Færsluflokkur: Matur og drykkur
26.6.2006 | 04:02
Mexíkókjúlli og dansspor
Ég sit nú við minn reglulega 3:30 - 4:00 snæðing, ég verð alltaf svöng á þessum tíma þegar ég er á næturvakt. Ég gerðist svo djörf í nótt að breyta um snæðing, en síðan ég byrjaði hérna hef ég alltaf fengið mér það sama.. nema fyrstu 2 vaktirnar, þá fékk ég mér ristað brauð með osti. Svo kom AB-mjólk með banana og stundum peru og núna - í tilefni þess að ég fer í 2ja daga frí á morgun - fékk ég mér jarðarberjasúrmjólk með Cheerios. Bara ansi fínt get ég sagt ykkur.
Shall we dance? var bara skrambi fín, fékk mig til þess að hrista rassinn nokkrum sinnum, tárast, hlægja upphátt og fá gæsahúð. Ergo sum = fín skemmtun. Núna var svo Monk að byrja (og ég dýrka Monk) og á eftir honum er Cold case (frábær þáttur). Ég er farin að hafa áhyggjur af sjónvarpsáhorfi mínu! Ég horfði svo hrikalega sjaldan á sjónvarp en núna tékka ég dagskrána á hverri vakt... þetta er vonandi bara útaf næturvöktunum.
En kjúklingarétturinn snilldarlegi kemur hérna... skora á ykkur að prófa!
Mexíkókjúlli fyrir ca 4-5:
- 1 steiktur kjúklingur rifinn niður eða 3-4 bringur í bitum, steiktar
- 1 poki hrísgrjón, soðin
- 1 lítil dós af maísbaunum
- 3/4 dós ostasósa
- 3/4-1 dós salsasósa
- 1 poki tortillaflögur (bragð e. smekk)
- 1 poli rifinn ostur
Ókei.. þetta er svo easy krakkar... Byrjið á því að smyrja eldfast mót með smá olíu. Setjið hrísgrjónin neðst, svo maísbaunirnar, næst kjúllann og dreifið fyrst ostasósunni og svo salsasósunni yfir. Myljið flögurnar yfir herlegheitin og toppið með rifnum osti. Mér finnst agalega gott að krydda með svörtum pipar. Þetta er svo sett í ofn þar til osturinn er orðinn brúnn og djúsí. Geggjað gott með Guaqamole og fersku salati - jafnvel sýrðum rjóma fyrir þá sem eru heitir fyrir því. Ííííískaldur Corona með lime skemmir heldur ekki fyrir. Koma svo, go wild!
23.6.2006 | 18:45
Duglega stelpan ég :)
Eftir að hafa náð í Kermit á pústverkstæðið gerðist ég ofurdugleg. Mamma mín gaf mér ótrúlega flott blóm á svalirnar sem heitir Blóðdropi Krists.. svolítið spúkí, en mjög mjög fallegt :) Ég gat ekki komið þessari fallegu bleiku plöntu í bleika blómapottinum fyrir á borðinu á svölunum þar sem ég hafði enn ekki gert vorhreingerninguna þar. Skellti mér í stuttbuxur og hlýrabol og púlaði í 2 klst við að skrúbba húsgögnin, grillið og svalirnar sjálfar. Núna er allt skínandi fínt og blómið komið á borðið :) Note to self: muna að vökva blómið.
Er í þessum töluðu orðum að snæða dinner. Gerði pastasallat sem ég tileinka Tinnu minni enda gaf hún mér einu sinni svipað pasta og ég ánetjaðist. Gjöriði svo vel!
Fyrir 2 maga:
- 1/2 pk tortellini með kjöt- eða ostafyllingu - soðið skv. leiðbeiningum á pakka
- Smá salatblanda að eigin vali, ég var með frisé blöndu frá Sollu
- 2 tómatar skornir í bita
- nokkrir sveppir í sneiðum
- 1/2 rauðlaukur fínt skorinn
- nokkrar ólífur
- e.t.v. piparostur í bitum, kotasæla eða annað djúsí
- smá rautt pestó
- pipar, svartur nýmalaður pipar og ekkert annað!
Blanda öllu saman í skál NEMA pasta og pestó. Hræra ca 2 msk pestó í pastað og skella svo öllu saman, pipra eftir smekk - nóóóóg af pipar - og borðað með góðri lyst! Jömmí!
13.6.2006 | 23:27
Fyrst kaffi, svo áfengi?
Merkilegt.. athyglisvert..
en ætli öll hin slæmu áhrifin af því að drekka áfengi séu tekin inní dæmið? Eða bara skorpulifur?
Ekki það að þetta hafi nein áhrif á plön næstu daga... en það sakar ekki að hafa varann á og fá sér ca 4 bolla á dag - enda 5 daga næturvaktatörn að ljúka :)
Kaffi hlífir lifrinni við verstu áhrifum áfengis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.6.2006 | 00:58
Hart smjör og súpa
Hvernig væri nú að koma með smá fróðleikspunkta og uppskrift a lá Fannita Dorada? Held það sé vel kominn tími á það. Ætla að gefa ykkur uppskrift af hrikalega góðri súpu sem ég geri oft (en er aldrei eins) og gefa ykkur nokkra góða punkta í farteskið.. hvernig hljómar það?
- Þegar þið eruð að baka og smjörið er grjóthart eftir að hafa verið í ísskápnum, skil ég ótta ykkar við að skera það niður í kubba og blanda við blönduna ykkar (t.d. ef þið eruð að baka brauð). Þá er deigið í hættu að fara í kekki. Gott ráð við þessu er ekki að kubba smjörið niður heldur þetta: setjið skálina sem smjörið á að fara í á eldhúsvog - tarið (eða núllstillið). Takið smjörið/smjörlíkið og notið ostaskera við að skera þunnar sneiðar þar til þið hafið fengið nægilegt magn af smjörinu og trúiði mér, það er mun auðveldara að hnoða svona deig heldur en ef maður sker í kubba.
- Ef þið notið Iceberg sallat í matargerð er ekki auðveldast að taka blöðin hvað af hverju og skera þau svo. Setjið kálhausinn á hvolf á borð, þ.e. með rótina upp í loftið. Þrýstið með höndunum ofan á rótina þannig að hún ýtist niður í hausinn. Við þetta losnar bara rótin og þið getið notað blöðin heil eða rifið þau niður í minni búta.
Og svo uppskriftin... Það sem þarf:
- 1 stór dós Hunt´s pastasósa (t.d. Garlic & onion, italian sausage eða annað)
- sletta af tómatpúrru eða tómatpestói
- 1 rauðlaukur
- hvítlaukur eftir smekk (ATH. Það er BANNAÐ að nota hvítlauksduft! Ferskur hvítlaukur er málið, það eða sleppið honum)
- ef vill: 1 hvítur laukur, 3-4 skallottlaukar
- Grænmeti eftir smekk (t.d. paprika, gulrætur, sætar kartöflur...) smátt skorið.
- Krydd eftir ímynduarafli og smekk
Byrjið á því að saxa laukinn/laukana smátt og steikja , líka hvítlauk, í smá ólífuolíu í frekar stórum potti. Þegar það er orðið sveitt (ca 5-7 mín) bætið þá grænmetinu útí, ef þið notið það, og þvínæst pastasósunni og fyllið dósina af vatni og setjið líka ofan í pottinn. Skellið 1-2 tsk af tómatpúrru með og hrærið vel í. Nauðsynlegt er að krydda þetta með nýmöluðum svörtum pipar (annað er vont) og Maldon sjávarsalti (annað er óhollt). Svo má setja krydd eftir smekk, s.s. piri-piri krydd, þurrkaðan chilli (ef ferskur chilli er notaður þá er hann settur á sama tíma og grænmetið), pastakrydd, timjan, oregano eða hvað sem ykkur finnst gott. Þessi súpa er látin malla í amk hálftíma (því lengur því betra) og þá smökkuð til. Sumir vilja ekki hafa mikið tómatbragð og þá er vatni bætt útí. Það er einnig hægt að mauka alla, eða hluta, súpunnar og/eða bæta smá matreiðslu/jurtarjóma útí. Mér finnst gott að setja smá pasta útí á síðustu stundu, þetta pínulitla pasta sem er bara 2 mín að sjóða. Svo er þetta bara spurning um að prófa sig áfram. Pastasósur eru fínar, algjörlega idiot proofed, en prófiði ykkur áfram með því að nota tómata í dós og krydda sjálf!
3.5.2006 | 20:34
Subway særir
Ég ákvað að vera góð við mig eftir sundferðina og splæsa á mig eins og einum Subway. Ekki skemmir að bátur mánaðarins er skinkubátur og hann er bara fínn, sérstaklega ristaður. En ég átti nú ekki von á því að særast við átið. Sat í makindum mínum fyrir framan sjónvarpið og horfði spennt á Kastljósið. En í öllum spenningnum og æsingnum kláraði ég bátinn minn og fattaði það eftir á að ég hef líkast til skorið mig á bátnum! Er það hægt, maður spyr sig? En jújú, auðvitað tókst henni Effdé að gera það. Segi nú ekki að mér muni blæða út... en maður verður nú að passa lúkkið þegar maður er á lausu ;)
3.5.2006 | 16:15
Lárperur og ljúfmeti
Ég fór að versla áðan í Bónus í Smáranum. Það er kannski ekki frásögum færandi nema fyrir það að ég verð eiginlega að lýsa ánægju minni yfir því hversu gott úrvalið af ávöxtum og grænmeti var þar. Yfirleitt versla ég allt í Bónus, en get ekki hugsað mér að kaupa margt af ávöxtunum eða grænmetinu sem er þar í boði og skunda því í Hagkaup í slíkan leiðangur. En í dag var sagan önnur. Ég gat meira að segja fengið fínar lárperur á góðu verði, 215 kr. kg. Þær eiga reyndar kannski 2 daga eftir í að verða djúsíspúsí, en það kemur. Verlsaði mér líka ferskan ananas, enda er próftíð og þá er ferskur ananas mjög heitur réttur hjá kellingunni.
Ég verð líka að mæla með einu við ykkur, en það er nýtt brauð sem komið er í verslanir. Þetta brauð er spelt rúgbrauð með viðbættu kalki frá Gæðabakstri. Eitt besta brauð sem ég hef smakkað lengi, enda er það alltaf til hjá mér núna. Mæli sérstaklega með rauðu pestói, reyktri skinku, kotasælu og nýmöluðum svörtum pipar sem áleggi... namm nammm :)