Bloggfærslur mánaðarins, júní 2006

Sweet home Ólafsvík!

Það var ljúft að keyra inn í bæinn í dag og sjá endalaust mikið af bleikum blöðrum.. Heyrði óminn úti: Velkomin Fanney Dóra, velkomin!

Bryggjuball í kvöld, Jónsi á morgun... er alltaf að fá sms og símtöl frá æ fleira fólki sem boðar komu sína í stórborgina til að vera á Færeyskum dögum.. frábært. Komið öll fagnandi!


Færeyskir dagar nálgast...

Mikið vona ég að sumarið sé núna komið. Sólin er á leiðinni til Ólafsvíkur um helgina, enda er hátíðin Færeyskir dagar haldin þar. Bryggjuball annað kvöld, Jónsi og folarnir í Svörtum fötum á laugardagskvöldið... svíííít!

Við frænkurnar lögðum leið okkar á Snæfellsnesið í gærkvöldi þar sem amman okkar átti 75 ára afmæli. Í tilefni þess fóru angar hennar með henni á Hótel Búðir í þvílíkt djúsí dinner, blandaðir sjávarréttir í lime-kóriandermarineringu, hægeldað lambafilé og svo súkkulaðikaka með vanilluís og ávöxtum... mmmm... var komin heim um tvö í nótt sem gerir mig ofurþreytta í dag - en það er alltaf hressandi.

Jæja þá, ætlar einhver að koma á Færeyska daga og taka dansinn með mér á föstudags- nú eða laugardagskvöldinu?


Allt að gerast!

Úlfar Ingi

Búin að vera ofurdúleg í dag að stússast.. fara með 2 pör af uppáhaldsskónum til besta skósmiðsins í Reykjavík, Halldórs í Grímsbæ. Fór einnig með bleika túttukjólinn minn í hreinsun, ef ég skyldi ekki finna neinn annan í tæka tíð fyrir brúðkaupið 8. júlí. Svo er ég búin að snúa íbúðinni við, hengja upp myndir, setja upp nýjar gardínur og nýja dúka á borðin... hrikalega fínt hjá mér núna.

Fékk nett í magann áðan þegar ég opnaði tölvupóstinn minn. Þar var póstur frá MA-nema við HÍ sem var að spyrja hvort hann mætti nota greinina mína um menningu heyrnarlausa sem heimild í ritgerðina sína... ekkert smá gaman :) Nú svo er ég líka að aðstoða uppáhaldskennarann minn í félagsráðgjafarskor með rannsókn sem hún er að vinna að... mín bara að meika lífið, ha!

Verð svo bara að deila þessari mynd með ykkur. Þetta er gullmolinn hann Úlfar Ingi sem Þórey vinkona mín á. Hann er ótrúlegur þessi prins.. hlakka ótrúlega til að hitta hann um helgina, enda snillingur þar á ferð! Fáiði ekki bara gæsahúð?


Fullorðin? Ég?

Í fyrsta skipti á ævinni á ég plöntuáburð. Mér finnst það alveg heilt stórt fullorðinsskref. Það er ekki íbúð, hjólhýsi, hundur eða nýtt parket. Það er plöntuáburðurinn minn. Hann þarf ég að blanda skv. kúnstarinnar reglum og muna að vökva blómin mín á nánast hverjum degi. Mér finnst það nú bara ansi mikil skuldbinding get ég sagt ykkur. Bara næstum því eins og vera með barn, eitthvað sem maður þarf að muna eftir á HVERJUM degi! Sjáum til hvernig það gengur. Hingað til hefur það ekki gengið vel, enda finn ég ekki bleiku vökvunarkönnuna mína... maður týnir ekki skærbleikri vökvunarkönnu, það bara gerist ekki... hmm....

Út að borða annað kvöld (þriðjudag) á Vegamótum með vinnunni.. Hlakka þvílíkt til, enda er alveg pínu tjútt hjá okkur líka :) og þar sem ég var að vinna ALLA helgina á ég það sko skilið að fá mér amk einn Gin og tónik!


Afmæli :)

Í dag er 26. júní.

Það þýðir að í dag eru akkúrat 3 mánuðir þar til ég á stórafmæli.

Það þýðir að í dag er hálft ár frá því að jólafjölskylduboðið var haldið.

Það sem meira er, það þýðir að í dag á bestasti Gíslinn minn afmæli, meira að segja stórafmæli! Kallinn er að sóla sig á Spáni en sem betur fer er von á honum í vikunni. Yfir hafið segi ég: Til lukku elsku bestasti frændinn minn!

Hver er sólin?


Mexíkókjúlli og dansspor

Ég sit nú við minn reglulega 3:30 - 4:00 snæðing, ég verð alltaf svöng á þessum tíma þegar ég er á næturvakt. Ég gerðist svo djörf í nótt að breyta um snæðing, en síðan ég byrjaði hérna hef ég alltaf fengið mér það sama.. nema fyrstu 2 vaktirnar, þá fékk ég mér ristað brauð með osti. Svo kom AB-mjólk með banana og stundum peru og núna - í tilefni þess að ég fer í 2ja daga frí á morgun - fékk ég mér jarðarberjasúrmjólk með Cheerios. Bara ansi fínt get ég sagt ykkur.

Shall we dance? var bara skrambi fín, fékk mig til þess að hrista rassinn nokkrum sinnum, tárast, hlægja upphátt og fá gæsahúð. Ergo sum = fín skemmtun. Núna var svo Monk að byrja (og ég dýrka Monk) og á eftir honum er Cold case (frábær þáttur). Ég er farin að hafa áhyggjur af sjónvarpsáhorfi mínu!  Ég horfði svo hrikalega sjaldan á sjónvarp en núna tékka ég dagskrána á hverri vakt... þetta er vonandi bara útaf næturvöktunum.

En kjúklingarétturinn snilldarlegi kemur hérna... skora á ykkur að prófa!

Mexíkókjúlli fyrir ca 4-5:

  • 1 steiktur kjúklingur rifinn niður eða 3-4 bringur í bitum, steiktar
  • 1 poki hrísgrjón, soðin
  • 1 lítil dós af maísbaunum
  • 3/4 dós ostasósa
  • 3/4-1 dós salsasósa
  • 1 poki tortillaflögur (bragð e. smekk)
  • 1 poli rifinn ostur

Ókei.. þetta er svo easy krakkar... Byrjið á því að smyrja eldfast mót með smá olíu. Setjið hrísgrjónin neðst, svo maísbaunirnar, næst kjúllann og dreifið fyrst ostasósunni og svo salsasósunni yfir. Myljið flögurnar yfir herlegheitin og toppið með rifnum osti. Mér finnst agalega gott að krydda með svörtum pipar. Þetta er svo sett í ofn þar til osturinn er orðinn brúnn og djúsí. Geggjað gott með Guaqamole og fersku salati - jafnvel sýrðum rjóma fyrir þá sem eru heitir fyrir því. Ííííískaldur Corona með lime skemmir heldur ekki fyrir. Koma svo, go wild!

 


Frumlegt: á næturvakt!

Síðasta næturvaktin mín í þessari lotu: jeij! Finnst þetta ekkert agalega skemmtilegt, hanga uppi á næturnar og fá ekket að kynnast krökkunum nema bara hvaða morgunmat þau vilja.. bömmer. En allt hefur sína kosti og galla, right?

Við Ólöf Inga skelltum okkur í sund í góða veðrinu í dag. Auðvitað var stefnan tekin í Árbæjarlaug þar sem sú laug hefur haft þann sjarma yfir sér að innihalda slatta af folum um helgar. Ekki var sú raunin í dag, því var nú ver og miður, laugin var gerilsneydd af folum. Við litum allstaðar í kringum okkur en sáum enga álitlega... reyndar var þarna rússneska mafían og pólska fótboltaliðið í Árbænum, krakkar sem gætu fyllt 14 leikskóla (og gerðu í því að henda kútum í mig.. urrrgg.. ) en folarnir mættu ekki. Við ætlum því að dissa Árbæjarlaug - for good - amk í folamálum og kíkja í Laugardalslaugina næst. Kannski maður rekist á einhverja álitlega spanjóla þar í öllum túristaflauminum...

Fékk lánaðar fullt af dvd hjá Ólöfu, er með eina í gangi núna - Shall we dance? með Richard Gere og Jennifer Lopez.. víst algjör stelpumynd svo ég verð að tékka á henni. Þarf svo endilega að gefa ykkur uppskrift að kjúllaréttinum sem við elduðum í kvöld.. hann er svooo góður... kemur einhvern tímann í nótt vonandi... eftir myndina.

Já og hey.. er búin að ákveða að fara á námskeið sem kallast Pole fitness... tíhíhí.. þ.e. námskeið í súludansi.. jeij.. skora á ykkur að koma með, en ég verð svo flottust þarna! Múhahahaha!


Geisp....

Verslaði um efni fram í dag... þ.e. notaði kreditkort til að kaupa mér hrikalega töff bleikt naglalakk. Skartaði því í útskriftarveislunni hennar Ernu, agaleg tútta. Keypti einnig frábæran geisladisk, eða geisladiska, 5 cd í pakka BARA með íslenskum lögum. Ekta svona sumardiskur. Þarna eru lög sem maður var sko búin að gleyma, jibbý hvað hann er skemmtilegur.

Annars er ekkert títt... næturvaktin senn á enda og ég trúi ekki að sólin ætli að taka sér frí í dag! Ég ætlaði að kíkja á skautana og svo í sund.. hmm... annars fór ég í Árbæjarlaugina í gær. Ég er svei mér þá ekki viss hvort mér finnist nuddpotturinn þar eða potturinn í Salalaug betri.. þeir eru ansi jafnir :)


Á leiðinni á næturvakt

Var að skoða sjónvarpsdagskrána fyrir nóttina, mjög þunn og ömurleg. Reyndar var þar ein mynd sem gæti verið ágæt, FeardotCom sem byrjar á Stöð 2 kl. 2:35. Þangað til vona ég að fólk verði almennt hresst á MSN eða að ég finni mér eitthvað annað til dundurs... hömm...

Það er partý í íbúðinni við hliðiná mér. Húsráðandi í kvöld er 16 ára stúlka (reyndar er 20-25 ára bróðir hennar einnig heima). Núna er Bubbi dúndrandi á veggina hjá mér, sem er svosem ekkert slæmt sko. Betra en amerísku vælupjöllurnar, hvað þær heita nú allar. En ég fór að pæla. Nú var Villi Vill voða hitt hér á árum áður. Allir kunnu lögin hans og hann var að meika það. Í dag er aðallega eldra fólk sem hlustar á hann (og furðufuglar eins og ég) og einstaka sinnum heyrir maður lag með honum í útvarpinu. Ég fór að spá, ætli Bubbi verði þannig? Eða verður Bubbi meira svona eins og Öxar við ána, eitthvað sem allir kunna á hverjum tímapunkti.... Hugsum okkur að við séum stödd 30 ár fram í tímann. Hvaða hljómsveitir sem eru nú spilandi verða ennþá í spilun þá?


Afrakstur dagsins..

Varð bara að koma með eina mynd af afrakstri dagsins... núna eru allir* velkomnir í grillerí eða sötr á svölunum mínum :)

*Innan skynsamlegra marka


Svalirnar mínar :)

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband