Færsluflokkur: Sjónvarp
10.5.2007 | 01:37
Styttist í júró...
Eftir að hafa lokið (já alveg lokið) við BA ritgerðina (og átt besta vin í heimi sem prentaði hana út í 4 eintökum fyrir mig, eða samtals 427 bls) er ég farin að finna fyrir gamalkunnum fiðringi. Það er greinilegt að júróvísjón er á næsta leyti. Ég hef ekkert horft á sjónvarp eða hlustað á útvarp síðustu daga og hef því verið í nokkurri fjarlægð við allar auglýsingarnar sem þar geysa um. Í dag hlustuðum við Dagný þó á slatta af gömlum júrólögum og vorum á blússandi siglingu í fíniseringu ritgerðar þegar allt í einu ég uppgötvaði að hann var kominn. Yndislega góði júrófiðringurinn. Ég fann ansi sniðugt vídjó á jútjúb áðan þar sem farið er yfir þau lög sem eru að fara keppa í undankeppninni í kvöld. Flott upprifjun á lögunum, alveg nokkur sem ég gæti hugsað mér að taka sporið við.
Annars talaði ég við finnska vinkonu mína í dag, en hún býr í Helsinki og fær því júrótruflunina beint í æð. Borgin er víst undirlögð af allskyns fígúrum, fígúrum já, og hún er hætt að kippa sér upp við það þegar hún rekst á dragdrottningar. Pjallan tararna kjaftaði sig inn á sjóvið í kvöld og ætlar að hringja í mig þegar "Eiki the red" tekur lagið. Vá hvað ég væri til í að vera þarna!
Annað spennó í gangi, en það eru komandi kosningar. Ég kaus fyrir nokkrum vikum og atkvæðið mitt er (vonandi) komið á réttan stað núna. Nýjasta skoðanakönnunin sýnir fall ríkisstjórnarinnar sem er vel, en vekur líka upp þá spurning: hverjir myndu mynda ríkisstjórn ef úrslitin væru svona? Sumar útfærslur finnst mér alls ekki fýsilegar. Eitt er víst, ég verð afar spennt á laugardagskvöldið!
Leyfi þessu frábæra myndbandi að fljóta með, ef einhverjir skyldu hafa áhuga á að tékka á því. Koma svo, það er bara júróvísjón einu sinni á ári! :)
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 01:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.4.2007 | 22:55
Var að berast!
Svo er hérna skilaboð um utankjörfundaratkvæðagreiðslu (sniðugt orð í Hangman?).
Og svo að lokum skemmtileg ræma þar sem Árni Matt leikur aðalhlutverk.
Lifi BombayTv... klappa.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.3.2007 | 23:22
Hlemmur - a must see!!
Ég gerði mér dagamun í kvöld eftir langa vinnuviku. Á leið minni um hið stórkostlega Amtsbókasafn á Akureyri kom ég við í kvikmyndahillunni og skoðaði fýsilegar myndir. Voru þar allnokkrar sem ég gat hugsað mér að verja/eyða tíma mínum í. Þar á meðal Notting Hill (eins og einhverjir kunna að vita þá er ég fíkill á þá mynd), Volver (Pedro Almodóvar er bara klárlega einn mesti snilli tilli sem ég veit um) og svo Hlemmur. Fyrir valinu að þessu sinni var heimildarmyndin Hlemmur eftir Ólaf Sveinsson, sem fékk hina eftirsóttu Eddu árið 2003 sem besta íslenska heimildarmyndin auk þess sem Sigurrós fékk Edduna sama ár fyrir frumsamda tónlist í myndinni. Ekki slæm ræma það.
Allavegana. Myndin byrjaði vel, afar vel. Mjög athyglisverðar persónur kynntar til leiks, flott settings og tónlistin fúnkeraði vel við það sem var að gerast á skjánum. Reyndar fannst mér spurningarnar mjög leiðandi sem notaðar voru, en svörin sem viðmælendur komu með tilbaka voru aftur á móti sönn. Ég fékk það a.m.k. ekki á tilfinninguna að spurningarnar hefður verið stór áhrifavaldur. Að mínu mati er þetta mynd sem flestir ættu að sjá. Eins og Birgir Örn segir í gagnrýni sinni: ,,Sterk og nauðsynleg mynd sem gefur sýn inní hluta þjóðfélagsins sem við reynum að þegja í hel". Ég gleymdi mér algjörlega í lífi þessara aðila sem myndin tók til. Áberandi fannst mér sögurnar af því að enginn þeirra hafði neitt samband að ráði við börnin sín (og barnabörnin) og margir bara alls ekkert - ekki að þeirra undirlagi. Ég finn ennþá sting í hjartanu vegna þessa. Þetta undirstrikar einnig hvað það er ofboðslega mikilvægt að hafa aðstandendur með í dæminu, hvað svo sem er að gerast í lífi fólks. Fjölskyldan er eins og órói sagði Virgina Satir, ef eitthvað kemur fyrir einn þá riðlast allur óróinn. Oft er lítið hugsað um aðstandendurna og hvað þeir eru að fást við. En aftur að myndinni. Einn aðilinn var/er? strætóbílstjóri. Hann virkaði alveg þokkalega vel á mig, búinn að ganga í gegnum margt en einnig búinn að hífa sig upp og ná sér aftur á strik. Ljúfur og rólegur maður sem langaði svolítið til þess að eiga konu til að koma heim til á kvöldin og spjalla við. Hann sagðist vera að íhuga það að fá sér konu frá Asíu, þær væru svo broshýrar og nytu lífsins. Allt gott og blessað með það. En svo kom höggið á hana Fanney Dóru. Stuttu seinna í myndinni sagðist hann ekki treysta ráðamönnum þjóðarinnar og ekki aðhyllast neina pólitíska stefnu hérlendis. Stefnan sem hann aðhyllist er sósíalískur þjóðernisstefna. Já. Maðurinn var alveg með það á hreinu að Nazi ætti eftir að gerast hérna á Íslandi. Það væri alltaf að koma fleira og fleira dökkt fólk hingað til landsins og það þyrfti að gera eitthvað í því. Jámm.. ekki orð um það meir. Horfið á myndina! Þegar fór á líða undir lokin þurfti ég svo að setja á pásu öðru hverju til að þurrka vot augun svo ég gæti fókusað á skjáinn. Meyra konan.
Afsakið.. þetta kom útúr mér í einni bunu. Ergo: Sjáið myndina sem fyrst! Og ef þið munið eftir því, deilið skoðun ykkar með öðrum, bloggið, sendið sms og talið um myndina á kaffistofum. Ég veit ég er svolítið á eftir, myndin orðin nokkurra ára gömul, en hún er klassi. Tékkið á kynnismyndbandinu.
Kvót myndarinnar: Manni svíður oft og maður grætur. Svo koma nætur. Sorgin hverfur með sólinni þegar hún skín að morgni. (þegar hann talaði um að hann fengi ekki að vera með börnum sínum og barnabörnum)
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.2.2007 | 23:18
Eitthvað af Eyrinni..
Búin að vera lasin. Ekki á topp tíu listanum mínum. Engan veginn. En björtu hliðarnar: fullt af skemmtilegu fólki að sækja mig heim um helgina, spáir fáránlega góðu veðri til að fara í Fjallið, búið að snjóa í allan dag, 5 í fötu á 987 kr annað kvöld á Amour, Palli Óskars í Sjallanum á lau.. Það er allt að gerast á Eyrinni. Sjáiði svo fallega fólkið sem verður á skíðum í Hlíðarfjalli um helgina:
Er að horfa á The Insider á Sirkus. Leiðindaþáttur, mér leiðist slúður. En þarna var verið að fjalla um konu sem var 400 kg og það var verið að flytja hana út úr húsinu hennar með 9 slökkviliðsmönnum og spili til að draga hana inn í bílinn sem flytja átti hana til sjúkrahússins þar sem hún var að fara í aðgerð. Þetta var átakanlegt að horfa á. Konan átti nefnilega unga dóttur sem grét við þessar athafnir fólksins. Hún var m.a.s. tveggja barna móðir og einstæð. Hvernig gengu eiginlega fæðingarnar? Og hvernig gat hún sinnt börnunum þegar hún kemst ekki einu sinni úr rúminu sínu til að fara á klósettið? Hvernig ætli stuðningsnetið hennar sé þegar hún fer í svona aðgerð? Hver sér um börnin? Þetta er afar áhugaverð frétt, en í The insider var aðalmálið hve marga þurfti til að flytja konuna út og að hún væri að fara í aðgerð. Hvað með allt annað í kringum þetta?
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.2.2007 | 01:28
Júró-fíklar!
Í tilefni þess að nú er farið að styttast allsvakalega í júróvísjón...
Í tilefni þess að ég er orðin frekar spennt fyrir júróvísjón...
Í tilefni þess að við völdum okkar framlag til júróvísjón í ár...
... er ég með smá gátu.
1) Hver er þetta?
2) Fyrir hvaða land keppti hann í júró?
3) Hvað heitir lagið?
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.2.2007 | 14:55
Júró
Lokakvöld júróvísjón er í kvöld - jeij. Mig langar að Heiða vinni, Ég og heilinn minn er hresst lag og dansinn hjá bakröddunum einn og sér kemur okkur langt. Annars er ómögulegt að segja hvaða lag vinnur. T.d. miðað við lögin sem komust áfram síðasta úrslitakvöldið er ENGIN leið að spá. Klárlega vil ég ekki að Bríet Sunna fari út fyrir okkar hönd. Einfalt mál. Og þó svo að Sjonni Brink sé foli þá er ég ekki alveg að kaupa lagið hans. Lagið sem Matti syngur er alls ekki að heilla mig, þrátt fyrir að Meistari Pétur Jesús ljái því hæfileika sína. Hafsteinn tryllir mig engan veginn með sínu lagi. Skil ekki hvers vegna maðurinn fékk ekki einhvern til þess að syngja þetta annars ágæta lag. Hvað er svo málið með þennan Torfa og Bjarta brosið hans? Er fólk ekki búið að átta sig á því að Skímó-stíll er ekki málið? Eiki Hauks er náttúrulega fyrir löngu orðinn klassík og lagið er flott. Ég veit ekki alveg hvort þetta rokkdæmi sé að virka aftur eftir Lordi. Friðrik Ómar á eftir að fara í júró einhvern tímann en með þetta lag, ég er ekki viss. Lagið sem hann söng í fyrra fannst mér flottara, en Kristján Grétarsson Örvarssonar er hottie og fengi mitt atkvæði ef hann væri sjálfur að syngja. Jónsinn minn hefur mátt muna sinn fífil fegri hvað fataval varðar, lagið svosem ágætt.
Hvað varð um GÓÐU júrólögin? Bucks Fizz var náttla bara snilld, ég vildi að ég kynni dansinn og hefði svona háa rödd eins og önnur konan. Dschingkis Khan er klassi. Sandra Kim hefur alltaf verið mitt uppáhald með fáránlega hressa lagið sem ég söng hástöfum nokkurra ára gömul. Og hvað ég vildi eignast svona föt! Men ó men. Fangad av en stormvind á sérstakan stað hjá mér, snilldarlag hjá henni Carolu. Og ó hvað Diggiloo diggiley þeirra Svía er yndislegt! Ég get ekki annað en fengið gæsahúð við að hlusta og horfa á þessar elskur. Pæliði í dansinum! Bobbysocks = geggjun, unaður. Abba er klassík þó svo að ég diggi lagið kannski ekki í tætlur eins og mörg önnur. Endalaust mikið af snilldarlögum.
Fjallið lokað í dag vegna veðurs - afar afar sorgmædd yfir því. En ég er jafnframt afar afar hamingjusöm því bestasta sTinnan mín á afmæli í dag - KNÚS til hennar í tilefni dagsins. Góður afmælisdagur fyrir hana sTinnuna mína að júró sé í kvöld. Svo auðvitað konudagurinn á morgun. Býst nú ekki við hrúgu af gjöfum innum lúguna mína EN... Baddi frændi kom í gær og hafði meðferðis eina konudagsgjöf sem ég fékk þegar ég var hérna á Akureyrinni síðast. Pabbi gaf mér skauta í konudagsgjöf eitt árið, algjör snilld, og hafa þeir verið vel nýttir og verða nýttir í náinni framtíð.
Ó vell... kannski kominn tími að afklæðast skíðafötunum og koma sér í eitthvað þægilegra. Njótiði dagsins og kvöldsins. Ef þið eruð á Akureyri í kvöld þá mæli ég eindregið með því að þið komið á Amour að hlusta á Hlyn spila.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.2.2007 | 16:31
Gæti ég fengið texta, takk?
Í upphafi mánaðarins var enn og aftur lagt fram frumvarp til laga um textun í sjónvarpi. Síðast "sofnaði það í nefnd" og er nú komið aftur í menntamálanefnd. Ég vona að Siggi Kári og félagar geri meira í málinu nú en síðast. Löngu síðan orðið tímabært, löngu síðan. Og ég meina löngu síðan.
Í gær horfði ég á fréttir. Það er ekki fréttnæmt. En eitt verð ég að benda á, enn einu sinni. Í fréttatímanum var frétt um heyrnarlausa. Fréttin var textuð svo heyrnarlausir gætu áttað sig á um hvað fréttin væri. HALLÓ?!?! Heldur fólk virkilega að heyrnarlausir sitji bara fyrir framan sjónvarpið, horfi á fréttirnar án texta og BÍÐI eftir því að það komi frétt um þá sem er textuð? Hvað eru það.. 3 fréttir á ári eða? Er þessi texti ekki til á textavélum sem fréttamennirnir lesa af? Ohh.. ég verð svo hneyksluð.
Ég verð að láta fylgja með töflu um textun í ríkissjónvarpi nokkurra Evrópulanda. Taflan er úr frumvarpinu og tölurnar eru frá árinu 2003 og hafa (vonandi) eitthvað hækkað, en ég bít ekki af mér rassinn hafi svo ekki farið.
Land: | Textun á mánuði (ríkisstöðvar): |
Albanía | Enginn, aðeins textun fyrir erlent mál |
Austurríki | 170 tímar |
Belgía | 5 tímar |
Danmörk | 189 tímar |
England | 80% af öllu efni á BBC, ITV og C4 20% í stafrænum útsendingum |
Finnland | 15% af öllu innlendu efni |
Grikkland | 14 tímar |
Írland | 23 tímar |
Ísland | 1 tími |
Ítalía | 80 tímar |
Pólland | 30 tímar |
Spánn | 446 tímar |
Sviss | 240 tímar |
Þýskaland | 387 tímar |
EINN KLUKKUTÍMI Á MÁNUÐI???
Hvaða ár er eiginlega?
Díses kræst.is
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.2.2007 | 16:26
Viva la Kompás!
Þvílík snilld sem þátturinn Kompás er. Ég verð svo glöð í hjarta mínu að vita af svona frábæru fólki þarna úti. Þættirnir þar sem barnaníðingsmál voru til umfjöllunar finnst mér nauðsynlegt innleg í umræðuna og ég gæti ekki verið meira sammála Rúnu í Stígamótum um þetta eftirlitskerfi. Það sem Kompás hefur verið að gera gæti stórminnkað samskipti þessara manna við börn. Svo er bara spurningin, hver á að sinna þessu? Lögreglan? Já, lögreglan er sá aðili sem að mínu mati á að sjá um þetta eftirlit. Það er svo annað mál hvernig það ætti að fara fram og hve oft. Ég held þó að við slíkt eftirlit yrðu til nýjar leiðir níðingsmanna til að komast í samband við börnin, en þá erum við amk búin að útiloka eina. Margt smátt gerir eitt stórt.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.1.2007 | 01:16
Sykurmolakórónan sigraði ekki!
Þá get ég birt mynd af höfuðfatinu mínu sem, þrátt fyrir miklar væntingar, bar ekki sigur úr býtum í keppninni góðu. Nokkurra daga vinna lá að baki gerð höfuðfatsins, en það er lúmskt erfitt að líma þetta saman. Erfitt en gaman :) Anna Rósa var sigurvegari kvöldsins fyrir að finna einu notin sem hægt er að hafa af meintri brauðkörfu sem ku hafa verið jólagjöf frá KB Banka, Kaupþingi banka, Kappaflingfling etc. Ekki var verra að sjá hversu vel Anna Rósa klæddist við þetta höfuðfat, en daman var í smóking. Leikir kvöldisins heppnuðust vel, allir fengu eitt hlutverk á miða sem þeir áttu að leika í laumi, þ.e. enginn mátti vita hvert þeirra hlutverk var. Útúr þessu varð svo heilmikil skemmtun þegar miðarnir voru lesnir upp og fólk átti að giska hver átti hvern miða. T.d. talaði kærastinn hennar Svönu endalaust um hvað það hefði verið ömurlegt að Tóta hefði ekki komist í afmælið (það stóð á hans miða) en hann hefur hitt Tótu einu sinni og þekkir hana lítið sem ekkert. Við þetta varð Svana (bekkjarsys okkar Tótu úr MA) hneyksluð á þessari hegðun mannsins síns og lét vel valin orð falla, skildi ekkert í því hvað hann væri að röfla um þetta núna. Afar fyndið. Meðal annarra hlutverka má nefna:
- þegar þú sérð fólk vera fá sér bjór/vín/kokteil áttu að segja hissa: bíddu, ert þú að fá þér annan? Varstu ekki á bíl? Kona eins samstarfsmanna Völlu fékk þetta, fáir vissu hver hún væri og því kom þetta afar skoplega út.
- þú gerir í því að dásama útsýnið útum klósettgluggann í íbúðinni. Þegar þér er bent á að það sé nú enginn gluggi á klósettinu segirðu hissa: Ó!
- Þú ert sífellt að finna undarlega lykt úr eldhúsinu og stanslausa prumpulykt. Reyndu að komast að því hver á þessa lykt. Þetta var miðinn minn. Fólk hefur eflaust haldið að ég hefði einhverjar vafasamar kenndir, síspyrjandi hvort það hafi verið að prumpa, hvort þetta sé ekki lyktin þeirra. Spés í hið minnsta
- Þú bendir iðulega á það hvað Addi (maðurinn hennar Völlu) sé líkur Guðmundi í Byrginu, með þennan hatt.
- Þú ert alltaf að heyra einhver furðurleg hljóð af svölunum og spyrð fólk í kringum þig hvort það hafi heyrt þau líka. Þetta var hrikalega fyndið. Einn gaur var sífellt að spyrja hvort þau ættu kött sem þau geymdu á svölunum, hvort fólk hafi heyt í kettinum etc.
Ekki stóð Amour undir væntingum þetta skiptið, afar fámennt, nú en góðmennt. Eftir smá innlit á Vélsmiðjuna var stefnan tekin heim á Klettastíg. Ekki hitti ég stjörnumerkið sem ég ætlaði að hitta, en ég var svosem upptekin við annað. Kvöldið var þó afar, afar vel heppnað. Ég spjallaði heilmikið við uppáhaldskennarann minn úr MA, sem jafnframt er félagi í Samfó, og hann tjáði mér að ég væri eini nemandinn á öllum hans ferli sem hefði fengið að lesa upp nemendur. Ég sóttist stíft eftir því að fá að lesa upp, örugglega í heilt ár, þar til hann gafst upp og veitti mér pennann sem notaður var til að benda á nemendur svo þeir þögnuðu. Upplesturinn var heilög stund. Ahh.. sælla minninga.
Í dag týndi ég mér í smástund á Youtube, þvílíkur snilldarveruleiki sem þar er. Verð að benda ykkur á þessi tvö brot hérna, þau gleðja ekki bara augað, heldur eru þau líka fáránlega fyndin. Fyrri ræman er hinn munúðarfulli dans sem Napoleon Dynamite tók þegar félagi hans Pedro var í framboði. Það eykur á fyndni þessa myndbands að lagið er fyrsta lagið í Body Jam tímanum mínum og svei mér ef hreyfingarnar þar eru ekki í anda Naopleons. Seinni ræman er úr sænskum þætti í anda Tekinn með Audda Blö. Þar fær Jamie Oliver á baukinn. Há jú læk kokk, jes? Vesgú!
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.1.2007 | 00:47
Bridget Jones - enn og aftur
Í kvöld var stemningin þannig að Bridget vinkona mín Jones varð bara að birtast á skjánum. Hvað ég hef horft oft á þessa bíómynd veit enginn. Ætli þetta séu ekki hvað, 8-9 skipti á ári? Þrátt fyrir það finnst mér myndin alltaf jafn fáránlega skemmtileg og fyndin. Bridget Jones er snillingur. Upphafssenan þegar hún er að tala við Mark Darcy í hreindýrapeysunni gæti alveg (og hefur eiginlega) gerst í mínu lífi. Þvílík snilld.
Þó svo að ég viti nákvæmlega hvernig myndin er, hvernig hún endar og hver segir hvað, þá er tilfinningin í upphafi myndar alltaf spennandi. Daniel Cleaver (Foli Grant) er náttúrlega sjúklega sætur og næs gaur en verður svo alger skíthæll. Mark Darcy er algjör lúði og þurrprumpulegur en verður svo unaðslega flottur. Ég vel Darcy, ómæ ómæ... Og í enda myndarinnar þegar hún er á brókinni að kyssa hann fyrir utan bókabúðina: Bridget: Wait a minute, nice boys don´t kiss like that! - Darcy: Oh yes the fucking do! Garg!
Þessar setningar sem elsku vinkona mín hún Bridget er að fá eru setningar sem ég hef heyrt. Ég hef í alvörunni fengið spurningar á borð við: ,,hvernig er þetta með ykkur einhleypa fólkið, finnst ykkur.. blahh". Spurningar á borð við: hvað er að frétta í ástarlífinu? Komin með kall? Eitthvað að gerast í kallamálum? Enginn Amor mættur til þín Fanney? Á ekkert að fara ná sér í förunaut? Langar þig ekkert að eignast börn? og Hvenær ætlarðu eiginlega að finna þér kærasta? eru alltaf súrsætar. Ekki bara vegna þess hve heimskulegar þær eru, heldur rifjast alltaf upp fyrir mér atriði úr myndinni og ég skil þessa elsku svo vel.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 01:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)