Viðurkennum alla Íslendinga, takk!

Um daginn sat ég málþingi uppí Háskóla Íslands þar sem umræðuefnið var menning heyrnarlausra. Slíkt málþing hefur aldrei áður verið haldið hér á landi og var því um stórviðburð að ræða. Enga fjölmiðla sá ég á svæðinu og finnst mér það til skammar hversu lítinn áhuga fjölmiðlar (og aðrir) sýna menningu heyrnarlausra og heyrnarlausum almennt. Mér finnst heyrandi fólk almennt fávíst um landa sína sem ekki heyra. Margir telja að enga menningu sé að finna í samfélagi heyrnarlausra og það hljóti bara að vera leiðinlegt að heyra ekki. En raunin er önnur. Meðal heyrnarlausra blómstrar menning líkt og í öðrum samfélgöum og flestir heyrnarlausir sem ég þekki vilja ekki fá heyrn, enda þekkja þeir mun betur inná sitt eigið samfélag heldur en samfélag heyrandi.

Það hlýtur þó að vera erfitt að búa í litlu samfélagi, eins og Íslandi, þar sem tungumál manns er ekki viðurkennt. Ef við viðurkennum ekki tungumálið, getum við þá viðurkennt einstaklinginn sem talar það tungumál? Á meðan sænska þjóðin heldur uppá 25 ára afmæli sænska táknmálsins sem móðurmáls í Svíþjóð hefur íslenska þjóðin ekki enn viðurkennt íslenska táknmálið sem móðurmál hérlendis. Heyrnarlausir einstaklingar eru stoltir af uppruna sínum og móðurmáli, táknmálinu, líkt og við heyrandi og íslenskutalandi erum stolt af okkar uppruna og íslenskunni okkar. Þar sem aðeins lítill hluti Íslendinga talar táknmál geta samskipti milli þessara tveggja hópa oft verið erfið og því kannski auðveldast að sleppa þeim bara.

Heyrnarlausir hafa í aldanna rás búið við kúgun hins heyrandi heims og tel ég lítið lát vera þar á. Vissulega hefur eitthvað breyst til batnaðar en alls ekki nóg. Í könnun sem unnin var fyrir Félagsmálaráðuneytið árið 2004 kom fram að heyrnarlausir búa enn í dag við félagslega einangrun – líka hérna á Íslandi. Samskipti heyrnarlausa við heyrandi eru skammarlega lítil og hverju er um að kenna? Eins og áður sagði eru fáir Íslendingar sem tala táknmál og því lítið um samskipti utan samfélags heyrnarlausra. Ég tel að í öllum grunnskólum landsins ætti að vera boðið uppá táknmál sem valnámskeið, ef ekki bara skyldunámskeið. Með því gætu allir borgarar þessa lands fengið grunn í íslensku táknmáli og lært á tjá sig við landa sína sem ekki tala íslensku. Táknmál er kennt í örfáum framhaldsskólum og er sú kennsla sem þar fer fram er skref í rétta átt. En betur má ef duga skal.

Frumvarp til laga um táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra hefur enn ekki fengið þá umræðu sem það á skilið á Alþingi þrátt fyrir að hafa fyrst verið lagt fram Alþingisárið 2003-2004. Lítið sem ekkert hefur komið útúr þeim nefndum sem áttu að skoða málefni heyrnarlausra. Heyrnarlausir fá einungis átta mínútna fréttatíma dag hvern. Hversu lengi á þetta að ganga svona? Mér finnst mál til komið að við tökum okkur saman í andlitinu og gera eitthvað í málunum. Ég skora á heyrandi Íslendinga að líta í eigin barm og ímynda sér þann veruleika sem blasti við ef tungumál ykkar væri ekki viðurkennt af meirihluta þjóðarinnar. Viðurkennum alla Íslendinga!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð! Ég er svo sammála þér!

Ég hef einmitt oft verið að blóta því hversu fáránlegt það er að það er settur texti á fréttir sem tengjast málefnum heyrnarskertra! Hmmm eiga þeir sem sagt að bíða við skjáinn og sjá hvort það kemur frétt sem kemur þeim við? Auðvitað á bara að setja texta við allar fréttir eða að hafa glugga til hliðar þar sem fréttin er sögð á táknmáli. Með textanum reyndar þá nýtist þetta líka fyrir þá nýju Íslendinga sem eru að læra málið ennþá og hafa kannski búið hér skemur en við hin. Fólk á ekki að þurfa að fletta upp í textavarpi eða horfa á sér fréttatíma, það á bara að gera ráð fyrir þeim eins og öðrum í venjulegum fréttatímum.

Mjöll Jónsdóttir (IP-tala skráð) 28.4.2006 kl. 12:04

2 identicon

Nákvæmlega... þessir textar eru yfirleitt til því fréttamenn lesa þá af skjám svo þetta ætti ekki að vera mikið mál.. Fussumsvei, þrýstum á þetta!

Fanney Dóra (IP-tala skráð) 28.4.2006 kl. 12:14

3 identicon

Það er alltof ríkt í okkar samfélagi að vilja "laga" það sem að er. Heyrnartæki eru bara hjálpartæki og eiga að vera val þess sem heyrnarlaus er, ekki kvöð frá heyrandi samfélagi. Margir heyrnarlausir vita ekkert hve mikla heyrnarskerðingu þeir hafa, það skiptir einfaldlega ekki máli.
En skv. mínum heimildum þá er það mismunandi hvað heyrnartæki kosta.. geta kostað allt frá nokkrum tugum þúsunda hvert stk. uppí nokkur hundruð þúsund kr. Þetta eru því verulegir fjármunir og TR greiðir ekki allan kostnað - eftir því sem ég best veit.

Fanney Dóra (IP-tala skráð) 28.4.2006 kl. 15:39

4 identicon

ég er svo innilega sammála þér Fanney mín. Ég vil að táknmál verði skylda í grunnskólum landsins, persónulega finnst mér mikilvægara að geta tjáð mig við íslendinga (hvort sem þeir eru talandi íslensku eða ísl.táknmál) heldur en t.d Dani. Það er ekki eins & við séum alltaf að umgangast Dani, það er mun mikilvægara að geta tjáð sig þá við okkar fólk -Íslendinga!!!! kv.Fjóla Rós

Fjóla Rós (IP-tala skráð) 1.5.2006 kl. 00:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband