Færsluflokkur: Tölvur og tækni
31.5.2007 | 16:23
Þegar ég lenti í löggunni...
Gærdagurinn minn var allur á hvolfi. Merkilegt hvað allt raðast saman á einn dag. Kannski bara eins gott, því ég var alls ekki í besta skapinu. Hörmungarnar enduðu svo á því að ég læsti bíllyklana mína inní bílnum. Frábært og æðisgengið.
Metta frænka mín var svo ljúf að bjóða mér með sér í Brynju, það klikkar seint. Eftir ljúffengan ís, sem var kvöldmaturinn, fékk ég svo sms frá Valdísi minni þar sem hún bauð mér í sund í Þelamörk. En spennandi, góð leið til þess að gleyma lyklunum og bílaveseninu. Sundferðin var frábær, merkilegt hvað við Valdís höfum lágan skemmtanaþröskuld. Við hlægjum að ótrúlegustu hlutum, við misgóðar undirtektir samsundmanna okkar. Þegar heim var komið var búið að ákveða að Valdís myndi bjalla á Hr. Löggimann og daðra hann til þess að opna bílinn. Löggan er nefnilega hætt að opna bíla og eitthvað okurfyrirtæki sér um það núna. Löggimann var til í þetta og renndu tveir bráðhuggulegir karlmenn á besta aldri í hlað nokkrum andartökum síðar. Sögðu þeir að við hlytum að þekkja einhvern á löggustöðinni fyrst þeir hefðu fallist á að gera þetta. Valdís sagðist bara vera svo tælandi í símann. Þeir roðnuðu.
Við pískur og fliss byrjuðu löggimannafolarnir að munda vopnin á bílinn minn, sem ennþá var troðinn af dóti eftir flutningana. Ég blaðraði í móðursýkiskasti um það hversu erfitt væri að opna bílinn og í eitt skiptið þegar það var reynt þá.. og einu sinni þá.. og svo... Heyrðist þá frá öðrum: þú ert greinilega ekkert að gera þetta í fyrsta skipti, er það? Ég svaraði því til að þetta hefði nú alveg komið fyrir (sagði samt ekki að ég væri með nr. á þjónustunni í Reykjavík í minninu á símanum mínum). Þá sagði annar: og hvar eru lyklarnir? Ég: nú í svissinum! Hann: jájá, ókei, það eru náttúrulega svo margir hlutir sem maður þarf að muna eftir þegar maður fer úr bílnum. Hinn löggimann: en líka margir hlutir sem urðu eftir í bílnum! Klárlega hélt ég þarna ræðu um að ég hefði verið að flytja og bla bla bla... Allan tímann hló Valdís.
Þess ber að geta að ,,slimm-járnið" virkaði ekki á Kermit svo þeir sögðust þurfa að ná í vír, ,,ja hann Palli er nú alltaf með sinn bara á sér" (af hverju þessi Palli er með vír á sér veit ég ekki) svo off they went. Við Valdís hlógum ennþá meira, keyptum okkur djús og biðum eftir löggimannafolunum. Loks komu þeir með tvennskonar vír. Ástæðan fyrir því hversu lengi þeir voru að ná í vír var sú að Palli var týndur og enginn vír fannst uppá stöð. Haldiði að annar löggimanninn hafi ekki bara skellt sér heim til sín og leitað logandi ljósi af ídráttarvír. Þegar hann var svo á leiðinni út með ídráttarvír kom konan hans hlaupandi með föndurvír! Jasko, svona virkar þetta í sveitinni - helping hand.
Það er skemmst frá því að segja að hvorugur vírinn virkaði eftir MIKLA viðreynslu. Annar löggimanninn tók þá bara loftnetið af bílnum hennar Valdísar og boraði því inní bílinn minn og tók þannig úr lás. Seisei. Þess má geta að Valdís var ennþá hlægjandi á þessum tímapunkti. Annar röflaði nú eitthvað um að hann hefði aldrei lent í svona löguðu áður, vera tvo tíma að opna bíl. Ég sagðist nú eiga það inni hjá honum, enda busaði náunginn mig hér í denn - og konan hans (engir föndurvírar voru þó notaðir við busunina).
Ég var búin að þakka þeim innilega fyrir og var að kveðja þegar þeir fatta allt í einu að taka persónuupplýsingar um mig og bera saman við bílnúmerið - bara svona svo þeir séu alveg vissir um að ég ætti bílinn! Reyndar sögðu þeir að þetta færi bæði í dagbók lögreglunnar sem og í einhverja sérstaka fyndin-atvik-bók.
Þetta ferli tók samanlagt tvo klukkutíma. Ég er sem sagt ábyrg fyrir því að teppa löggimennina í tvo klukkutíma á miðvikudagskvöldi þegar þeir gætu annars verið að rúnta - hóst - afsakið, sinna umferðareftirliti. Þið sem keyrðuð of hratt á Akureyri í gær milli 22 og 24, vinsamlegast leggið andvirði sektarinnar, sem þið fenguð EKKI, inná reikninginn minn hið snarhasta.
Góðar stundir.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.11.2006 | 13:30
Nóvember gegn nauðgunum!
Vinsamlega áframsendu þessa beiðni til vina þinna, félaga og ættingja um að fjölmenna á kröfufund fyrir framan héraðsdómsstólana á Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði, Reykjavík og Selfossi laugardaginn 25.nóvember n.k. kl. 16.00.
Krafan er:
Þyngri dóma fyrir nauðganir. - Nýtið refsirammann!
Refsirammi laganna kveður á um að dómar fyrir nauðgun séu frá einu ári upp í 16 ára fangelsi. Flestir sakfellingardómar fyrir nauðgun eru við lægri mörk refsirammans. Við viljum sjá réttlátari og sanngjarnari dóma.
Áskorun um slíkt verður afhent allsherjarnefnd Alþingis á þriðjudag.
með kærri kveðju,
Kristín Ingvadóttir
Anna Kristine Magnúsdóttir
10.11.2006 | 10:10
Prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík
Nú langar mig að hvetja alla sem vettlingi geta valdið að fara niður í Þróttaraheimlið í Laugardalnum (fyrir neðan Laugardagshöllina) á morgun á tímabilinu 10:00 - 18:00. Þar fer fram prófkjör Samfylkingarinnar og því miður hef ég ekki kosningarétt þar. Utankjörfundur er til kl. 20 í kvöld í hýbýlum Samfó að Hallveigarstíg, fyrir aftan Grænan kost á Skólavörðustígnum. Auðvitað ætla ég ekkert að segja ykkur hvað þig eigið að kjósa, en mæli hinsvegar með að þið setjið Ágúst Ólaf í 4. sætið, enda fáránlega flottur kandídat þar á ferð. Meðal mála sem kappinn beitir sér fyrir er afnám fyrningarfrests í kynferðisbrotamálum, lögfesting Barnasáttmálans, löggjöf um heimilisofbeldi, sérdeild fyrir unga fanga og að rannsaka beri þunglyndi meðal eldri borgara.
Það er okkur nauðsynlegt, hvort sem við munum kjósa Samfylkinguna í vor eður ei, að fá svona mann aftur inná Alþingi. Ég get ekki ítrekað það nægilega mikið! En ég treysti ykkur til þess...
5.11.2006 | 16:27
Photoshop
Hugsiði ykkur tæknina.. Hérna má sjá sömu myndina, af mér og Döggu dúllu. Efri myndin er fyrir breytingar, neðri eftir breytingar í Photoshop. Jasko.. af þessu má dæma að hver sem er getur orðið fyrirsæta, gegn því skilyrði að Photoshop sé fyrir hendi.
3.11.2006 | 20:33
Að ganga gegn nauðgun
er prýðileg skemmtun - og eiginlega nauðsyn!
Jafningafræðslan stendur fyrir Nóvember gegn nauðgunum og annað kvöld (laugardagskvöld) kl. 24:00 verður gengið gegn nauðgunum niður Laugarveginn. Farið verður frá Hlemmi og niður á Ingólfstorg þar sem hinn unaðslegi trúbador Toggi mun spila fyrir mannskapinn. Ef veðrið leikur ekki við okkur endar gangan inní Hinu húsi. Koma svo! Mætum öll!!! Og breiðið út boðskapinn :)
9.8.2006 | 18:53
Kertafleyting - MÆTTU!
verður haldin
við Tjörnina í Reykjavík og
á Akureyri við tjörnina framan við Minjasafnið í Aðalstræti
miðvikudaginn 9. ágúst kl. 22:30
Kerti verða seld á staðnum og kosta 400 kr
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)