Bónus-ruglumsull

Ég er komin með sambýlismann sem er feitari en ég og jafnvel bleikari. Sá er ekki samkynhneigður né Íri, heldur er folinn hingað nýkominn frá Danmörku og mun ganga undir nafninu Feiti Strákur. Hann unir sér vel í íbúðinni sinni, en einsamall kom hann eigi heldur fylgdi barnið hans með sem ég hef ákveðið að kalla því fagra nafni Pulla. Góðmennt í Kópavoginum get ég sagt ykkur.

 

bonus-bydur-betur

 

Ég, bláfátæki stúdentinn, ákvað í dag að nýta mér afsláttinn í Bónus Smáratorgi. 30% afsláttur af ÖLLUM vörum vegna breytinga. Var nú ansi hófsöm í þessum innkaupum og bara með litla handkörfu. Slatti epli, slatti lífræn AB-mjólk, kjúklingabaunir, bankabygg og bananar. Rúmlega helmingur vörunúmera var uppurinn í búðinni, fólkið með glampa í augum og munaðarlausar innkaupakörfur um alla verslun með miðum sem á stóð: ég var yfirgefin, vinsamlegast verslaðu úr mér! Kom mér vel fyrir í röð sem leit ágætlega út í fyrstu en svo sá ég heilu vagnana troðna fyrir framan mig. Eldri, mjög eldri kona fyrir framan mig vildi endilega að ég geymdi handkörfuna mína í stóru körfunni sinni, enda var hún með ca 15 hluti í henni. Eftir ca 10 mínútur í bið þar sem röðin haggaðist EKKERT fórum við að spjalla. Íslendingar spjalla ekki við náungann í búðinni, það er bara svoleiðis. En þetta voru náttúrulega spes aðstæður þar sem við vorum í rauninni föst í þessari röð í laaaaangan tíma í viðbót. Gerðum grín að þessu og höfðum gaman. Gamall maður var fyrir aftan okkur með 3 ljósaperur. Ég endaði á því, þegar konan með 4 vagnana hafði borgað 69.864 fyrir sitt dót (sem var m.a. 26 pakkar af kexi, heill kassi af tannkremi, kassi af kakómalti, 3 kippur Kók light....) fór ég fremst og spurði hvort ég mætti troða 3 ljósaperum fram fyrir. Konan sem ég spurði (sem by the way var með fuhuhuhuuullan vagn) var nú ekki á því en ég þrábað hana og hún féll fyrir mér, auðvitað. Maðurinn endaði á því að þakka mér fyrir samveruna, enda höfðum við deild um klukkustund saman í röðinni. Nú ég og ömmubarn konunnar fyrir framan mig sáum á tímabili um það að rétta fólki gosflöskur, enda komst það ekki að fyrir vögnunum. Við buðum líka ýmsan varning með gosinu, s.s. barnamat í dós, ABT-mjólk, svört dömubindi, kubbakerti, hamra og hvaðeina sem skilið var eftir í hillunum. Á meðan á biðinni stóð gengu slúðurblöð um röðina til þess að stytta okkur stundir og boðið var uppá vínber og piparkökur. Helvíti hressandi alveg. Nú eftir klukkutíma og fjörutíu mínútur var loks komið að mér. Ég hrósaði unga drengnum á kassanum svo hrikalega að hann varð eins og Feiti Strákur á litinn og sagðist eflaust dreyma pííp-hljóð og gula bónuspoka í alla nótt. Blessunin. En þetta var ferð til fjár, fullur poki af góðgæti á 1200 kjedl. Ekki neitt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Garrrrgandi snilld..... fór einmitt í Bónus í Holtagarði fyrir nokkrum mánuðum síðan, kasólétt og fín, beið álíka lengi og fyrir skít og ekkert..... einmitt spes menning sem myndaðist þarna ..........

sjáumst annars á morgun sæta mín og til hamingu bleika fat boy ;-)

Erla (IP-tala skráð) 18.10.2006 kl. 23:02

2 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Flott saga um Bónusferð...

Gunnar Helgi Eysteinsson, 19.10.2006 kl. 08:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband