Færsluflokkur: Menning og listir
20.5.2006 | 15:39
Gleðilega hátíð!
Þá er dagurinn runninn upp... Evróvisjón keppnin er í kvöld og eins og allir vita erum við ekki með - aftur. Kom mér engan veginn á óvart, en Silvía Nótt stóð sig bara vel miðað við öll púin sem hún fékk fyrir atriðið. Ekki besti flutningur ever, en hey, prik fyrir hana.
Annars er uppáhaldið mitt Grikkland... fjárfesti í disknum um daginn og hef verið að skoða þetta. Svíþjóð kemur líka sterkt inn hjá mér, þó svo að það sé eitthvað í fari Stormsins sem ég kann ekki við. Kannski voru það silfurlituðu buxurnar. En hún var amk í buxum, meira en 98% af kvenkynskeppendum voru með ber læri... ætli það fáist auka stig fyrir slíkt? Held samt ekki, þá hefðum við komist áfram.
Undankeppnin - hneyksli eins og vanalega. Spáði 10 löndum að komast áfram, hafði rétt fyrir mér varðandi 4. Segir voða lítið um spáhæfileika mína, þetta er alltof mikið Austantjaldspartý fyrir sum lönd. Mæli með að þið kíkið HINGAÐ og gleymið ykkur í skemmtuninni. Frábær spurningakeppni úr Evróvisjón efni... fékk 20 rétt af 20.. ;) En ekki hvað??
Svo er það bara Nasa í kvöld.. Páll Óskar býður til teitis og það klikkar aldrei. Ég á von á því að bestu lög keppninnar muni heyrast í alla nótt.. þar á meðal Sandra Kim og auðvitað folinn minn hann Sakis.. Shake it baby! Grrrrr.....
9.5.2006 | 11:01
Fullkomið brúðkaup?
Jæja, svona lít ég út eftir allar línuskautaferðirnar mínar og gönguna á Esjuna á sunndaginn. Hressandi. Annars var ég svo ótrúlega heppin að Ella frænka og Jón buðu mér í leikhús á sunnudagskvöldið. Verkið var Fullkomið brúðkaup sem hefur verið að gera brilliant hluti. Ég fór auðvitað með brjálæðislegar væntingar, enda uppáhaldið mitt í þessari sýningu (Gói). Það breytti því ekki að ég hló í tvo klukkutíma! Þetta verk er algjör snilld, skora á alla sem lesa þetta að fara á þetta (ef það verða fleiri sýningar). Jói og Gói eru auðvitað svo ótrúlega flottir og skemmtilegir leikarar að það er ekki einu sinni hemja. Svo kemur þarna stúlka sem heitir Maríanna Clara og gjörsamlega stelur senunni af hinum með stórkostlegum leik og frábærri skemmtun. Núna er algjört möst að fara að sjá Litlu hryllingsbúðina í Íslensku óperunni.. hver er með?
Annars hafa síðustu dagar verið erfiðir. Það er fáránlega erfitt að vera inni og læra í þessu brjálaða veðri sem geysar. Línuskautarnir mínir eru þokkalega fastir í bílnum og er ég farin að rúlla á þeim amk tvisvar á dag. Fór seint í gærkvöldi niðrí Nauthólsvík og rúllaði alla leiðina útá Nes. Veðrið var svo ótrúlega fallegt, sjórinn alveg spegilsléttur og hljóðin yndisleg. Núna vantar bara betri gangstéttir innanbæjar svo ég geti rúllað mér þar líka :) En oh well oh well, Bókhlaðan bíður mín víst...
29.4.2006 | 14:27
Áfram landsbyggðin!
Þessa dagana er haldið öldungablakmót í bænum mínum, Snæfellsbæ. Hingað eru samankomin 94 lið allstaðar af landinu ásamt klappliðum sínum, samtals um 1000 manns. Spilað er á Hellissandi á einum velli, í Grundarfirði á einum velli og á þremur völlum hérna í Ólafsvík. Þið getið rétt svo ímyndað ykkur hvernig bærinn umbreytist við komu þessa fjölda. Allt í einu er rosalega mikið líf á götunum, bílar útum allt, fullt af fólki úti að labba, pallurinn hjá hótelinu fullur af fólki að sötra bjór og okkar stóra og stórglæsilega íþróttahús er troðið af íþróttafólki og fígúrum. Krakkarnir á svæðinu fá að vinna í sjoppunni þar sem seldur er matur og slikkerí, mæður blak-krakkanna baka og kökur eru seldar, fleiri hundruð bolir voru prentaðir og frétti ég að nokkrar týpur hefðu verið uppseldar strax í gærmorgun kl. 11. Veitingastaðir bæjarnis (og nærliggjandi bæja s.s. Grundarfjarðar) hafa sett tilboð á mat hjá sér til þess að lokka fólkið til sín og skemmtidagskrá er öll kvöld fram á mánudag. Einhvers staðar þurfa öll þessi lið að gista og hafa því allnokkrir Snæfellsbæingar brugðið á það ráð að leigja út húsin sín og gista hjá vinum og vandamönnum. Allir salir og skólastofur eru fullar af öldungum (sem þó eru einungis 30 ára og eldri) sem koma hingað saman til að spila blak. Ég fæ bara gæsahúð af því að skrifa um þetta.
Það er nákvæmlega svona sem mér finnst smábæir "úti á landi" vera. Öllum er vel tekið, fólk opnar húsin sín og stendur í stórræðum við að útvega þetta og hitt sem gæti vantað og hinir "óbreyttu" íbúar bæjarins fylkjast á völlinn til þess að hvetja "sitt" lið, sem það hefur e.t.v. aldrei áður gert. Þetta er ekki síður gott fyrir fyrirtækin á svæðinu. Blakvellirnir heita eftir fyrirtækjum sem styrktu mótið. Veitingastaðirnir fá góðan viðskiptahóp, gistirými hvarvetna eru full og svo mætti lengi telja. Þetta er líka hressandi fyrir fólkið sem býr á svæðinu, smá tilbreyting í hversdagsleikanum. Ég er sko búin að ákveða það að ég ætla að verða öldungur í einhverri íþrótt, jafnvel blaki. Ég myndi sko skemmta mér þvílíkt vel á svona mótum, enda ekki minni stemning á þeim heldur en krakkablakmótunum! Áfram landsbyggðin!