur hús og í hverjum strætó var 1 starfsmaður Álversins sem sagði fólki frá hvað væri gert hvar og hvernig þetta virkaði. Einnig taldi hann upp ýmsar almennar upplýsingar, s.s. að í ár er Álverið 40 ára og þar vinna 480 starfsmenn (minnir mig). Frábært að fá að sjá þetta allt saman, get ekki sagt annað.

Þá var boðið uppá ýmiskonar skemmtun. Friðrik Ómar og Guðrún Gunnars voru þarna að syngja, Gunni og Felix mættu á svæðið, Möguleikhúsið var með sýningu um álver og listamenn sýndu verk í mötuneytinu og víðar. Þá var einnig boðið uppá nýbökuð vínarbrauð, "kaffihúsakaffi" frá Kaffitár og ýmislegt annað. Fjöldinn allur af fólki var þarna, enda veðrið unaðslegt. Á leiðinni út af svæðinu kíktum við svo í Kerskála 3 þar sem álið er búið til (húsið sem er næst þjóðveginum). Auðvitað þurftum við að setja upp hjálm og hlífðargleraugu - og það sem meira er: skilja eftir debetkortin svo segulröndin skemmist ekki. Í það heila: fræðandi og skemmtileg ferð um þetta heljarinnar svæði.

Það er eitthvað við svona staði; álver, vegagerðina, Frímúrarana, Kárahnjúka ofl. sem ég heillast af. Ég hugsaði nú allnokkrum sinnum um það í dag hversu mikið ég væri til í að vinna í álveri eitt sumar og fá að kynnast þessu SJÁLF. Ætli það spili ekki inní hversu geigvænlega forvitin ég er. Ég held að minnsta kosti að ég myndi taka mig vel út í skærum vinnugalla, með appelsínugulan hjálm, stór hlífðargleraugu, hjólandi fram og til baka á þessu stóra svæði.


Þreytt og sæl...

Var að skríða heim úr vinnunni. Þegar ég fór var einn strákurinn nýbúinn að skella "Hjónabandsógæfu" í ofninn og á kakan að vera nestið okkar á morgun. Dagurinn er búinn að vera heavy skemmtilegur. Þetta fólk sem er að koma í Hnotuberg er allt snillingar upp til hópa. Er búin að vera hlægjandi megnið af deginum og get varla beðið eftir að mæta í vinnuna á morgun og fara með þeim á Ljósanótt. Svo á auðvitað að kíkja á Álverið í Straumsvík á sunnudaginn - opið hús frá 11-17 og rútur frá Fjarðarkaup. Þetta kallar maður þjónustu. Enda á víst að kynna mögulega stækkun álversins og því ekki úr vegi að blíðka (hóst, kaupa) vilyrði Hafnfirðinga með gosi, Gunna og Felix, rútuferðum og söngatriðum. 

Pissaði næstum því í mig yfir bröndurum sem strákarnir sögðu mér í dag. Man þá reyndar ekki.. eða jú, einn. Þið vitið að fólk getur fengið nýrnasteina og gallsteina? En það er til fyrirbæri sem bara konur geta fengið. Vitiði hvað það er? Legsteinar... hahahahaha... aulabrandarar eru sko dísætir :) Svo er reyndar annar sem ég vil ekkert vera varpa fyrir alþjóð - minnið mig bara á að segja ykkur hann. Í brandaranum er talað um mús - þá man ég hvernig hann er! 

Jæja.. rúmið kallar. Er með stafla af bókum og skýrslum sem ég get varla beðið eftir að lesa. Er að undirbúa mig undir mjög skemmtilegt starf í vetur sem tengist fundinum sem ég var á í Osló. Segi ykkur kannski meira frá því síðar, en spennó er það! Reyndar keypti ég líka 2 skólabækur í dag sem hljóma ekkert smá djúsí (þrátt fyrir okurverð! Önnur þeirra var á 8.980 ISK!!!): Group work -  A counseling specialty e. S.T. Gladding og Community work e. A. Twelvetrees.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband