Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Gaypride

Núna eru bara 16 dagar þangað til Gaypride hátíðin hefst, eða þann 10. ágúst. Ég greip mér Dagskrárrit hátíðarinnar og líst bara ansi vel á. Á fimmtudeginum 10. ágúst verður Eurovision dansleikur á Nasa með Regínu Ósk, Friðik Ómari og hljómsveit sem mig langar voða mikið til að fara á. Það klikkar ekki stuðið þegar ég skelli mér á júródjamm, það eitt er víst. Ég hef reyndar lítið að gera á Stelpnaballið sem verður á föstudagskvöldinu, en aldrei að vita hvað gerist á 2 vikum.. hmm... Á laugardeginum er svo aðalfjörið... Lænöppið að skrúðgöngunni byrjar 12:30 og hún mun leggja af stað kl. 14:00, sömu leið og vanalega. Svo verða auðvitað skemmtiatriðin í Lækjargötu... Guðrún Ögmunds, Regína Ósk, Friðrik Ómar, Bjartmar, Jói Gabríel, The Nanas ofl ofl... Skal ég hundur heita ef ég kíki ekki á hátíðardansleik Hinsegin daga sem verður þá um kvöldið á Nasa.. með Palla í fararbroddi. Bæði Pál Óskar sem mun þeyta skífum og svo mun ég sko mæta í teiti til Palla, boðaði mig þangað fyrir mörgum mánuðum barasta :D slík er eftirvæntingin.. Á sunnudeginum er fínt að nota þynnkuna í að fara í messu í Hallgrímskirkju þar sem Sr. Pat Bumgardner frá New York predíkar. Ví ví ví.. það styttist...


Verður æ betra að búa í Kópavogi

Ég var að koma úr svaðalegum göngutúr. Flúði troðfullu þvottakörfuna mína og tók i-podinn með. Saman lögðum við upp í leiðangur um Kópavog sem einungis er hægt að sjá fótgangandi. Þetta tengist líka allt rúnt sem ég fór með Þóru vinkonu í fyrrakvöld. Þóran tararna er Kópavogsbúi í alla enda og veit mest um Kópavog af þeim manneskjum sem ég þekki. Ég held að hennar æðsta ósk sé að ég kynnist Kópavogsbúa og muni giftast honum og búa í Kópavogi, helst vesturbænum í Kópavogi. Þetta var nú samt útúrdúr, ég var að tala um Kópavog.

Já, við fórum sem sagt svakalegan rúnt í fyrrakvöld þar sem ég skoðaði leyndar götur og garða, hús sem voru með svalir alveg ofan í sjóinn, "Central Park" Kópavogs, Rútstún (en Rútur var einmitt fyrsti bæjarstjórinn í Kóp. Hann átti þetta tún og gaf bænum það með því skilyrði að það ætti áfram að vera tún, sem það og er enn þann dag í dag. Konan hans hét einmitt Hildur og var líka bæjarstjóri í Kópavogi eftir að kallinn hætti. Segiði svo að ég sé ekki í sumarskóla!) og gamla Kópavogshæli. Einstaklega fræðandi rúntur get ég sagt ykkur.

Fræðslutúrnum var svo haldið áfram í morgun, en þá vorum við bara tvö, ég og Folinn eða i-podinn eins og hann er líka kallaður. Við gengum frá húsinu mínu og í átt að Nauthólsvík. Á leiðinni má sjá aragrúa listaverka, oft tengd skólum bæjarins. Þá má líka skoða Tré ársins 2005 sem er Rússalerki og stendur við göngustíginn. Nú svo má líka njóta þess að anda inn um nefið og finna lyktina af birkinu og hvönnunum sem vaxa eins og vindurinn þarna! Þess má geta að allt er þetta malbikað svo hægt er að fara þessa leið á línuskautum :) Jeij!

Svei mér þá, ef ég er bara ekki alvarlega að íhuga Kópavog sem framtíðarstað...


Að kynnast fólki er góð skemmtun

Mér finnst ótrúlega gaman þegar ég hitti skemmtilegt fólk. Nánast allt fólk er skemmtilegt, á einhvern hátt amk. Maður er manns gaman, ekki satt? Svo er bara spurning hvað maður vill hafa mikið gaman. Ég er svakalega heppin því ég þekki hrikalega mikið af stórskemmtilegu fólki. Fjölskyldan mín og ættingjar eru skemmtilegt fólk, vinir mínir eru skemmtilegir, fólkið sem ég vinn með er skemmtilegt osfrv.

Þegar maður kynnist nýju fólki er maður yfirleitt ekki með persónuleikann sinn í botni, kannski bara svona 70%. Maður tékkar hvort húmorinn sé að skila sér og hvort það sé við hæfi að segja þetta og hitt. Öðru hvoru hittir maður þó fólk sem er þannig úr garði gert að persónuleiki manns fer ósjálfrátt í 100% upptjún og maður gleymir að vera aðeins til baka á meðan maður er að kynnast. Ég hef þó komist að því að þetta fólk, sem fær mann til að gleyma því að skrúfa fyrir smá af persónuleikanum, er iðulega skemmtilegasta fólkið - annars væri maður ekki svona "maður sjálfur" við fyrstu kynni.

Jæja nóg um það. Er svona að jafna mig eftir að hafa klúðrað súkkulaðikökunni í gær. Fáránlegt alveg. Lenti síðast í þessu þegar ég bjó með Jóni Eggerti og Svenna á Akureyrinni. Ætlaði svoleiðis að vera búin að gera skúffuköku aldarinnar þegar Svenni kæmi heim úr vinnunni. Svo ákvað Fannsa að fara í sturtu og gleymdi sér þar... rankaði við mér við reykskynjarann. Nota Bene: þetta er fyrir 6 árum gott fólk! En ljósi punkturinn er að það var vel hægt að borða kökuna sem ég gerði í gær, ekki kökuna fyrir 6 árum. Það tók mig marga daga að ná henni úr forminu...


Afmælisbarn dagsins...

.... er enginn annar en hinn sívinsæli strandvörður David Hasselhoff. Í tilefni þessa merkisdags ætla ég að leyfa ykkur að njóta þessara mynda af kallinum sem nú hefur fyllt árin 54. Hassi, we love you!

 


Afmælisbarn dagsins

Ég skrifaði færslu ekki alls fyrir löngu um Beverly Hills og það að ég hefði mest verið skotin í David sem leikin var af Brian Austin Green. Kappinn á afmæli í dag, 33ja ára. Ég sendi honum hamingju óskir í tilefni þessa. Brian, þú ert maðurinn!

Verð nú samt að játa að ég myndi nú alveg samþykkta deit með honum í dag, þó svo að ég hafi komið með langa ræðu um hversu ósexý hann var hérna í denn... Fólk fríkkar með aldrinum, það er staðreynd!

Já.. greinilegt að ég er enn á ný mætt á næturvakt. Og greininlegt að það er föstudagskvöld því fáir eru á ferli í hinum heiminum mínum (msn) um þessar mundir og því bíður mín ekkert nema sjónvarp og bókin sem ég er föst í núna.


Lambakarrý a lá Jamie Oliver

Frábært kvöld að líða undir lok. Fór með Sigga hennar Ídu í búð þar sem við ætluðum að elda saman lambakarrý frá upphafi. Eftir einstaklega skemmtilega verslunarferð byrjuðum við að elda herlegheitin en tókum stuttu útgáfuna af réttinum, rúmur klukkutími í eldun. Þessi uppskrift er svo mikil snilld, enda frá Meistara Jamie Oliver. Nóg af kryddi og ferskum kryddjurtum - jömmí! Höfðum með þessu naan brauð, hýðishrísgrjón og sýrðan rjóma með kóríander, myntu og gúrku. Maturinn heppnaðist líka svona snilldarvel, húrra húrra. Það er eitthvað svo unaðslegt að elda mat alveg frá upphafi, ekki með neinar tilbúnar sósur eða neitt.. finna svo öll kryddin og mismunandi bragðtegundir springa út í munninum. Ég hef þó brennt mig á því að ég þarf yfirleitt að tvöfalda öll þau krydd sem Jamie leggur til í sinni uppskrift, ekki von að ég sé á góðri leið með að pipra!

Framundan er hrikaleg vinnutörn.. 5 næturvaktir í röð í 14 daga vinnumaníu, ekkert hrikalega djúsí, en ég hlýt að meika það. Gulrótin mín að þessu sinni er hátíðin Á góðri stundu í Grundarfirði sem verður síðustu helgina í júlí. Þessar 2 vikur verða eflaust mjög fljótar að líða, enda bara vinna, sofa, borða, þvo þvott ...

Í dag er sambúð okkar Hnoðra búin að vara í heila viku. Hún hefur þó virst sem nokkur ár, svo vel finnst mér ég þekkja krúttið. Er bara farin að verða hálf leið yfir því að þurfa skila sílinu mínu eftir eina viku... búhúhúhú... er farin að venjast því að hann komi fram á kvöldin og byrji að hlaupa í hjólinu sínu. Bara sætur...


Færeyskir dagar nálgast...

Mikið vona ég að sumarið sé núna komið. Sólin er á leiðinni til Ólafsvíkur um helgina, enda er hátíðin Færeyskir dagar haldin þar. Bryggjuball annað kvöld, Jónsi og folarnir í Svörtum fötum á laugardagskvöldið... svíííít!

Við frænkurnar lögðum leið okkar á Snæfellsnesið í gærkvöldi þar sem amman okkar átti 75 ára afmæli. Í tilefni þess fóru angar hennar með henni á Hótel Búðir í þvílíkt djúsí dinner, blandaðir sjávarréttir í lime-kóriandermarineringu, hægeldað lambafilé og svo súkkulaðikaka með vanilluís og ávöxtum... mmmm... var komin heim um tvö í nótt sem gerir mig ofurþreytta í dag - en það er alltaf hressandi.

Jæja þá, ætlar einhver að koma á Færeyska daga og taka dansinn með mér á föstudags- nú eða laugardagskvöldinu?


Magnús Már

 

Þessi blogfærlsa er tileinkuð stórvini mínum og lífsspekúlanti Magnúsi Má Guðmundssyni. Magnús hef ég þekkt í nokkurn tíma en við erum svo lánsöm að hafa kynnst í gegnum Röskvuna góðu. Strax í upphafi tókust með okkur sterk kærleiksbönd, enda bæði með munninn fyrir neðan nefið og húmorinn á lofti. Í Magnúsi finn ég jafningja minn hvað stríðni varðar, en náunginn tararna er einstaklega stríðinn maður - og tekur stríðni alveg jafnvel og hann notar taktana á aðra.

Magnús Már er Kvennaskólapía af bestu gerð. Hann þekkir vel til allra sem sátu á skólabekk með honum og er mörgum hnútum kunnugur hvað aðra skóla varðar. Snemma á kynnast-tímabilinu komumst við að því að ein hans besta vinkona úr skólanum er ein mín besta frænka - elskulega Heiðrúnin mín. Hefur þetta skapað allnokkur tækifæri til skemmtisagna - í blíðu og stríðu, í drykkju og edrúmennsku.

Maggi kútalingur er öflugur karl, ef karl ætti að kalla. Held hann sé meira svona eins og ofurhetja, amk í mínum huga. Öll þau þrekvirki sem þessi maður hefur unnið, bæði í þágu Röskvu, UJ, TippTopp í Hinu Húsinu eða hvaða nöfnum skal nefna - allt er vel unnið. Myndi ég ráða hann í hvaða vinnu sem er á stundinni - án nokkurra meðmæla.

Nokkrir punktar sem minna mig á Magnús Má:

  • Einu sinni stakk hann gsm-síma ofan í súkkulaðiköku og hringdi svo í símann. Færði svo eigandanum diskinn með kökunni og sagði: síminn til þín!
  • Einu sinni var Maggi svo reiður við gaur sem var leiðinlegur að hann henti honum niður stiga og öskraði vígalega: DRULLAÐU ÞÉR ÚT! (er reyndar bara fyndið þegar maður leikur þetta)
  • Maggi sendir ósjaldan sms til mín þar sem hann biður mig að hafa samband við sig í ákveðið númer þar sem hans sími er straumlaus. Enda ég þá yfirleitt með að hringja í stefnumótarþjónustu eða klámlínu fyrir samkynhneigða.
  • Maggi með myndavélina á lofti - hvenær sem eitthvað sniðugt (nú eða ósniðugt) er að gerast.
  • Maggi að djamma: með net á hausnum, með plast af vínflösku á hausnum, með fáránlegan hatt og gul sólgleraugu...

Jæja, nú er þetta farið að hljóma eins og minningargrein - sem á kannski ágætlega við þar sem kúturinn er á leið úr landi í pínu stund. En ergo sum: Maggi minn, þú ert yndislegur og ég er heppin að þekkja svona sniðugan og góðan strák!


Síminn hans Ásgeirs í köku

5 ára stúdent

Jæja, ég held að orkubyrgðir líkamans séu allar að koma til eftir helgina. Ég hélt ég væri of gömul í þetta en neinei... Það sem uppúr stendur er:

Láka-barmmerkin
  • 4ra daga djamm - úff
  • ógleymanlegar nostalgíu- sem og nýjar sögur
  • gisting á 5 stjörnu hóteli eina nótt (Takk Vallan mín! :-*)
  • gisting á heimavist hinar 3 næturnar
  • Alltof mörg Opal/Tópas/Gajol skot
  • Greifapizza mmm....
  • Karólína.. yeah!
  • Óvissuverðin á fimmtudaginn algjör snilld...
  • Flottasti búningurinn klárlega Lákamerkin og skeggin - 4. FG auðvitað
  • 16. júní = gæsahúð og gleðitár
  • Jónsi (fær þó mínusstig fyrir að kyssa konuna sína í miðju lagi!)
  • MacGretzky á Nætursölunni
  • Týndi veskinu mínu - fann það aftur
  • gekk um í hælaskóm í Kjarnaskógi og upp að Hömrum - maður er ekki á lausu fyrir ekki neitt!
  • Bíllinn með áfengiskerruna sem keyrði á eftir rútunum í óvissuferðinni, skníílld!
  • Allar heimsóknirnar sem ég ætlaði í, en fór ekki... ómögulegt að heimsækja aðra en MA-inga þessa helgi.. maður er ósamræðuhæfur um annað en MA-sögur
  • raddleysið eftir ballið á föstudeginum.. sem breyttist í hæsi en ég er öll að koma til
  • Kynnisferðin sem ég fékk frá 10. ára stúdent ... var sem sagt kynnt fyrir öllum 10. ára karlkyns stúdentum sem voru á lausu
  • Einar landó - jafnast ekkert á við hann
  • Allt þetta yndislega fólk sem ég þekki síðan úr Menntaskólanum á Akureyri! Takk fyrir frábæra skemmtun!
Fannsa að dimmitera

Gleðilega hátíð!

Þá er dagurinn runninn upp... Evróvisjón keppnin er í kvöld og eins og allir vita erum við ekki með - aftur. Kom mér engan veginn á óvart, en Silvía Nótt stóð sig bara vel miðað við öll púin sem hún fékk fyrir atriðið. Ekki besti flutningur ever, en hey, prik fyrir hana.

Annars er uppáhaldið mitt Grikkland... fjárfesti í disknum um daginn og hef verið að skoða þetta. Svíþjóð kemur líka sterkt inn hjá mér, þó svo að það sé eitthvað í fari Stormsins sem ég kann ekki við. Kannski voru það silfurlituðu buxurnar. En hún var amk í buxum, meira en 98% af kvenkynskeppendum voru með ber læri... ætli það fáist auka stig fyrir slíkt? Held samt ekki, þá hefðum við komist áfram.

Undankeppnin - hneyksli eins og vanalega. Spáði 10 löndum að komast áfram, hafði rétt fyrir mér varðandi 4. Segir voða lítið um spáhæfileika mína, þetta er alltof mikið Austantjaldspartý fyrir sum lönd. Mæli með að þið kíkið HINGAÐ og gleymið ykkur í skemmtuninni. Frábær spurningakeppni úr Evróvisjón efni... fékk 20 rétt af 20..  ;) En ekki hvað??

Svo er það bara Nasa í kvöld.. Páll Óskar býður til teitis og það klikkar aldrei. Ég á von á því að bestu lög keppninnar muni heyrast í alla nótt.. þar á meðal Sandra Kim og auðvitað folinn minn hann Sakis.. Shake it baby! Grrrrr.....

Sakis.. draumaprinsinn?
Sama hvernig fer, þá fæ ég að horfa á þennan mann í allt kvöld.. slefslef...
Góða skemmtun elskurnar!

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband