Færsluflokkur: Bloggar
23.1.2007 | 08:08
Sónar í fyrsta skipti
Ég fór í sónar í fyrsta skipti í gær í vinnunni. Þvílíkt og annað eins undur sem þetta er. Ég var svo gapandi hissa á öllu sem ég sá og þurfti að hemja mig gríðarlega svo ég hoppaði ekki upp klappandi lófum eins og smástelpa öskrandi á foreldrana: sjáiði! sjáiði! Þetta er barnið ykkar! Ótrúlegt hvað þetta er flott. Ótrúlegt að eftir 20 vikur sé allt bara komið, hjarta, nýru, magi og læti. Gærdagurinn var sem sagt ótrúlegur hjá mér með tilheyrandi upphrópunum inná milli skoðanna við kátínu læknanna. Fyrir þeim er þetta bara daglegt brauð.
Ó vell... á mánudagskvöldum hér á Akureyri er stuð. Þá er Samfylkingin alltaf með bæjarmálafund þar sem farið er yfir þau mál sem tekin verða fyrir á næsta bæjarráðsfundi og flokksmenn geta komið með sínar skoðanir á málunum. Ungir Jafnaðarmenn hittast jafnan fyrir þessa fundi og í gær var mjög hressandi fundur. Þann 1. febrúar n.k. erum við að fá góða gesti til okkar hingað í Demant norðursins. Þingmennirnir Katrín Júl og Ágúst Ólafur ætla að kíkja hingað og spjalla við okkur unga fólkið um okkar hjartans mál, hvort sem það eru skólagjöld, skerðing náms til stúdentsprófs, harðari refsingar við kynferðisbrotum eða eitthvað annað. Fundurinn er klárlega opinn öllum, líka ykkur í Reykjavík, og verður kl. 20:00 í Lárusarhúsi (Eiðsvallargötu 18). Pizza og meððí eins og í alvöru partýi!
Vil svo benda á guðdómlega ályktun UJA - án gríns, þetta er svo mikil snilld!

Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.1.2007 | 00:47
Bridget Jones - enn og aftur

Í kvöld var stemningin þannig að Bridget vinkona mín Jones varð bara að birtast á skjánum. Hvað ég hef horft oft á þessa bíómynd veit enginn. Ætli þetta séu ekki hvað, 8-9 skipti á ári? Þrátt fyrir það finnst mér myndin alltaf jafn fáránlega skemmtileg og fyndin. Bridget Jones er snillingur. Upphafssenan þegar hún er að tala við Mark Darcy í hreindýrapeysunni gæti alveg (og hefur eiginlega) gerst í mínu lífi. Þvílík snilld.
Þó svo að ég viti nákvæmlega hvernig myndin er, hvernig hún endar og hver segir hvað, þá er tilfinningin í upphafi myndar alltaf spennandi. Daniel Cleaver (Foli Grant) er náttúrlega sjúklega sætur og næs gaur en verður svo alger skíthæll. Mark Darcy er algjör lúði og þurrprumpulegur en verður svo unaðslega flottur. Ég vel Darcy, ómæ ómæ... Og í enda myndarinnar þegar hún er á brókinni að kyssa hann fyrir utan bókabúðina: Bridget: Wait a minute, nice boys don´t kiss like that! - Darcy: Oh yes the fucking do! Garg!
Þessar setningar sem elsku vinkona mín hún Bridget er að fá eru setningar sem ég hef heyrt. Ég hef í alvörunni fengið spurningar á borð við: ,,hvernig er þetta með ykkur einhleypa fólkið, finnst ykkur.. blahh". Spurningar á borð við: hvað er að frétta í ástarlífinu? Komin með kall? Eitthvað að gerast í kallamálum? Enginn Amor mættur til þín Fanney? Á ekkert að fara ná sér í förunaut? Langar þig ekkert að eignast börn? og Hvenær ætlarðu eiginlega að finna þér kærasta? eru alltaf súrsætar. Ekki bara vegna þess hve heimskulegar þær eru, heldur rifjast alltaf upp fyrir mér atriði úr myndinni og ég skil þessa elsku svo vel.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.1.2007 | 21:50
Frábær helgi!
Ég held ég geti alveg hiklaust mælt með veitingastaðnum Strikið hérna á Akureyri. Við Metta fórum þangað í gær og nutum okkar vel þrátt fyrir að rafmagninu var alltaf að slá út og að Metta hafi þurft að sækja klósettið í myrkri. Ég fékk mér saltfisk og franska súttlaðiköku í eftirrétt. Jömmí. Saddar og sælar röltum við svo í bíó á myndina Babel sem ég ætla líka að leyfa mér að mæla með, enda stórkostleg mynd. Þetta er svona mynd sem ég vil eiga í hillunni minni, klárlega.
Eftir myndina fórum við á Karó að hitta Svennaling og þaðan var ferðinni heitið á Amour sem var verið að opna eftir breytingar. Staðurinn er nú reyklaus (vei!) og með vel lakkað gólf. Gummi Steingríms og kumpánar hans í SKE (eða Ess Ká E eins og sagt var í fréttum frétti ég) héldu uppi fáránlega góðri stemningu á efri hæðinni enda var verið að frumsýna Svartur köttur hjá LA. Var margt um manninn á svæðinu, KHÍ og HR voru í "menningarreisu", og aðstandendur leiksýingarinnar fjölmenntu til að hlýða á snillingana í SKE. Ég verð nú bara að segja að ég er ansi sátt við gærkvöldið, það var hressandi að kíkja smá út í góðum félagsskap og viðra sig. Er bara farin að hlakka ansi mikið til að kíkja aftur á Amour næstu helgi, eftir afmælistúttupartýið hennar Völlu.
Ég verð að leyfa einni mynd að fylgja með færslunni, en hún Þórey yndi var að senda mér þessa glænýju mynd af prinsinum gullfallega. Ég held maður gleymi bara verkjum og sársauka við það eitt að horfa á þennan krúttusnúð!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.1.2007 | 18:46
Við Elton John.. like this!
Annars rústaði ég Popppunkt í gærkvöldi. Við Jónsi erum massa tím, Addi og Stebbi Hilmars voru svo tím, Valla og Jón Ólafs og svo Anna Rósa og maðurinn hennar, Sigurjón Kjartans... :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.1.2007 | 01:35
Búið spil!
Jæja... þar fór það... enn einn í vaskinn... ó vell...
Farwell my love... Við Ída sjáum svakalega eftir þér.. þakka þér góðar stundir í Köben, foli!

Update: stjörnuspáin mín fyrir föstudagskvöld:
Vog: Löngun og áráttukenndar hugsanir sýna að grunnþörfum hefur ekki verið fullnægt. Ef það er gert hverfa einkennin loksins. Umtalsverður árangur næst í kvöld.
Umtalsverður árangur?? Ég er að fara spila Popppunkt heima hjá Völlu og Adda.. Ég ætla að vera Jónsi. Ég vinn greinilega - þrátt fyrir yfirlýsingar Adda um annað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.1.2007 | 00:19
Viltu giftast mér?
Ástin mín, ég fann þennan líka forkunnarfagra (og ránfjúkandi dýra) hring handa þér! Ef þú bara vissir hvað ég þurfti að hafa mikið fyrir því að eignast hann!
Á svona stundum er ég ánægð að eiga ekki svona kærasta.. Ætlaði hann virkilega að kúka hringnum og biðja stúlkunnar svo? Jiminn... Ég held það þyrfti aðeins að skoða þennan mann. Kannski er hann mjög fátækur, kannski er hann eitthvað veikur.. kannski fannst honum þetta bara hrikalega sniðugt. Hvað veit ég? Ég veit ekki einu sinni hvað stjörnuspá dagsins er að reyna segja mér!
Vog: Vogin vinnur ástir með því að skyggja á samkeppnina, ekki með afbrýði. Aðrar vogir og sporðdrekar laðast þegar í stað að þér. Beittu áhrifum þínum varlega til þess að fyrirbyggja tilfinningaflækju í framtíðinni.
![]() |
Brúðguminn gleypti hringinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.1.2007 | 22:16
Ávanabindandi leikur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.1.2007 | 17:26
Mánudagar...
Var á leiðinni heim úr ræktinni í fagra kagganum mínum, honum Kermit, hlustandi á Voice þegar útvarpsmaðurinn kom með gullkorn vikunnar. Mér fannst þetta svo sniðugt að ég hló eins og vitleysingur á rauðu ljósi á Drottningarbrautinni... Hressandi!
Mánudagar eru bestu dagarnir. Þá er alveg heil vika í næsta mánudag!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.1.2007 | 10:47
Hvað gera félagsráðgjafar?
Að gefnu tilefni ætla ég að birta þennan texta sem er af heimasíðu félagsráðgjafarskorar HÍ.
Hvað gera félagsráðgjafar?
Félagsráðgjafar starfa aðallega við meðferð og þjónustu í þágu skjólstæðinga einkum á sviði félags-og heilbrigðisþjónustu og í mennta- og dómskerfi. Enn fremur starfa félagsráðgjafar við stjórnunar- og skipulagsstörf í félags- og heilbrigðisþjónustu. Þeir starfa m.a. í ráðuneytum, sem félagsmálastjórar, framkvæmdastjórar svæðisstjórna og forstöðumenn í ýmsum stofnunum. Þá starfa félagsráðgjafar að rannsóknum. Auk þess starfa félagsráðgjafar ýmist launað eða í sjálfboðavinnu hjá hagsmunafélögum og frjálsum félagasamtökum. Markmið félagsráðgjafar er að hjálpa fólki til sjálfshjálpar þannig að sérhver einstaklingur geti sem best notið sín í eigin lífi og í samfélaginu.
Félagsráðgjöf er fag sem er örri þróun og á hverju ári stækkar starfsvettvangur félagsráðgjafa enda er eftirspurn mikil eftir starfskröftum þeirra.
Auk hinna hefðbundnu sviða innan félags-og heilbrigðisþjónustu starfa félagsráðgjafar í vaxandi mæli í þágu skólakerfisins og í tengslum við réttarkerfið (fangelsis-og dómsmál). Þau svið sem nú eru í hvað mestri þróun eru öldrunarþjónusta og rannsóknir tengdar því málefni. Þá eru fjölmenning og inflytjendamál og sjálfboðageirinn vaxandi málaflokkar auk ýmissa málefna sem tengjast æ fjölbreytilegra mannlífi og nýjum lífsháttum.Vinnuaðferðir og nálgun félagsráðgjafar:
Félagsráðgjafar vinna út frá heildarsýn, þeir tengja saman, samstilla og virkja þau samskiptakerfi sem einstaklingurinn tengist. Félagsráðgjafar vinna með einstaklinga, hópa, hjón, fjölskyldur og stærri heildir, s.s. vinnustaði, stofnanir og samfélög.
Félagsráðgjafar beita hefðbundnum sálfélagslegum meðferðarfræðum í einstaklings- hjóna- og fjölskyldumeðferð. Samfélags- og hópvinna eru aðferðir sem eiga sér aldagamla sögu innan félagsráðgjafar og eru í sífelldri þróun.

Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2007 | 15:19
Uppfærsla - heyrnarlausir
Lati, lati bloggarinn sem ég er. Frábær vinnuvika liðin og eflaust önnur eins í vændum.
Afrek síðustu viku:
- Fór á snjóbretti uppí Hlíðarfjall með Önnu Rún. Kristur á Krossinum. Hef tvisvar sinnum áður farið á bretti en það var fyrir sirka 7-8 árum. Þessi ferð var afar athyglisverð. Ég komst ekki niður brekkuna frá skíðahótelinu niður að fyrstu lyftunni. Jahá... datt bara á hausinn þrátt fyrir mikla hjálp frá Önnu við að halda mér á fótum. Lét plata mig til að fara með stólalyftunni alla leið upp, jahér, og þar uppi beið ég í sirka korter, tuttugu mínútur því ég þorði ekki niður. Eftir þúsund föll, frosna vettlinga, snjó inná maga, náladofa í fótunum og rúmum klukkutíma síðar komst ég loksins niður en þá var búið að slökkva ljósin í fjallinu þar sem það var búið að loka. Jahá, ég get sagt ykkur það. Núna er eiginlega algjört möst að fá skíðin mín hingað norður, meika ekki margar fleiri svona ferðir.
- Fór í ræktina á hverjum degi og prófaði m.a.s. Body Jam sem eru svona danstímar, salsa, bollywood, diskó og ég veit ekki hvað og hvað.
- Kom herberginu mínu í frábært horf með aðstoð Tiger. Vörur á 200 kjédl eru unaður!
- Fékk Mettu frænku í heimsókn og eldaði fyrir hana kjúklingabringur sem við borðuðum með penne pasta í piparrjómasósu með perum og valhnetum. Fórum svo á Children of Men sem var afar, afar spés... ég held ég treysti mér ekki til að mæla með henni - þrátt fyrir fegurð Clive Ovens. Eftir myndina var svo bara rúntað fram á nótt og kjaftað í sig hita. Nææææs.
Ég mæli eindregið með því að þið lesið viðtalið við Kolbrúnu í Fréttablaðinu í gær, laugardag, en hún er heyrnarlaus kona sem er í hóp þeirra sem beittir voru kynferðisofbeldi í grunnskóla. Mér finnst þetta mikið hugrekki hjá henni að koma fram og segja sögu sína. Auðvitað eru allar svona sögur dæmi um hugrekki, en í því samfélagi sem hún lifir einna helst eru bara um 200 manns. Þar þekkja allir alla og ef við berum þetta saman við lítið þorp þá hlýtur það að taka ansi mikið á samfélagið þegar svona kemst upp. Eins og ég hef komið inná áður þá er það með eindæmum fáránlegt hvernig ríkið og íslenskt samfélag hefur farið með og komið fram við þá sem heyrnarlausir eru.
Mig langar af þessu tilefni til þess að benda sérstaklega á bloggið hennar Sigurlínar Magrétar en hún er oft með mjög góðar færslur tengd málefnum heyrnarlausra. Þarna er kona sem veit sínu viti og að mínu mati eiga stjórnvöld að hlusta eftir svona röddum. Í nútímasamfélagi er æ meira verið að taka upp notendasamráð í þeim málum sem lúta að einstaklingum og hópum sem eru undir í samfélaginu, af einhverjum ástæðum. T.a.m. hafa einstaklingar með geðröskun unnið með WHO við að móta geðheilbrigðisstefnu, einstaklingar sem greinst hafa með krabbamein vinna með sjúkra- og iðjuþjálfum við að hanna endurhæfingu og svo mætti lengi telja. Er þessi stefna góð og gild, enda vita þeir sem lent hafa í aðstæðunum mest um þær og því best til þess fallnir að leggja orð í belg um hvað betur mætti fara. Nú finnst mér bara nóg komið af þöggun samfélagsins á þeirri kúgun og misnotkun sem heyrnarlausir hafa orðið fyrir, ekki bara hér á landi heldur um allan heim.
Ég tengi hér inná greinina sem ég skrifaði í fyrra, ykkur til yndisauka. Ég er líka búin að bæta við fullt af nýjum tenglum undir Daglegt brauð, skora á ykkur á lesa framhaldssöguna á netinu sem heitir Nágranninn - en ég vara ykkur við - hún er ávanabindandi!
![]() |
Tillögur um aukna ráðgjöf fyrir heyrnarlausa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)