Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Daðurdrottning

devorss_flirtStjörnuspá

VogVog: Ef þú vilt setja smá kraft í ástarlífið þá er rétta augnablikið núna. Daður hefur aldrei reynst þér jafn auðvelt. Vinir þínir sjá breytinguna strax.
 
Þar hafiði það. Það er bara verst með það hvað ég er lík henni Kamillu í þessum málum. Ég verð bara eins og Samfylkingarpunkturinn í framan og segi einhvern óskunda sem eftirá skil ekki hvernig mér datt yfir höfuð í hug að segja. Hef reynar ekki brotið bein við daður eins og flokkssystir mín en ótrúlegustu hlutir gerast. Ég verð því e.t.v. að taka uppá nýrri daðurtækni en þessari sem ég greini hér að ofan. Hún hefur nefnilega ekki virkað ansi lengi.

Kynlíf eða draugagangur?

Gat ekki sofnað fyrren seint um síðir síðustu nótt. Spilar þar margt inní. Veðrið er auðvitað æðislegt, bjart úti og sólin í algleymingi. Næs það. Nú svo er það draugagangurinn sem á að vera hérna skv. Möggunni. Heyrði allskonar hljóð í gærkvöldi, sem er spes þar sem við erum bara þrjú hérna á 3. hæðinni því flestir eru farnir heim til sín því skólinn er búinn. Yfirleitt eru hérna um 25 manns á hverri hæð.

casperEníhú. Þegar ég svo slekk á tónlistinni og leggst til hvílu heyri ég taktfast hljóð og dettur strax í hug Kasper og félagar. Þegar ég hlusta svo betur eftir því heyrist mér þetta vera annað en draugar því takturinn breyttist öðru hverju en hélt þó alltaf áfram. Ég hugsaði með mér: oh frábært, fólk að stunda kynferðismök og halda fyrir mér vöku. Frábært!

99909186_12fc36299c_oÉg kveikti aftur á tónlistinni og reyndi að útiloka þetta leiðindahljóð. Nema hvað, eftir hálftíma er hljóðið ennþá í gangi og fannst mér það því ekki geta verið fólk í kynferðismökum - nema þetta hafi verið vélmenni eða tónskáld að gera það eftir taktmæli. Þá rann það upp fyrir mér. Hljóðið var hvorki Kasper né tónskáld í kynferðismökum. Það lekur úr sturtuhausnum inná baðinu sem er við hliðiná herberginu mínu.


Flutt!

Ég held það hafi tekið okkur Adda um hálftíma að flytja dótið mitt milli staða. Þvílíkir massar á ferð! 

Ef ykkur leiðist, eins og mér í gærkvöldi, þá er snilld að skoða þetta. Þessir þættir eru bara frábærir og ógeðslega fyndnir. Þeir heita It´s always sunny in Philadelphia...  

En sturtan kallar... svo spilakvöld :) Læt fylgja með uppskrift af ostasalati:

1 mexíkóostur

1 piparostur (eða hvítlauksostur)

1/4 blaðlaukur

slatti af steinlausum vínberjum

ananaskurl ef þið viljið

sýrður rjómi eftir smekk - og mæjó ef þið viljið

 

Osturinn er skorinn í litla teninga sem og blaðlaukurinn og vínberin. Öllu skutlað saman í skál og hrært við sýrða (og mæjó) og svo smá ananaskurl (eða smátt skorin jarðaber eða ferskjur) sett saman við ef þið viljið. Þetta salat er ó svo gott... mæti með þetta í kvöld til Völlu og Adda... og líka tortillas með rjómaosti, sýrðum, salsa og blaðlauk.. jöhömmí. 


,,Ný" tónlist í mallann

SprengjuhöllinNEI!!!!!

Af hverju kemur hann bara ekki norður? Ég get nú alveg sýnt honum sitthvað... farið með hann í Jólahúsið og svona. Jafnvel sund á Þelamörk ef hann er game í villta hluti. ha! hnuss...

Síðustu vikur hef ég keyrt mikið á milli staða, m.a. Rvk og Ak sem tekur allnokkrar klukkustundir. Á þessum tíma hef ég reynt að hlusta á einhverja tónlist sem ég er ekki vön að hlusta á. Afar góð ákvörðun hjá mér! Núna er ég orðin ansi heit fyrir David Bowie (þ.e. ekki bara Space Oddity sem er best, best, best) og The Who sem ég fíla geðveikt. Hressir músíkantar þar á ferð og frábær lagasmíði.

Þegar ég var í Reykjavík fór ég líka á tónleika sem Framtíðarlandið hélt. Meiriháttar tónleikar. Klárlega fannst mér Sprengjuhöllin langflottust! En þar kynntist ég Hjaltalín sem mér finnst æðisleg. Hafði bara heyrt eitt lag með þeim sem ég var alveg sátt við, en þarna heyrði ég svo snilldina. (Langar að benda á að 24. maí n.k. eru þessar tvær grúbbur ásamt Fm Belfast og Motion Boys að spila í Iðnó - gerist villt og mætið!)

Mér finnst æðislegt þegar ég uppgötva svona ,,nýja" músík :) Hér í denn var Tinna vinkona ansi dugleg við að kynna fyrir mér nýja músíkanta en síðustu ár hef ég verið dulítið vannærð af þessum hluta. Núna vil ég bara gleypa endalaust meira af ,,nýrri" tónlist! Any ideas? 


Pakkidípakk og smakkedísmakk

Mér leiðist svo að pakka. Það er næstum því eins og vera í biðröð eða umferðarteppu. Bara leiðinlegra.

Af þeim sökum (og vegna þess að það er ekkert í sjónvarpinu í kvöld og enginn á Ak vill sinna mér í kvöld) þá hef ég ákveðið að blogga um Tónskáldið mitt. Mér þykir líka óskaplega vænt um hana, það er líka ástæða. Svo varð hún hálf skúffuð þegar ég bloggaði svipað um Meistara Magnús hér um árið. En aðalástæðan er samt sú að ég er á Akureyri og hún er alltof langt í burtu - í Kópavogi.

TónskáldiðÞetta er hún Þóra mín. Ég kynntist Þóru sumarið sem ég vann á Sólheimum. Þá var hún að sjá um Brautarholt en ég um Bláskóga. Sumarið var snilld. Saman fórum við í leiðangra um sveitina, bæði með fólkið okkar sem og einar. Kjöftuðum út í eitt og höfðum það náðugt. Buðum vinum í heimsókn þegar við vorum á vakt og sungum saman í kabarett á Grænu könnunni.

Ég á aldrei eftir að gleyma þeirri setningu sem Þóra sagði við mig þegar hún kom niður í Bláskóga og kvaddi mig þegar við vorum saman á síðustu vaktinni: Þú veist þú átt aldrei eftir að losna við mig!

Sem betur fer hefur þetta orðið að veruleika. Þegar við vorum báðar komnar í borgina hittumst við og alltaf var jafn gaman hjá okkur. Eða þannig. Stundum erum við auðvitað á bömmer og kvörtum í hvor annarri. Stundum er önnur okkar ofurhress en hin í dánara. Stundum erum við svo fáránlega hressar að það er óheilbrigt. En það er gaman.

Ég kynni Þóru mína iðulega svona: Þetta er hún Þóra vinkona mín. Hún er tónskáld!!! Hún vinnur sko við það að semja lög og svona! Hugsaðu þér!! Í fyrstu fór Þóra voðalega hjá sér. Núna veit hún hvað ég er stolt af henni svo hún fer aðeins minna hjá sér. A.m.k. sýnir hún það minna en áður. 

Þóra eggjandiÞóra mín er ein yndislegasta manneskja sem ég þekki. Ef ég vissi ekki betur þá myndi ég halda að hjarta hennar væri bleikt í gegn. Það er víst eitthvað rautt í því líka - og ekki sakar það. Þrátt fyrir hversu ólíkar við erum, og kannski vegna þess hve ólíkar við erum, náum við ofboðslega vel saman. Núna vildi ég bara að ég ætti þyrlu (eða öllu heldur Þóra því hún á eftir að verða ríkari en ég eftir alla metsöluplöturnar) þá myndi ég flytja hana til mín um helgina - og allar helgar sem ég gæti. Ég gæti líka pikkað hana upp og boðið henni í mat, eldað eitthvað djúsí og jafnvel bakað. Verst hvað Þóra er með lítinn maga samt, hún borðar yfirleitt ekki mikið. Nema þegar við förum í IKEA. Lunch-arnir okkar þar eru bestir í heimi. Hvað sem fólk hneykslast á okkur fyrir að finnast gott að borða í IKEA þá klikka þessi móment aldrei. Erfiðast við þau er að velja hvar á að sitja - svo margir möguleikar í boði. En við eigum okkar borð.

Bolurinn hennar ÞóruÞegar ég var að hugsa hvort ég ætti að vera á Akureyri varð Þóran mín súr. Þið ættuð bara að vita hvað ég fékk margar atvinnuauglýsingar af mbl.is sendar til mín - og allt störf í Reykjavík og Kópavogi. Þessi elska. En ég veit að við þurfum ekki að vera á sama stað. Við þyrftum samt kannski að vera báðar hjá sama símafyrirtæki svo við getum hringt frítt í hvor aðra.

Enívei... það er ógerlegt að ná að lýsa hæfileikaríka Tónskáldinu mínu hérna. Þetta er svona eins og subway með túnfisksalati og bbq sósu: you gotta know it to enjoy it! Ég ætla hérmeð að útnefna 18. maí ár hvert sem ÞóruFanneyjardaginn :) Ef þið væruð bara svo heppin að þekkja hana Þóru mína! 


Umferðarhljóð eða fuglar

1403_typical_trafficFyndið hvernig maður finnur sinn stað. Síðustu dagar hafa verið frekar erfiðir hjá mér. Stærsti áhrifavaldurinn þar var sá að ég var stödd í Reykjavík. Mér leiðist Reykjavík gasalega mikið. Umferðarhljóð allan sólarhringinn, umferðarteppur, endalaust mikið af fólki, langar vegalengdir, erfitt að fá stæði, flestir á svo mikilli hraðferð að þeir hafa vart tíma til að heilsa og þar fram eftir götunum. Ég er samt alls ekki andstæðan við þetta. Ég er ekki Heiða í sveitinni hjá afa sínum; mjólka kýrnar og kemba hestunum, langt í næstu búð eða vídjóleigu, léleg internettenging, enginn nágranni. Það er ekki ég. Mér finnst samt unaðslegt að komast í sveitina til ömmu og afa þar sem eru dýr af öllum stærðum og gerðum og ég get labbað uppá Hól, borðað ber og horft yfir landið. Æði. 

akmerkiNúna þegar ég er komin á Akureyri er ég eins og fáviti. Ég get ekki hætt að brosa. Fáránlegt, ég veit. Grasið fyrir utan gluggann minn er orðið grænt síðan ég fór suður. Ég heyri ekki í umferð, bara fuglum sem syngja væntanlega mökunarsönginn sinn. Ég ætti kannski að finna mér sérstakan mökunarsöng... hmm..

Það er örugglega ekki bara Eyrin fagra og ljúfa sem kallar fram brosið. Eftir nokkra klukkutíma byrja ég í fyrstu alvöru vinnunni minni. Alvöru vinnu as in vinna sem félagsráðgjafi. Er búin að hlakka til í nokkrar vikur, ótrúlega spennandi starf! Ótrúlegt að ég sé komin á þennan stað. Hversu oft fannst mér ég ekki geta meira? Hversu oft tók ég tímabilið: Ég er bara ekki þessi týpa til að vera í háskólanámi? Jahér.

PR76098-1adc Helgin verður væntanlega ljúf líka, en áætlað er að Túttan kíki til Völlunnar á laugardagskvöldið, já jafnvel með ostasalat eða annað djúsímeti, og já jafnvel verður tekið í spil. Svo þarf ég að þvo nokkrar vélar og hengja út á snúru (er nýbúin að fatta að það eru útisnúrur fyrir utan húsið mitt) og jafnvel fara í leiðangur. Eitt er víst að ég þarf ekki að læra þessa helgina! 

P.s. ég er þessi ofurbrúna í bleiku peysunni... heltönuð eftir sól síðustu daga ;) 

P.s.2. Núna er ég svo spennt að ég get ekki sofnað... og klukkan rúmlega eitt... obbosí! 

P.s.3. Klukkan orðin tvö og ég ekki sofnuð.. þrátt fyrir Damien Rice! Hann sem klikkar aldrei.. doh. 


Hjálpum Tsjernobyl!

Fékk þetta fallega plagat sent í pósti áðan og varð bara að deila því með ykkur. Þeir sem standa að þessum tónleikum eru nemendur í 10. bekk í Langholtsskóla. Frábært framtak! Ef ég væri ekki nýkomin í sæluna hingað á Akureyri þá færi ég pottþétt.. viljið þið bitte schön fara fyrir mig!

Þetta er word skrá svo þið verðið að opna til að kíkja.. svona eins og á jólunum :) 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Styttist í júró...

Eftir að hafa lokið (já alveg lokið) við BA ritgerðina (og átt besta vin í heimi sem prentaði hana út í 4 eintökum fyrir mig, eða samtals 427 bls) er ég farin að finna fyrir gamalkunnum fiðringi. Það er greinilegt að júróvísjón er á næsta leyti. Ég hef ekkert horft á sjónvarp eða hlustað á útvarp síðustu daga og hef því verið í nokkurri fjarlægð við allar auglýsingarnar sem þar geysa um. Í dag hlustuðum við Dagný þó á slatta af gömlum júrólögum og vorum á blússandi siglingu í fíniseringu ritgerðar þegar allt í einu ég uppgötvaði að hann var kominn. Yndislega góði júrófiðringurinn. Ég fann ansi sniðugt vídjó á jútjúb áðan þar sem farið er yfir þau lög sem eru að fara keppa í undankeppninni í kvöld. Flott upprifjun á lögunum, alveg nokkur sem ég gæti hugsað mér að taka sporið við. 

Annars talaði ég við finnska vinkonu mína í dag, en hún býr í Helsinki og fær því júrótruflunina beint í æð. Borgin er víst undirlögð af allskyns fígúrum, fígúrum já, og hún er hætt að kippa sér upp við það þegar hún rekst á dragdrottningar. Pjallan tararna kjaftaði sig inn á sjóvið í kvöld og ætlar að hringja í mig þegar "Eiki the red" tekur lagið. Vá hvað ég væri til í að vera þarna!

Annað spennó í gangi, en það eru komandi kosningar. Ég kaus fyrir nokkrum vikum og atkvæðið mitt er (vonandi) komið á réttan stað núna. Nýjasta skoðanakönnunin sýnir fall ríkisstjórnarinnar sem er vel, en vekur líka upp þá spurning: hverjir myndu mynda ríkisstjórn ef úrslitin væru svona? Sumar útfærslur finnst mér alls ekki fýsilegar. Eitt er víst, ég verð afar spennt á laugardagskvöldið!

Leyfi þessu frábæra myndbandi að fljóta með, ef einhverjir skyldu hafa áhuga á að tékka á því. Koma svo, það er bara júróvísjón einu sinni á ári! :)

 

 

Fimbulfamb - ég er fambinn!

Ætli einhver hafi misst allt hárið við það að gera BA ritgerð? Amk erum við Dagný á góðri leið með það. Hún má nú kannski alveg við því, makkinn tararna, en ég er svoddan hæna... 

Fengum s.s. ritgerðina til baka í gær, gerðum ráð fyrir henni e. helgina, og þurfum að laga pínulítið og skila henni aftur inn áður en hún fer í prentun. Hún skal svo skilast inn næsta fimmtudag svo það þurfa að vera hraðar hendur. Dagný er flogin út í vindinn, eða meira svona í sólina, beyglan bara í Orlando. En ég svosem kvarta ekki, fæ glaðning þegar hún kemur aftur :) Sko fyrir utan það að hún sé komin aftur til að halda geðheilsunni minni gangandi. 

Spilafíkn minni verður svalað í kvöld (ekki það að ég hafi ekki verið að spila síðustu kvöld við Ellu fænku.. neeee) þegar ég rústa fólkinu í Fimbulfambi. Ég er ótrúlega góð í því, án djóks. Þetta spil er ein mesta snilld sem ég hef kynnst hin síðari ár. Hvað það er gaman að geta bullað og bullað - og fengið stig fyrir það. Ég er alveg viss um að bloggvinur minn hann Tommi rústi mér í þessu spili. Þvælan sem kemur uppúr manninum :)  Eiki telur að hann eigi eftir að vinna mig.. hohoho... bíðum nú bara. Þorir einhver að veðja?

Í fyrró ætla ég svo að fara ásamt Magga formanni og Kamillu hormanni á Samfórútunni norður á Akureyri. Þar verður margt um manninn og konuna og að sjálfsögðu þarf að sinna landsbyggðinni líka! Svo þarf ég að ræða við hana Kam um tuskur... annars er víst dýrið laust. Hnátan eitthvað hneyksluð á því að ég skuli vera að gefa snilldar húsráð í Fréttablaðinu í gær. Sussubía.

En.. ég legg gulrótarköku undir að ég rústi Fimbulfambinu í kvöld... any givers? 


LMA

Sem gömul innanbúðartútta í LMA verð ég bara að auglýsa þetta... ef þið eruð á Akureyri þessa daga þá er kjörið að kíkja í príma leikhús hjá LMA fyrir einungis þúsund kédl. Tekið héðan.

Draumur á Jónsmessunótt

Leikfélag MA frumsýnir nú á sunnudag leikritið Draumur á Jónsmessunótt eftir William Shakespeare. Draumur á Jónsmessunótt er dramatískur gamanleikur, saminn einhvern tímann rétt fyrir lok 16. aldar, en verkið þykir sígilt og alltaf eiga erindi. Leikhópurinn hefur unnið hörðum höndum að sýningunni frá því fyrir jól, en leikstjóri er Guðjón Davíð Karlsson. Tónlist í sýningunni er í umsjá Axels Inga Árnasonar.

Draumur á Jónsmessunótt er settur upp í Kvosinni í Menntaskólanum á Akureyri og að henni vinna alls yfir 30 nemendur skólans. Mikið hefur verið lagt í sýninguna til að hún verði sem glæsilegust og vonandi að sem flestir nemendur sjái sér fært að mæta og aðrir gestir geri sér líka ferð í Kvosina til að njóta hennar.

Frumsýningin er sunnudaginn 22. apríl klukkan 20.00.

Aðrar sýningar verða sem hér segir:
miðvikudaginn 25. og fimmtudaginn 26. apríl klukkan 20.00
fimmtudaginn 3. maí klukkan 20.00
föstudaginn 4. maí klukkan 19.00 og 21.15
laugardaginn 5. maí klukkan 17.00 og 20.00

Miðar kosta 1000 krónur fyrir skólanema en 1500 krónur fyrir aðra. Miða er hægt að panta í síma 661 8912

 

P.s. er nýhætt í hláturskasti yfir því hvað orðið tengill er líkt mannsnafninu Þengill... sýra? Njaaa


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband