Hart smjör og súpa

Hvernig væri nú að koma með smá fróðleikspunkta og uppskrift a lá Fannita Dorada? Held það sé vel kominn tími á það. Ætla að gefa ykkur uppskrift af hrikalega góðri súpu sem ég geri oft (en er aldrei eins) og gefa ykkur nokkra góða punkta í farteskið.. hvernig hljómar það?

  • Þegar þið eruð að baka og smjörið er grjóthart eftir að hafa verið í ísskápnum, skil ég ótta ykkar við að skera það niður í kubba og blanda við blönduna ykkar (t.d. ef þið eruð að baka brauð). Þá er deigið í hættu að fara í kekki. Gott ráð við þessu er ekki að kubba smjörið niður heldur þetta: setjið skálina sem smjörið á að fara í á eldhúsvog - tarið (eða núllstillið). Takið smjörið/smjörlíkið og notið ostaskera við að skera þunnar sneiðar þar til þið hafið fengið nægilegt magn af smjörinu og trúiði mér, það er mun auðveldara að hnoða svona deig heldur en ef maður sker í kubba.
  • Ef þið notið Iceberg sallat í matargerð er ekki auðveldast að taka blöðin hvað af hverju og skera þau svo. Setjið kálhausinn á hvolf á borð, þ.e. með rótina upp í loftið. Þrýstið með höndunum ofan á rótina þannig að hún ýtist niður í hausinn. Við þetta losnar bara rótin og þið getið notað blöðin heil eða rifið þau niður í minni búta.

Og svo uppskriftin... Það sem þarf:

  • 1 stór dós Hunt´s pastasósa (t.d. Garlic & onion, italian sausage eða annað)
  • sletta af tómatpúrru eða tómatpestói
  • 1 rauðlaukur
  • hvítlaukur eftir smekk (ATH. Það er BANNAÐ að nota hvítlauksduft! Ferskur hvítlaukur er málið, það eða sleppið honum) 
  • ef vill: 1 hvítur laukur, 3-4 skallottlaukar
  • Grænmeti eftir smekk (t.d. paprika, gulrætur, sætar kartöflur...) smátt skorið.
  • Krydd eftir ímynduarafli og smekk

Byrjið á því að saxa laukinn/laukana smátt og steikja , líka hvítlauk, í smá ólífuolíu í frekar stórum potti. Þegar það er orðið sveitt (ca 5-7 mín) bætið þá grænmetinu útí, ef þið notið það, og þvínæst pastasósunni og fyllið dósina af vatni og setjið líka ofan í pottinn. Skellið 1-2 tsk af tómatpúrru með og hrærið vel í. Nauðsynlegt er að krydda þetta með nýmöluðum svörtum pipar (annað er vont) og Maldon sjávarsalti (annað er óhollt). Svo má setja krydd eftir smekk, s.s. piri-piri krydd, þurrkaðan chilli (ef ferskur chilli er notaður þá er hann settur á sama tíma og grænmetið), pastakrydd, timjan, oregano eða hvað sem ykkur finnst gott. Þessi súpa er látin malla í amk hálftíma (því lengur því betra) og þá smökkuð til. Sumir vilja ekki hafa mikið tómatbragð og þá er vatni bætt útí. Það er einnig hægt að mauka alla, eða hluta, súpunnar og/eða bæta smá matreiðslu/jurtarjóma útí. Mér finnst gott að setja smá pasta útí á síðustu stundu, þetta pínulitla pasta sem er bara 2 mín að sjóða. Svo er þetta bara spurning um að prófa sig áfram. Pastasósur eru fínar, algjörlega idiot proofed, en prófiði ykkur áfram með því að nota tómata í dós og krydda sjálf!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mmm girnileg súpa , mátt bjóða mér í mat ... ;o))

þórey (IP-tala skráð) 13.6.2006 kl. 21:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband