17.4.2007 | 15:09
Hvað með okkur?
Það væri nú gaman að sjá einhverjar tölur yfir okkur Frónbúa. Ég efast um að við séum að lenda í rifrildum í röðum. Ég held það gildi sama viðhorf í röðum og hvað lyftuferðir varðar = ekki segja múkk við aðra og horfðu á gólfið eða hlutlausan punkt á veggnum. Í alvöru, hvað er það? Erum við svona hrikalega lokuð þjóð að við getum ekki einu sinni rabbað við náungann í röðinni?
Reyndar lenti ég einu sinni í skemmtilegustu röð EVER. Það var þegar Bónus í Smáranum reyndi að selja allt í búðinni á massa afslætti. Ég ákvað, þar sem ég bjó í nágrenninu, að skella mér þangað í leiðinni á starfsmannafund. Flaug eins og stormsveipur um búðina og týndi ofan í handkörfuna nauðsynjarnar og ætlaði svo í röð. Vitiði, það var svo mikið af fólki að raðirnar tepptu alla gangana sem liggja frá kössunum. Ég hef eflaust verið eitthvað leitandi á svip því eldri kona sem stóð hjá mér byrjaði að ræða við mig hvar væri hentugast að fara í röðina. Sameiginlega fundum við röð sem var fýsileg og hún bauð mér að geyma körfuna mína í stóru körfunni hennar. Kona þessi var að versla með barnabarni sinu sem var stúlkukind á aldur við mig. Röðin var svo löng, ég fæ bara pirringskast að hugsa um það, en ég er hrikaleg í biðröðum - alveg hrikaleg. Eftir skamma stund fóru svo hlutirnir að gerast. Séð og heyrt blað kom "gangandi" eftir röðinni, Vikan, Mannlíf og Nýtt líf - svona til að stytta biðina. Las ég úr þeim brandara og sagði slúður við mikinn fögnuð viðstaddra. Nú svo gekk vínberjaklasi eftir röðinni og ýmiskonar sælgæti. Ég og barnabarn konunnar vorum farnar að ræða um aðra konu sem var töluvert fyrir framan okkur í röðinni en hún var með 3 fullar innkaupavagna af vörum! Þá erum við að tala um alveg 2 kassa af rjóma, 1 kassa af tannkremstúpum og þar fram eftir götunum. Ekki nóg með það heldur var hún í slagtogi með annarri konu sem var "bara" með 2 innkaupavagna af vörum. Þegar þær komu að kössunum skiptumst við á að labba að kassadrengnum og kíkja á hvað vörunar kostuðu. Það tók alveg heillangan tíma að renna þessu öllu í gegn. Það er ég viss um að drenginn á kassanum hefur dreymt pííp hljóð alla nóttina. Ég man nú ekki nákvæmlega hvað þetta kostaði hjá þessari elsku, en í síðustu ferðinni sem ég fór að gá var upphæðin komin í rúm 45 þúsund.
Eins og ég sagði áðan þá tepptu raðirnar gangana og okkar röð var fyrir goshillunum. Við barnabarnið fórum því að rétta fólki vörur og fíluðum okkur eins og í búð. Buðum Ginger ale í kaupbæti með 2 l kóladrykk, rassaþurrkur (sem einhver hafði skilið eftir í goshillunni) með kippu af sódavatni og sokkabuxur með tónik-vatni. Sumir, sem við afgreiddum, tóku þessu bara ekki. Settu upp skeifu og svipinn: bíddu, veistu ekki að það á ekki að tala við aðra í búðinni? Aðrir tóku þessu athæfi okkar príma vel og spiluðu með - tóku til við að bjóða í gosið með vörum úr sínum innkaupavagni. Algjör snilld.
Ég tók svo eftir því að einn öldungur var fyrir aftan gömlu konuna, ömmuna í sögunni, með eina ljósaperu - ekkert annað. Ég bauð honum því að koma framfyrir okkur, sem hann þáði eftir að við barnabarnið höfðum útlistað að það væri ekkert mál. Við tókum okkur svo til og fórum til annarrar kvennanna með fjallið af vörum og spurðum hvort öldungurinn mætti koma framfyrir þær, hann væri bara með eina peru. Vitiði, ef ég bara hefði haft myndavél til að taka mynd af svipnum á þeim. Hann var priceless! Ég hefði allt eins geta spurt þær hvort þær væru til í að kúka á höfuðið á mér. En við barnabarnið brostum og jújú, "það ætti að vera í lagi - ef hann er þá bara með þessa einu peru". Öldungurinn okkar varð ekkert smá þakklátur fyrir þetta og sagði að konan sín yrði ánægð því hún biði úti í bíl, enda slæm í mjöðminni eftir brot nokkrum vikum áður. Krúttukallinn. Svo þegar hann var búinn að borga þá veifaði hann okkur og þakkaði kærlega fyrir daginn, enda hafði röðin tekið rúmlega klukkutíma af deginum okkar. Þegar ég var svo loksins komin að kassanum gat ég ekki setið á mér og sagði pirringslega við drenginn: "æji, geturðu ekki drifið þig maður? ég er búin að vera í röð í meira en klukkutíma!" Hann, greyið kúturinn, leit á mig svona puppy-augum og þá hló ég. Sagði bara eins og Borat: NOT!!! þú ert að standa þig eins og hetja, takk fyrir að afgreiða mig. Sem betur fer hló hann, annað hefði verið dálítið mis. Þegar ég var svo búin var það bara veif til ömmu og barnabarnsins og við vorum staðráðnar í því að hittast aftur í svipaðri röð næst þegar það yrði svona útsala. Hvað starfsmannafundinn varðar þá kom ég alltof seint, en ég hafði þó góða afsökun sem var eins og skemmtiatriði :)
Svona á þetta að vera. Kannski svolítið ýkt, en tíminn sem við vorum í röð var líka ýktur. Ég er ekkert að segja að maður þurfi að fá lestrarefni og meððí þegar maður bíður í röð. En er ekki allt í lagi að ræða við náungann? Nú, ef náunginn er svo eitthvað álitlegur þá má kannski bara daðra við hann. Allavegana ekki stara útí loftið eða á gólfið og vona að enginn yrði á þig - það er svo ekki kúl.
Deilt og daðrað í biðröðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Matur og drykkur, Menning og listir, Stjórnmál og samfélag, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:11 | Facebook
Athugasemdir
æ, já ég tek þa undir með þér, ég hata biðraðir, en þetta var skemmtileg saga, takk fyrir!
Bragi Einarsson, 17.4.2007 kl. 15:53
Stórskemmtileg saga. Svo kemst ma'r ekki hjá því að taka eftir allri bloggvina"bið"röðinni þar sem sögunni sleppir. Kannski ætti ma'r að finna ásjálega stelpu þar og byrja að daðra?
Svartinaggur, 17.4.2007 kl. 22:53
Stórskemmtileg saga. Svo kemst ma'r ekki hjá því að taka eftir allri bloggvina"bið"röðinni þar sem sögunni sleppir. Kannski ætti ma'r að finna ásjálega stelpu þar og byrja að daðra?
Svartinaggur, 17.4.2007 kl. 23:02
hahaha... jaaa það er spöörning Svartinaggur. Biðröð er nú alltaf biðröð
Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, 17.4.2007 kl. 23:26
Frábær saga, sammála að tala saman í röð. Afhverju kaupir þú peru skyr en ekki jarðarberja? Nohh mín á túr!! osfrv
Tómas Þóroddsson, 18.4.2007 kl. 01:02
Nákvæmlega... ,,í hvað notar þú engiferrót?" eða ,,ætlarðu að nota pulsurnar með núðlunum?" já og ,,mér hefur alltaf fundist Nivea sjampóið betra en Vital Sasoon"...
Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, 18.4.2007 kl. 01:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.