Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Bónus-ruglumsull

Ég er komin með sambýlismann sem er feitari en ég og jafnvel bleikari. Sá er ekki samkynhneigður né Íri, heldur er folinn hingað nýkominn frá Danmörku og mun ganga undir nafninu Feiti Strákur. Hann unir sér vel í íbúðinni sinni, en einsamall kom hann eigi heldur fylgdi barnið hans með sem ég hef ákveðið að kalla því fagra nafni Pulla. Góðmennt í Kópavoginum get ég sagt ykkur.

 

bonus-bydur-betur

 

Ég, bláfátæki stúdentinn, ákvað í dag að nýta mér afsláttinn í Bónus Smáratorgi. 30% afsláttur af ÖLLUM vörum vegna breytinga. Var nú ansi hófsöm í þessum innkaupum og bara með litla handkörfu. Slatti epli, slatti lífræn AB-mjólk, kjúklingabaunir, bankabygg og bananar. Rúmlega helmingur vörunúmera var uppurinn í búðinni, fólkið með glampa í augum og munaðarlausar innkaupakörfur um alla verslun með miðum sem á stóð: ég var yfirgefin, vinsamlegast verslaðu úr mér! Kom mér vel fyrir í röð sem leit ágætlega út í fyrstu en svo sá ég heilu vagnana troðna fyrir framan mig. Eldri, mjög eldri kona fyrir framan mig vildi endilega að ég geymdi handkörfuna mína í stóru körfunni sinni, enda var hún með ca 15 hluti í henni. Eftir ca 10 mínútur í bið þar sem röðin haggaðist EKKERT fórum við að spjalla. Íslendingar spjalla ekki við náungann í búðinni, það er bara svoleiðis. En þetta voru náttúrulega spes aðstæður þar sem við vorum í rauninni föst í þessari röð í laaaaangan tíma í viðbót. Gerðum grín að þessu og höfðum gaman. Gamall maður var fyrir aftan okkur með 3 ljósaperur. Ég endaði á því, þegar konan með 4 vagnana hafði borgað 69.864 fyrir sitt dót (sem var m.a. 26 pakkar af kexi, heill kassi af tannkremi, kassi af kakómalti, 3 kippur Kók light....) fór ég fremst og spurði hvort ég mætti troða 3 ljósaperum fram fyrir. Konan sem ég spurði (sem by the way var með fuhuhuhuuullan vagn) var nú ekki á því en ég þrábað hana og hún féll fyrir mér, auðvitað. Maðurinn endaði á því að þakka mér fyrir samveruna, enda höfðum við deild um klukkustund saman í röðinni. Nú ég og ömmubarn konunnar fyrir framan mig sáum á tímabili um það að rétta fólki gosflöskur, enda komst það ekki að fyrir vögnunum. Við buðum líka ýmsan varning með gosinu, s.s. barnamat í dós, ABT-mjólk, svört dömubindi, kubbakerti, hamra og hvaðeina sem skilið var eftir í hillunum. Á meðan á biðinni stóð gengu slúðurblöð um röðina til þess að stytta okkur stundir og boðið var uppá vínber og piparkökur. Helvíti hressandi alveg. Nú eftir klukkutíma og fjörutíu mínútur var loks komið að mér. Ég hrósaði unga drengnum á kassanum svo hrikalega að hann varð eins og Feiti Strákur á litinn og sagðist eflaust dreyma pííp-hljóð og gula bónuspoka í alla nótt. Blessunin. En þetta var ferð til fjár, fullur poki af góðgæti á 1200 kjedl. Ekki neitt. 


Jól í skókassa

Ég fíla þetta framtak... ætla að útbúa skókassa og gefa. Frábær hugmynd.

Annars er það títt að ég er í heimaprófi og ég hef sjaldan haft eins sterka löngun til þess að baka, þrífa eða þvo þvott. Lét mér nægja að útbúa hafragraut í öbbanum áðan. 


mbl.is Fátækum börnum færðar gjafir í skókössum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég mæli með...

medmaeli2.0
Meðmælunum 12. október næstkomandi!
Þá munu stúdentar og aðrir flykkjast á Austurvöll til þess að mæla með aukinni háskólamenntun fyrir þjóðfélagið og þannig sýna fram á mikilvægi þess að reka öflugan þjóðarháskóla sem er opinn fyrir alla þá sem til hans sækja.
Mæting við Aðalbyggingu kl. 15:00 eða á Austurvelli hálftíma síðar.
Vei vei vei vei vei! :) 

Heyr heyr!

Loksins loksins heyrir maður frá framtíðarstéttarfélaginu. Páll Ólafsson er nýr formaður og er sá maður einstaklega vel starfinu vaxinn. Ég hef alltof oft "kvartað" um það á hinum ýmsum samkundum þar sem félagsráðgjafa er að finna, hvað mér finnst vanta okkar álit í fjölmiðlana. Bæði er ég þá að tala um að stéttin sem slík þarf að vera mun iðnari við að skrifa blaðagreinar um málefni líðandi stundar enda erum við þvílíkur brunnur upplýsinga að hálfa væri nóg. Þá er ég einnig að tala um að fjölmiðlar ættu að vera iðnari við það að taka viðtöl við félagsráðgjafa þegar velferðarmál eru í brennidepli. Sársjaldan sér maður viðtöl við félagsráðgjafa og það þykir mér miður. 

Í samræðum mínum um þetta málefni við starfandi félagsráðgjafa fæ ég oft þau svör að enginn tími sé til þess að setjast niður og rita greinar í blöðin eða tjá sig um málin. Í flestum tilfelllum blæs ég á svoleiðis prump-afsakanir. Vissulega gilda þær í einstaka tilvikum, en ég vil meina að þegar fólk veit mikið um efnið, líkt og félagsráðgjafi sem starfar við ákveðin mál, þá tekur það enga stund að koma skoðun sinni á framfæri. Klárlega er þetta líka pólitískt vandamál, enda er það margsannað að félagsráðgjafar hafa alltof, alltof, alltof mörg mál á sinni könnu. Um það gæti ég skrifað heila bók held ég svo ég læt hér við sitja.

Ég vona að þessi ályktun frá Stéttafélagi íslenskra félagsráðgjafa sé einungis upphafið að aukinni þátttöku félagsráðgjafa í samfélagslegum umræðum um íslenskt samfélag. Fjögurra ára háskólamenntun, svo ég tali ekki um alla meistaragráðurnar sem búa í greininni, gefur okkur víðfeðma þekkingu á okkar málaflokkum. Ofan á það kemur svo starfsreynslan og hafsjór upplýsinga sem gætu nýst við að leysa ógrynni vandamála sem við stöndum frammi fyrir.

Palli og co - heyr heyr heyr!!! 


mbl.is Ráðning sviðsstjóra Velferðarsviðs óásættanleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagur heyrnarlausra er á morgun!

Á morgun, föstudaginn 22. september, er Dagur heyrnarlausra. Af þessu tilefni verður efnt til málþings í Salnum, Kópavogi frá kl. 13:00 til 17:00 og ég skora á ykkur að mæta. Þokkalega ætla ég að mæta!

Verð líka að benda ykkur á mjög svo áhugavert opið bréf til Jóns Ásgeirs, þó ekki frá Róbergi Marshall.  

Svo er ég komin með hugmyndir að afmælisgjöf: armband með áletruninni "Táknmál" á íslensku táknmáli. Mæli með því að þið fjárfestið í þessu - fyrir ykkur sjálf! Ótrúlega töff.is!  


9-11

Fékk þetta sent í pósti áðan... athyglisvert? 

1. Í New York City eru 11 bókstafir

2. Í Afghanistan eru 11 bókstafir

3. Í nafni Ramsin Yuseb (Hryðjuverkamaðurinn sem hótaði að eyðileggja Twin Tower árið 1993) eru 11 bókstafir.

4. Nafnið George W Bush er 11 bókstafir

Þetta gæti allt verið hrein tilviljun, en nú verður þetta áhugavert:

1. New York er 11. fylkið

2. Í flugi 11 voru 92 farþegar (9 + 2 = 11)

3. Í flugi númer 77 sem einnig flaug á tvíburaturnana voru 65 farþegar (6 + 5 11)

4.
Árasinn átti sér stað 11. september, sem er einnig þekkt sem 9/11 (9 + 1 + 1 =11)

5. Dagsetningin er eins og neyðarnúmerið í Bandaríkjunum 911 (9 + 1 + 1 = 11)

Ennþá hreinar tilviljanir?? Haltu lestrinum áfram.....

1. Heildarfjöldi fórnarlambanna sem voru í flugvélunum sem notaðar voru í árásunum var 254 (2 + 5 + 4 = 11)

2. 11. september er 254. dagurinn á árinu (2 + 5 + 4 = 11)

3. Hryðjuverkaárásin í Madríd átti sér stað 3.11.2004 (3 + 1 + 1 + 2 + 0 + 0 + 4 = 11)

4. Hryðjuverkaárásin í Madríd átti sér stað 911 dögum eftir árásina á Twin Towers.

... og nú kemur það sem er ennþá merkilegra:

Á eftir fána Bandaríkjanna (Stars and stripes) þá er Örninn þekktasta merki landsins

* Í eftirfarandi versi úr Kóraninum, hinni helgu ritningu Íslam, stendur:

"For it is written that a son of Arabia would awaken a fearsome Eagle.

The wrath of the Eagle would be felt throughout the lands of Allah and

while some of the people trembled in despair still more rejoiced:

For the wrath of the Eagle cleansed the lands of Allah and there was peace."

Þetta er vers númer 9.11 í Kóraninum.

Heldur þú ennþá að um hreinar tilviljanir sé að ræða? Prófaður þá eftirfarandi:

* Farðu í Microsoft Word og gerðu þetta:

1. Skrifaðu með hástöfum: Q33 NY. Flugnúmerið á fyrstu vélinni sem var flogið á tvíburaturnana.

2. Litaðu Q33 NY

3. Breyttu stafastærðinni í 48

4. Breyttu leturgerðinni í WINGDINGS (eða WINGDINGS 1)


Sáttmáli fyrir fatlaða - hugleiðingar

Þann 25. ágúst sl. samþykktu 100 þátttökulönd sáttmála Sameinuðu þjóðanna en hann hefur það hlutverk að vernda og efla réttindi og virðingu einstaklinga með fötlun (Convention on the Protection and Promotion of the Rights and Dignity of Persons with Disabilities). Þessi alþjóðlegi samningur mun auka rétt og frelsi einstaklinga með fötlun allt kringum jörðina á sambærilegan hátt og mannréttindasáttmáli og barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna. Reynt verður að gæta þess að skilgreina orðið "fatlaður" rúmt til að tryggja það að verndin taki til allra þeirra sem þarfnast hennar. Ljóst er að sáttmálinn mun stuðla að breyttum hugsanagangi varðandi málefni fatlaðra. 

Þetta er samantekt af heimasíðu Félagsmálaráðuneytisins en uppkast að samningnum í heild sinni má finna hérna. Vissulega fagna ég þessu, annað er glatað. En þegar ég las yfir listann yfir meginatriði samningsins fór ég aðeins að pæla. Meðal meginatriða má nefna:

  • Skylda ríkja til að breyta lögum og koma í veg fyrir hvers kyns venju eða framkvæmd er orsaka mismunun fatlaðra gagnvart öðrum hópum.
  • Ríki skulu fjarlægja hindranir að aðgengi að umhverfi og samgöngutækjum.
  • Fatlaðir skulu hafa aðgengi að opinberum þjónustustofnunum, upplýsingum og netinu.
  • Fatlað fólk á ekki að þola neins konar ólögmæta frelsissviptingu.
  • Jafn réttur til fræðslu og menntunar.
  • Réttur til vinnu og atvinnu. Fjarlægja skal hindranir á vinnumarkaði og stöðva mismun á vinnumarkaði.
  • Réttur til fullnægjandi lífsgæða og félagslegrar verndar.
  • Réttur til jafnrar þátttöku í samfélaginu, svo sem skoðanaskipta og stjórnmála.
  • Réttur til þátttöku í tómstundum, íþróttum og menningarlífi.

Það eru kannski skiptar skoðanir um það hvort heyrnarlausir tilheyri fötluðum eða ekki, en þar sem talað er um að skilgreiningin eigi að vera rúm gef ég mér að þeir tilheyri þeim hópi. Ég ætla ekki að fara inná þá umræðu hversu hrikalega glatað það er að Íslendingar hafi ekki ennþá viðurkennt íslenska táknmálið sem eitt af móðurmálum landsins. Fáránlegt alveg. Bendi aftur á þann punkt sem ég kom inná í blaðagreininni um daginn: getum við viðurkennt einstaklinginn ef við viðurkennum ekki tungumál hans? 

Árið 1999 fór Félag heyrnarlausra, með Berglindi Stefánsdóttur í fararbroddi, í mál við  Ríkisútvarpið. Ástæðan var afar einföld, túlkun á framboðsræðum í sjónvarpi kvöldið fyrir Alþingiskosningarnar. Þarna var um grunnmannréttindi að ræða. Dóminn má sjá í heild sinni hérna.

Í fyrra var lagt fram frumvarp til laga um textun á íslensku efni í sjónvarpi. Frumvarpið er skv. heimasíðu Alþingis í nefnd og hefur verið þar síðan 13. desember 2005. í frumvarpinu kemur m.a. fram að textað efni í íslensku sjónvarpi er um 1 klukkustund á mánuði!!! Til samanburðar má nefna að í Danmörku eru þetta 189 klukkustundir á mánuði og á Englandi er 80% af öllu efni BBC, ITV og C4 textað (tölur síðan 2003, hugsanlega hærri tölur - vonandi!). Skv. því sem ég hef heyrt er það ekki svo dýrt að texta sjónvarpsefni og því skil ég ekki hvar hnífurinn stendur fastur í kúnni. Tökum fréttatíma sem dæmi. Heyrnarlausir hafa sinn eigin fréttatíma á RÚV sem er 8 mínútur á dag. Þegar eitthvað gerist í samfélagi heyrnarlausra sem fjölmiðlum finnst fréttnæmt þá er fréttin iðulega textuð - sem er frábært. En eiga heyrnarlausir að sitja fyrir framan fréttatímann og bíða eftir að einhver fréttin komi textuð? Sá texti sem fréttamenn lesa hlýtur að vera til textaður, fréttamenn lesa hann jú af skjám. Er mikið mál að setja þennan texta í 888 svo heyrnarlausir geti horft á fréttatímann? Þetta er aðeins örlítið - en mikilvægt - dæmi um það hvernig við, íslenska þjóðin, mismunum samlöndum okkar. 

Ég gæti svo sem skrifað heila ritgerð um pælingar mínar í kringum þetta en ætla að láta þetta duga. Ég ætla ekki að fara í einstök atriði í þessum sáttmála en benda á þessa punkta hér að ofan og hvet ykkur til að hugsa um heyrnarlausa þegar þið lesið yfir þetta. Mig langar líka til þess að benda á það að meðan við bíðum þess enn að íslenska táknmálið verði viðurkennt þá voru Svíar að fagna 25 ára afmæli sænska táknmálsins sem móðurmáli í Svíþjóð. Hversu langt á eftir viljum við vera?

Svona til gamans þá linka ég á færsluna með greininni sem birtist í Lesbók Moggans. 


Opið álver

Álverið í Straumsvík var opið almenningi í dag. Að sjálfsögðu fórum við í vinnunni með fólkið okkar til að berja þeessa reiðinnar ósköp augum. Ég verð nú að játa að ég var nokkuð mikið spennt að fara þangað. Það er einhver mistískur blær yfir svona stöðum sem alla jafna eru lokaðir almenningi. Hvað sem skoðun minni um álver líður þá verður að segjast að þessi dagur var mjög vel heppnaður hjá þeim. Boðið var upp á rútuferðir frá Fjarðarkaupum til þess að minnka umferð. Þegar inná svæðið var komið fengu allir dagskrá og búið var að merkja allt voðalega fínt. Þarna var t.d. vélasýning þar sem risavaxnar "gröfur" (eða svona dótarí sem líkist gröfum, með allskonar dótarí framaná) voru til sýnis. Þá var einnig til sýnis slökkviliðsbíll Álversins sem og tækjabílar. Frábært fannst mér að fara í skoðunarferð um Álverið í rútu. Það voru nokkrir strætóar sem keyrðu fyrifram ákveðna leið í gegnum svæðið og nokkur hús og í hverjum strætó var 1 starfsmaður Álversins sem sagði fólki frá hvað væri gert hvar og hvernig þetta virkaði. Einnig taldi hann upp ýmsar almennar upplýsingar, s.s. að í ár er Álverið 40 ára og þar vinna 480 starfsmenn (minnir mig). Frábært að fá að sjá þetta allt saman, get ekki sagt annað.

Þá var boðið uppá ýmiskonar skemmtun. Friðrik Ómar og Guðrún Gunnars voru þarna að syngja, Gunni og Felix mættu á svæðið, Möguleikhúsið var með sýningu um álver og listamenn sýndu verk í mötuneytinu og víðar. Þá var einnig boðið uppá nýbökuð vínarbrauð, "kaffihúsakaffi" frá Kaffitár og ýmislegt annað. Fjöldinn allur af fólki var þarna, enda veðrið unaðslegt. Á leiðinni út af svæðinu kíktum við svo í Kerskála 3 þar sem álið er búið til (húsið sem er næst þjóðveginum). Auðvitað þurftum við að setja upp hjálm og hlífðargleraugu - og það sem meira er: skilja eftir debetkortin svo segulröndin skemmist ekki. Í það heila: fræðandi og skemmtileg ferð um þetta heljarinnar svæði.

Það er eitthvað við svona staði; álver, vegagerðina, Frímúrarana, Kárahnjúka ofl. sem ég heillast af. Ég hugsaði nú allnokkrum sinnum um það í dag hversu mikið ég væri til í að vinna í álveri eitt sumar og fá að kynnast þessu SJÁLF. Ætli það spili ekki inní hversu geigvænlega forvitin ég er. Ég held að minnsta kosti að ég myndi taka mig vel út í skærum vinnugalla, með appelsínugulan hjálm, stór hlífðargleraugu, hjólandi fram og til baka á þessu stóra svæði.


Gay for a day?

Eins og flestir tóku eftir fór hin árlega gleðiganga Hinsegindaga fram í gær. Eins og alltaf var mikið af stórglæsilegum búningum og greinilegt að mikið hefur verið lagt í þetta. Í fyrra missti ég af þessum frábæra degi þar sem ég var að vinna en ég tók það margfalt út í gær. Ég var nefnilega ekki bara áhorfandi sjáiði til. Ég slóst í för með FSS og klæddist hárrauðum bol sem á stóð: Hommar eru gæðablóð! Einnig var ég að dreifa miðum sem á stóð að sam- og tvíkynhneigðir karlmenn mættu ekki gefa blóð - ,,vilt þú gefa blóð fyrir mig?". Frábært hjá þeim að vekja athygli á þessu. Við vorum með gamlan hvítan volvo station sem var búið að skreyta eins og sjúkrabíl. Frekar flott :D Svo var gengið niður Laugarveginn í stuuuuði. Ég var reyndar í háæluðum stígvélum sem er ekki góð hugmynd. 

Ég var að hugsa það þegar ég labbaði þarna niður Laugarveginn og fleiri þúsund manns voru samankomin til að sjá hvað þarna færi fram, hversu stolt ég væri eflaust ef ég væri samkynhneigð. Ég fékk gæsahúð í gær við þetta - hvað þá ef þetta væri "minn" dagur. Þetta er náttúrulega meðvirknin í mér, hrikalega meðvirk kellingin ;) 


Hefur þú upplifað ást?

Allt í kringum mig er ástfangið fólk. Ekki bara fólk sem er ástfangið af hinu kyninu sko... Allstaðar er fólk sem er ástfangið af hinu eða þessu. Oft hef ég hitt fólk sem er ástfangið af Drottni. Allt í góðu með það, bara á meðan það er ekki að þröngva trúnni sinni inná mig. Ég hef ætíð gaman af því að hlusta á önnur sjónarmið, en ræður - nei takk. Stundum hitti ég fólk sem er ástfangið af gæludýrunum sínum. Það fólk get ég innilega ekki rætt við. Þolinmæði mín er ekki það þroskuð - ennþá. 

Ég er einstæð 6 barna dverghamstramamma í Kópavogi og þarf iðulega að hlusta á börnin mín stunda kynmök - stundum um miðjan dag þegar ég er að lesa Fréttablaðið! Ég hef nú haft það í mér að pikka aðeins í þau þegar þau stunda kynlífið sitt svona opinberlega því ójá, dverghamstrar gefa frá sér frygðarstunur í kynmökum. Þessar frygðarstunur trufla mig á daginn. Ójá.

En hefur þú upplifað ást? Hvað er ást? Stundum tel ég mig vera ástfangna. Oft er það ást á hlutum sem flestir telja frekar ómerkilega. Á vorin verð ég óttalega ástfangin af lyktinni í loftinu og er alveg með það á hreinu að í fyrra lífi var ég sko þokkalega hundur - fátt betra en að vera með andlitið útí bílglugga á ferð! Sumrin koma mér til þess að fá gæsahúð á ótrúlegustu stundum. Göngutúr getur gert ýmsilegt - þó enginn sé félagsskapurinn. Ég hef líka hitt fólk sem ég tel mig vera ástfangna af. Nokkrum sinnum síðustu ca 10 ár. Aldrei hefur neitt komið út úr því nema úrvals vinskapur - og er eitthvað betra en það? Ég á ennþá eftir að upplifa þann kærasta sem veitir mér meira en vinskap (plús aukahluti) sem vinir mínir (og fjölskylda) veita mér. Kannski kemur að því - einn daginn.

Þangað til - sniffa ég göð út í loftið og fæ gæsahúð af því að finna lyktina af blautu byrki og nýslegnu grasi. Þangað til - og aðeins þangað til - er ég bara ég og bara ég :) 

Í fréttum er það annars helst að Siggi vinur minn bauð mér út að borða á uppáhalds veitingastaðinn minn - Tapasbarinn. Nammi nammi... gæðastund með unaðslegum vini. Bara gaman og bara næs. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband