Áfram landsbyggðin!

Snæfellsnes

Þessa dagana er haldið öldungablakmót í bænum mínum, Snæfellsbæ. Hingað eru samankomin 94 lið allstaðar af landinu ásamt klappliðum sínum, samtals um 1000 manns. Spilað er á Hellissandi á einum velli, í Grundarfirði á einum velli og á þremur völlum hérna í Ólafsvík. Þið getið rétt svo ímyndað ykkur hvernig bærinn umbreytist við komu þessa fjölda. Allt í einu er rosalega mikið líf á götunum, bílar útum allt, fullt af fólki úti að labba, pallurinn hjá hótelinu fullur af fólki að sötra bjór og okkar stóra og stórglæsilega íþróttahús er troðið af íþróttafólki og fígúrum. Krakkarnir á svæðinu fá að vinna í sjoppunni þar sem seldur er matur og slikkerí, mæður blak-krakkanna baka og kökur eru seldar, fleiri hundruð bolir voru prentaðir og frétti ég að nokkrar týpur hefðu verið uppseldar strax í gærmorgun kl. 11. Veitingastaðir bæjarnis (og nærliggjandi bæja s.s. Grundarfjarðar) hafa sett tilboð á mat hjá sér til þess að lokka fólkið til sín og skemmtidagskrá er öll kvöld fram á mánudag. Einhvers staðar þurfa öll þessi lið að gista og hafa því allnokkrir Snæfellsbæingar brugðið á það ráð að leigja út húsin sín og gista hjá vinum og vandamönnum. Allir salir og skólastofur eru fullar af öldungum (sem þó eru einungis 30 ára og eldri) sem koma hingað saman til að spila blak. Ég fæ bara gæsahúð af því að skrifa um þetta. 

Það er nákvæmlega svona sem mér finnst smábæir "úti á landi" vera. Öllum er vel tekið, fólk opnar húsin sín og stendur í stórræðum við að útvega þetta og hitt sem gæti vantað og hinir "óbreyttu" íbúar bæjarins fylkjast á völlinn til þess að hvetja "sitt" lið, sem það hefur e.t.v. aldrei áður gert. Þetta er ekki síður gott fyrir fyrirtækin á svæðinu. Blakvellirnir heita eftir fyrirtækjum sem styrktu mótið. Veitingastaðirnir fá góðan viðskiptahóp, gistirými hvarvetna eru full og svo mætti lengi telja. Þetta er líka hressandi fyrir fólkið sem býr á svæðinu, smá tilbreyting í hversdagsleikanum. Ég er sko búin að ákveða það að ég ætla að verða öldungur í einhverri íþrótt, jafnvel blaki. Ég myndi sko skemmta mér þvílíkt vel á svona mótum, enda ekki minni stemning á þeim heldur en krakkablakmótunum! Áfram landsbyggðin!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband