Framheilabilun og siðferðiskennd

Í dag var ég á ansi áhugaverðum fyrirlestri sem sendur var út frá LSH. Um fyrirlesturinn sá María K. Jónsdóttir, yfirsálfræðingur á Landakoti, og var umfjöllunarefnið framheilaskaði. Síðan ég hóf starfsþjálfunina hérna á FSA hef ég lært alveg ótrúlega margt. Eitt af því er það að heilaskaðar eru ansi merkilegt fyrirbæri.

Phineas_Gage_CGIÉg man eftir því að hafa lært um Phineas Gage í sálfræði hér um árið. Gage þessi vann við járnbrautasmíði og varð fyrir því einn daginn að járnteinn (1 metri, 3.2 cm í þvermál og rúm 6 kg að þyngd) skaust uppí gegnum kinnina á honum og út um höfuðið (sjá mynd) af svo miklum krafti að teinninn lenti tæpa 30 metra frá Gage. Hann lést ekki og hlaut skaða í framheila þar sem teinninn hafði farið í gegn. Þeir sem þekktu Gage töluðum um að hann hefði breyst eftir meiðslin. Orðið að allt öðrum manni, með allt önnur persónueinkenni. 

Slíkt gerist oft þegar fólk fær framheilaskaða. Persónuleikaraskanir eru algengar og almenningur gerir sér ekki grein fyrir því að þetta sé afleiðing heilaskaðans. ,,Framheilinn gegnir mikilvægum hlutverkum í starfsemi heilans. Þar er meðal annars staðsett framkvæmdarstjórn heilans, skipulag, sjálfsstjórn, rökhugsun og vinnsluminni. Framheilinn er tengdur tilfinningalífi, frumkvæði og félagslegri aðlögunarhæfni." Þannig verður einstaklingur með framheilaskaða öðruvísi en fyrir skaðann. Hömlur hverfa og hann stjórnast af umhverfinu og aðstæðunum sem hann er í. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig áhrif þetta hefur á alla sem að einstaklingnum koma.

María kom inná tengsl milli framheilaskaða og siðferðiskenndar. Hún sagði að sjúklingar sem hefðu hlotið framheilaskaða hegðuðu sér líkt og þeir einstaklingar sem eru siðblindir. Þannig gætu þeir leyst siðferðisleg mál með flottri rökhugsun munnlega, en svo var hegðunin hjá þeim allt öðruvísi og í anda siðblindra. Það að sjá t.d. einhvern veikan, deyja eða meiða sig vakti ekki upp tilfinningar hjá þeim. Hún sýndi mynd af siðferðisklemmu, en því miður fann ég ekki myndina á netinu svo ég lýsi henni bara. Þú stendur uppi á göngubrú yfir jánrbrautateina og við hlið þér er afar stór og mikill maður. Þú sérð að lestin fer að keyra undir brúna en hún stefnir á 5 manna fjölskyldu. Eina leiðin til að bjarga fjölskyldunni er að kasta manninum fyrir lestina svo hann deyji og stöðvi þannig lestina og fjölskyldan bjargast. Siðblindir köstuðu manninum framaf án þess að hugsa um það. Það var það rökrétta í stöðunni. Framheilaskaðaðir köstuðu í nær öllum tilvikum manninum framaf en hugsuðu málið örlítið. Stýrihópur kastaði manninum ekki framaf nema í örfáum tilvikum eftir þá mjög mikla umhugsun. Þetta fannst mér athyglisvert. Einnig sýndi hún okkur mynd af heilanum þar sem búið var að kortlegga þau svæði heilans sem hefðu áhrif á siðferðiskenndina. Merkilegt?

Klárlega er ég ekki með menntun og/eða reynslu til að fjalla um þetta málefni af einhverri dýpt en mér fannst þetta afar spennandi fyrirlestur og ég lærði alveg heilmikið af honum. Ég las líka aðsendar greinar úr Mogganum síðan 1996 og 1999 þar sem var verið að fjalla um skilningsleysi almennings á heilasköðuðum einstaklingum. Félagssálfræðilegar afleiðingar heilaskaða eru oftast taldar með verstu afleiðingunum, bæði af aðstandendum sem og sjúklingunum sjálfum. Í kjölfar persónuleikaröskunar missi sjúklingur vini sína og jafnvel vinnuna og alla sem þar eru, hlutverkaruglingur verður á heimilinu og börn sjúklings verða stundum hrædd við foreldri sitt, sjúklingur getur lent í skilnaði og svo mætti endalaust tína til afleiðingar.

En allavegana, langaði bara að deila þessu með ykkur - með þeim fyrirvara að ég er einungis leikmaður í þessum efnum, ekki fræðimaður Smile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta var engu að síður mjög fróðlegt! takk fyrir það

kveðja Guðný

Guðný (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 09:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband