Færsluflokkur: Dægurmál
12.7.2007 | 01:12
Harry Potter
Í kvöld var Harry Potter og Fönixreglan frumsýnd í bíóhúsum. Jei! Algjört möstsí. Rakst á þetta líka sniðuga jútjúb myndband áðan og varð gjörsamlega ær af hlátri. Hljóðið verður klárlega að vera á þar sem þetta er söngur - keðjusöngur :) Enjoy, muggets!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.7.2007 | 10:11
Hrafnagilslaug
Við Signý skelltum okkur í tönun í Hrafnagilslaug í gærdag - eftir að ég fann sundbolinn minn. Þvílík snilld þessi laug. Hef farið nokkrum sinnum í hana í sumar og það er alltaf jafn indælt. Legupottar eru yfirleitt vinsælasti staðurinn í sundlaugum enda fátt betra í sundi en að svamla í vatni og sóla sig. Legupotturinn í Hrafnagilslaug er frábær! Hann er ekki svona grunnur eins og margir þessir ,,diskar" sem eru svo vinsælir í nýju laugunum heldur getur maður bæði setið án þess að drukkna og legið án þess að krókna :) Svo er líka rennibraut með mörgum hringjum - á ennþá eftir að prufukeyra hana. Útsýnið er held ég eitt það fallegasta sem ég hef séð í sundlaug. Þegar legið er í legupottinum horfir maður á fjallgarða Eyjafjarðar, bændur að heyja og ef það er gola má finna bæði lykt af nýslegnu grasi (sem ég elska) og súrheyi (sem ég elska ekki). Ég skora á lesendur mína (sem greinilega eru eins margbreytilegir og fiskarnir í sjónum) að skutlast í Hrafnagilslaug næst þegar leið liggur hingað norður í sæluna.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.6.2007 | 12:06
Evrópuhlaup fatlaðra
Í dag, á Ráðhústorgi kl. 17.00, munum við taka á móti Evrópuhlaupi fatlaðra. Um ræðir, tæplega 80 þroskahefta einstaklinga sem eru að hlaupa um Ísland, Danmörku, Noreg, Færeyjar og Svíþjóð.
Viljum við hvetja alla til þess að koma á Ráðhústorgið í dag og fagna þeim.
Þau munu hlaupa frá Umferðarmiðstöðinni, göngugötuna, að Ráðhústorgi og með þeim í för verða félagar úr Íþróttafélaginu Eik.
Ferðalag Evrópuhlaupsins um Ísland er svohljóðandi:
5. júní Seyðisfjörður Húsavík
6. júní Húsavík - Akureyri
7. júní Akureyri Reykjavík
8. júní Reykjavík Selfoss
9. júní Selfoss Gullfoss Geysir - Selfoss.
10. júní Selfoss Vík
11. júní Vík Höfn
12. júní Höfn Egilstaðir
13. júní Egilstaðir Seyðisfjörður
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2007 | 23:35
Skútan og draumfarir
Mér finnst gaman á sjómannadaginn. Skemmtiatriðin og keppnisgreinarnar finnast mér frábærar og hef ég m.a.s. keppt einu sinni í kappróðri og hlotið bikar fyrir. Það var ofurliðið Bomburnar sem fagnaði vel og lengi og bikarinn var hafður til sýnis í bankanum, enda Bankabomburnar þaðan. Svo er það órjúfanlegur þáttur af sjómannadeginum að skunda á haf út (eða amk út úr höfninni) og njóta þess að vera til.
Engin hátíðarhöld voru á Akureyri í ár, þar sem útgerðarfélögin sáu sér ekki fært um að styrkja sjómannadagsráð að þessu sinni. Frekar fúlt en hey, se la vie. Hollvinafélag Húna ákvað þó að fara með mannskapinn út á haf kl. 16:00 og svo sannarlega ætlaði Túttan að nýta sér það. Eftir draumfarasvefn mikinn hitti ég Valdísi og við stunduðum folaskoðun þar til klukkan var að verða fjögur. Haldiði ekki að hann Húni hafi bara farið OF SNEMMA af stað og skilið okkur Valdísi og Emblu bara eftir á hafnarbakkanum eins og ástsælar meyjar? Jújú... ég ætla ekki einu sinni að reyna að lýsa vonleysinu sem helltist yfir mig akkúrat þarna. En hvað gera meyjar þá? Valdís kallar á skútukalla sem eru að græja skútuna sína (sem heitir Gógó) og þeir taka glaðir við okkur sem og hjónum sem komu á sama tíma og við. Í ár fór ég sem sagt ekki á venjulegan bát eins og alltaf heldur fór ég á skútu út á sjó! Fáránlega gaman, ekki laust við að maður sé með smá strengi í lærunum eftir að hafa spyrnt allsvakalega í þegar skútan vaggaði í beygjunum. Svo þurfti maður nú að passa sig á bómunni :)
Varðandi draumfarirnar, þá hefur samstarfskona ein ráðið í drauminn. Mér líst nú bara ágætlega á þá útskýringu en ætla að leyfa ykkur að spreyta ykkur. Fyrir hvað stendur þessi draumur: Ég fæddi fjórbura og sagði að því loknu: ja, þetta var nú ekkert eins mikið mál og ég hélt. Svo kom í ljós að ég var með tvö leg (of mikið af Greys Anatomy???) og var gengin 8 mánuði með annað barn - sem sagt það fimmta. Á meðan ég burðaðist með það í bumbunni þurfti ég að vera gefa hinum fjórum að drekka, en var með konu í vinnu til að passa börnin því ég mátti ekkert vera að því. Einn köttur var svo afar mikið að ráfa í kringum eitt barnið. Hver faðirinn (nú eða feðurnir) af þessum öllum ósköpum var veit ég ekki. En einhverjum peyja mætti ég í búðinni sem horfði á mig kasólétta og fór að gapa. Þá sagði pabbi hans (sem var þarna með honum): ertu búin að vera lengi svona?
Já, þar hafiði það. Ekki er öll vitleysan eins á mínum bæ. Tælenski drengurinn er ennþá svona eldamennskuglaður, einn morguninn þegar ég stökk út á leið í vinnu (n.b. fyrir kl. 8) var hann að hella vatni af núðlum sem hann var að sjóða. Mér finnst nú gaman að elda, en ég nenni ómögulega að elda mér núðlur í morgunmat! Hvað þá þrisvar á dag!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.5.2007 | 16:23
Þegar ég lenti í löggunni...
Gærdagurinn minn var allur á hvolfi. Merkilegt hvað allt raðast saman á einn dag. Kannski bara eins gott, því ég var alls ekki í besta skapinu. Hörmungarnar enduðu svo á því að ég læsti bíllyklana mína inní bílnum. Frábært og æðisgengið.
Metta frænka mín var svo ljúf að bjóða mér með sér í Brynju, það klikkar seint. Eftir ljúffengan ís, sem var kvöldmaturinn, fékk ég svo sms frá Valdísi minni þar sem hún bauð mér í sund í Þelamörk. En spennandi, góð leið til þess að gleyma lyklunum og bílaveseninu. Sundferðin var frábær, merkilegt hvað við Valdís höfum lágan skemmtanaþröskuld. Við hlægjum að ótrúlegustu hlutum, við misgóðar undirtektir samsundmanna okkar. Þegar heim var komið var búið að ákveða að Valdís myndi bjalla á Hr. Löggimann og daðra hann til þess að opna bílinn. Löggan er nefnilega hætt að opna bíla og eitthvað okurfyrirtæki sér um það núna. Löggimann var til í þetta og renndu tveir bráðhuggulegir karlmenn á besta aldri í hlað nokkrum andartökum síðar. Sögðu þeir að við hlytum að þekkja einhvern á löggustöðinni fyrst þeir hefðu fallist á að gera þetta. Valdís sagðist bara vera svo tælandi í símann. Þeir roðnuðu.
Við pískur og fliss byrjuðu löggimannafolarnir að munda vopnin á bílinn minn, sem ennþá var troðinn af dóti eftir flutningana. Ég blaðraði í móðursýkiskasti um það hversu erfitt væri að opna bílinn og í eitt skiptið þegar það var reynt þá.. og einu sinni þá.. og svo... Heyrðist þá frá öðrum: þú ert greinilega ekkert að gera þetta í fyrsta skipti, er það? Ég svaraði því til að þetta hefði nú alveg komið fyrir (sagði samt ekki að ég væri með nr. á þjónustunni í Reykjavík í minninu á símanum mínum). Þá sagði annar: og hvar eru lyklarnir? Ég: nú í svissinum! Hann: jájá, ókei, það eru náttúrulega svo margir hlutir sem maður þarf að muna eftir þegar maður fer úr bílnum. Hinn löggimann: en líka margir hlutir sem urðu eftir í bílnum! Klárlega hélt ég þarna ræðu um að ég hefði verið að flytja og bla bla bla... Allan tímann hló Valdís.
Þess ber að geta að ,,slimm-járnið" virkaði ekki á Kermit svo þeir sögðust þurfa að ná í vír, ,,ja hann Palli er nú alltaf með sinn bara á sér" (af hverju þessi Palli er með vír á sér veit ég ekki) svo off they went. Við Valdís hlógum ennþá meira, keyptum okkur djús og biðum eftir löggimannafolunum. Loks komu þeir með tvennskonar vír. Ástæðan fyrir því hversu lengi þeir voru að ná í vír var sú að Palli var týndur og enginn vír fannst uppá stöð. Haldiði að annar löggimanninn hafi ekki bara skellt sér heim til sín og leitað logandi ljósi af ídráttarvír. Þegar hann var svo á leiðinni út með ídráttarvír kom konan hans hlaupandi með föndurvír! Jasko, svona virkar þetta í sveitinni - helping hand.
Það er skemmst frá því að segja að hvorugur vírinn virkaði eftir MIKLA viðreynslu. Annar löggimanninn tók þá bara loftnetið af bílnum hennar Valdísar og boraði því inní bílinn minn og tók þannig úr lás. Seisei. Þess má geta að Valdís var ennþá hlægjandi á þessum tímapunkti. Annar röflaði nú eitthvað um að hann hefði aldrei lent í svona löguðu áður, vera tvo tíma að opna bíl. Ég sagðist nú eiga það inni hjá honum, enda busaði náunginn mig hér í denn - og konan hans (engir föndurvírar voru þó notaðir við busunina).
Ég var búin að þakka þeim innilega fyrir og var að kveðja þegar þeir fatta allt í einu að taka persónuupplýsingar um mig og bera saman við bílnúmerið - bara svona svo þeir séu alveg vissir um að ég ætti bílinn! Reyndar sögðu þeir að þetta færi bæði í dagbók lögreglunnar sem og í einhverja sérstaka fyndin-atvik-bók.
Þetta ferli tók samanlagt tvo klukkutíma. Ég er sem sagt ábyrg fyrir því að teppa löggimennina í tvo klukkutíma á miðvikudagskvöldi þegar þeir gætu annars verið að rúnta - hóst - afsakið, sinna umferðareftirliti. Þið sem keyrðuð of hratt á Akureyri í gær milli 22 og 24, vinsamlegast leggið andvirði sektarinnar, sem þið fenguð EKKI, inná reikninginn minn hið snarhasta.
Góðar stundir.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.5.2007 | 14:20
Jacky Fleming
Mér finnst gaman að lesa bloggið hennar Katrínar Önnu. Í dag komst ég þaðan yfir á síðu hjá Jacky Fleming sem teiknar skopmyndir og notar þær í jafnréttisbaráttu. Tékkiði á þessu og njótiði húmors og fegurðar...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2007 | 10:06
Ísland og Noregur
Einu sinni voru tveir menn á kaffihúsi á Íslandi, Normaður og Íslendingur. Íslendingurinn var að borða á kaffihúsinu. Hann var að borða brauð með ávaxtasultu og Normaðurinn var með tyggjó. Þá labbaði Normaðurinn að Íslendinginum og spurði: "Borðar þú skorpurnar á brauðinu"?
Íslendingurinn: "Já auðvitað. Af hverju spyrðu að þessu".
Normaðurinn: "Ekki við í Noregi. Við sendum þær í endurvinnslu og búum til brauð úr þeim og sendum til Íslands".
Eftir dálitla stund kom Normaðurinn aftur og spurði:
"Hvað gerir þú við híðið af ávöxtunum þegar þú borðar ávöxt".
Íslendingurinn: "Auðvitað hendum við því í ruslið".
Normaðurinn: "Ekki við. Við sendum það í endurvinnslu og búum til ávaxtasultu úr því og sendum hana til Íslands".
Nú var Íslendingnum nóg boðið og sagði: "Hvað gerir þú við smokkana þegar þú ert búinn að nota þá"?
Normaðurinn:"Auðvitað hendum við þeim í ruslið".
Íslendingurinn: "Ekki við. Við sendum þá í endurvinnslu og búum til tyggjó úr þeim og sendum til Noregs"
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.5.2007 | 16:44
Pókervörkát
Ég lá í makindum mínum á Feita (bleiki Fatboy), nývöknuð eftir pókerkvöldið, þegar Valdís spyr mig á msn hvað ég sé að gera. Nú, ég var ekkert að gera svo ég sagði henni það. Beið í ofvæni eftir að heyra það sem hún ætlaði að bjóða mér uppá, kannski bílferð, ísbíltúr eða vídjógláp. Eftirvænting jókst með hverri sekúndunni sem ég las: Valdís - heima is best is writing a message.. Og ég beið... Þá kom það. ,,Þú ert að koma í ræktina, sæki þig e. 5". Ég rauk því til og fann til íþróttaleppana mína.
Ótrúlegt 1: að ég hafi farið í ræktina í dag eftir aðeins nokkurra klukkutíma svefn eftir pókerkvöldið mikla.Ótrúlegt 2: að Valdís hafi bara sagt þetta við mig og ég gert það.
Ótrúlegt 3: hvað ég gat æft mikið í ræktinni miðað við aldur og fyrr störf.
Það var ótrúlega skemmtilegt í gærkvöldi. Ég vann auðvitað ekki, en rakaði inn pottinum eitt skiptið. Fékk alveg fullt af tsjipsum. Nú svo lærði ég fullt af nýjum orðum: fólda, tjékka, brenna, rivercard, litli-blindi og stóri-blindi. Afar hressandi. Félagsskapurinn var heldur ekki af verri endanum. Eftir að pókerinn hafði klárast fórum við í "guess-who" leik þar sem allir fengu miða með persónu á ennið og þurftu að finna út hver þeir væru með því að spyrja einungis að já og nei spurningum. Fáránlega gaman í svona partýum þar sem pressan er ekki á að ,,ná að fara í bæinn". Ég var ekkert spes í leiknum. Fórum þrisvar í hann og ég var George Foreman (átti ég að vita að maðurinn var einu sinni boxari?), Sigmund Freud (var endalaust lengi að finna hann) og Þórun Sveinbjarnar (var fljót að ná því). Aðrar hressar persónur sem kíktu við voru jesú, E.T., Shrek, Ágúst Ólafur, Axl Rose, Jenna Jameson, Bjarni Ara og Kristinn H. Gunnars.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2007 | 17:05
Hraunplögg
Hey, ef þið viljið njóta tónlistar í kvöld þá get ég ekki mælt nógsamlega með tónleikum í Þjóðleikhúskjallaranum kl 21:30. Þar verður hljómsveitin Hraun með útgáfutónleika og partý-ball, en í dag kom út fyrsti geisladiskurinn þeirra, I can´t believe it´s not happiness. Get varla beðið eftir að þeir piltar sæki Eyrina heim, en þeir spila á Græna hattinum 13. júlí n.k.
Veriði nú góð við ykkur og skellið ykkur útí búð og verslið gripinn. Nú svo má geta þess að þeir verða í Skífunni Laugarvegi á morgun frá kl. 16:00 ef þið eruð grúbbpíur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)