Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Mánudagar...

MadMonday_logo.thumbVar á leiðinni heim úr ræktinni í fagra kagganum mínum, honum Kermit, hlustandi á Voice þegar útvarpsmaðurinn kom með gullkorn vikunnar. Mér fannst þetta svo sniðugt að ég hló eins og vitleysingur á rauðu ljósi á Drottningarbrautinni... Hressandi!

 

Mánudagar eru bestu dagarnir. Þá er alveg heil vika í næsta mánudag! 

 


Hvað gera félagsráðgjafar?

Að gefnu tilefni ætla ég að birta þennan texta sem er af heimasíðu félagsráðgjafarskorar HÍ.

Hvað gera félagsráðgjafar?

Félagsráðgjafar starfa aðallega við meðferð og þjónustu í þágu skjólstæðinga einkum á sviði félags-og heilbrigðisþjónustu og í mennta- og dómskerfi. Enn fremur starfa félagsráðgjafar við stjórnunar- og skipulagsstörf í félags- og heilbrigðisþjónustu. Þeir starfa m.a. í ráðuneytum, sem félagsmálastjórar, framkvæmdastjórar svæðisstjórna og forstöðumenn í ýmsum stofnunum. Þá starfa félagsráðgjafar að rannsóknum. Auk þess starfa félagsráðgjafar ýmist launað eða í sjálfboðavinnu hjá hagsmunafélögum og frjálsum félagasamtökum. Markmið félagsráðgjafar er að hjálpa fólki til sjálfshjálpar þannig að sérhver einstaklingur geti sem best notið sín í eigin lífi og í samfélaginu.

Félagsráðgjöf er fag sem er örri þróun og á hverju ári stækkar starfsvettvangur félagsráðgjafa enda er eftirspurn mikil eftir starfskröftum þeirra.

Auk hinna hefðbundnu sviða innan félags-og heilbrigðisþjónustu starfa félagsráðgjafar í vaxandi mæli í þágu skólakerfisins og í tengslum við réttarkerfið (fangelsis-og dómsmál). Þau svið sem nú eru í hvað mestri þróun eru öldrunarþjónusta og rannsóknir tengdar því málefni. Þá eru fjölmenning og inflytjendamál og sjálfboðageirinn vaxandi málaflokkar auk ýmissa málefna sem tengjast æ fjölbreytilegra mannlífi og nýjum lífsháttum.

Vinnuaðferðir og nálgun félagsráðgjafar:

Félagsráðgjafar vinna út frá heildarsýn, þeir tengja saman, samstilla og virkja þau samskiptakerfi sem einstaklingurinn tengist. Félagsráðgjafar vinna með einstaklinga, hópa, hjón, fjölskyldur og stærri heildir, s.s. vinnustaði, stofnanir og samfélög.

Félagsráðgjafar beita hefðbundnum sálfélagslegum meðferðarfræðum í einstaklings- hjóna- og fjölskyldumeðferð. Samfélags- og hópvinna eru aðferðir sem eiga sér aldagamla sögu innan félagsráðgjafar og eru í sífelldri þróun.


Uppfærsla - heyrnarlausir

Lati, lati bloggarinn sem ég er. Frábær vinnuvika liðin og eflaust önnur eins í vændum.

Afrek síðustu viku:

  • Fór á snjóbretti uppí Hlíðarfjall með Önnu Rún. Kristur á Krossinum. Hef tvisvar sinnum áður farið á bretti en það var fyrir sirka 7-8 árum. Þessi ferð var afar athyglisverð. Ég komst ekki niður brekkuna frá skíðahótelinu niður að fyrstu lyftunni. Jahá... datt bara á hausinn þrátt fyrir mikla hjálp frá Önnu við að halda mér á fótum. Lét plata mig til að fara með stólalyftunni alla leið upp, jahér, og þar uppi beið ég í sirka korter, tuttugu mínútur því ég þorði ekki niður. Eftir þúsund föll, frosna vettlinga, snjó inná maga, náladofa í fótunum og rúmum klukkutíma síðar komst ég loksins niður en þá var búið að slökkva ljósin í fjallinu þar sem það var búið að loka. Jahá, ég get sagt ykkur það. Núna er eiginlega algjört möst að fá skíðin mín hingað norður, meika ekki margar fleiri svona ferðir.
  • Fór í ræktina á hverjum degi og prófaði m.a.s. Body Jam sem eru svona danstímar, salsa, bollywood, diskó og ég veit ekki hvað og hvað. 
  • Kom herberginu mínu í frábært horf með aðstoð Tiger. Vörur á 200 kjédl eru unaður!
  • Fékk Mettu frænku í heimsókn og eldaði fyrir hana kjúklingabringur sem við borðuðum með penne pasta í piparrjómasósu með perum og valhnetum. Fórum svo á Children of Men sem var afar, afar spés... ég held ég treysti mér ekki til að mæla með henni - þrátt fyrir fegurð Clive Ovens. Eftir myndina var svo bara rúntað fram á nótt og kjaftað í sig hita. Nææææs.

Ég mæli eindregið með því að þið lesið viðtalið við Kolbrúnu í Fréttablaðinu í gær, laugardag, en hún er heyrnarlaus kona sem er í hóp þeirra sem beittir voru kynferðisofbeldi í grunnskóla. Mér finnst þetta mikið hugrekki hjá henni að koma fram og segja sögu sína. Auðvitað eru allar svona sögur dæmi um hugrekki, en í því samfélagi sem hún lifir einna helst eru bara um 200 manns. Þar þekkja allir alla og ef við berum þetta saman við lítið þorp þá hlýtur það að taka ansi mikið á samfélagið þegar svona kemst upp. Eins og ég hef komið inná áður þá er það með eindæmum fáránlegt hvernig ríkið og íslenskt samfélag hefur farið með og komið fram við þá sem heyrnarlausir eru.

Mig langar af þessu tilefni til þess að benda sérstaklega á bloggið hennar Sigurlínar Magrétar en hún er oft með mjög góðar færslur tengd málefnum heyrnarlausra. Þarna er kona sem veit sínu viti og að mínu mati eiga stjórnvöld að hlusta eftir svona röddum. Í nútímasamfélagi er æ meira verið að taka upp notendasamráð í þeim málum sem lúta að einstaklingum og hópum sem eru undir í samfélaginu, af einhverjum ástæðum. T.a.m. hafa einstaklingar með geðröskun unnið með WHO við að móta geðheilbrigðisstefnu, einstaklingar sem greinst hafa með krabbamein vinna með sjúkra- og iðjuþjálfum við að hanna endurhæfingu og svo mætti lengi telja. Er þessi stefna góð og gild, enda vita þeir sem lent hafa í aðstæðunum mest um þær og því best til þess fallnir að leggja orð í belg um hvað betur mætti fara. Nú finnst mér bara nóg komið af þöggun samfélagsins á þeirri kúgun og misnotkun sem heyrnarlausir hafa orðið fyrir, ekki bara hér á landi heldur um allan heim. 

Ég tengi hér inná greinina sem ég skrifaði í fyrra, ykkur til yndisauka. Ég er líka búin að bæta við fullt af nýjum tenglum undir Daglegt brauð, skora á ykkur á lesa framhaldssöguna á netinu sem heitir Nágranninn - en ég vara ykkur við - hún er ávanabindandi!  


mbl.is Tillögur um aukna ráðgjöf fyrir heyrnarlausa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fanney Akureyrensis

Hvers vegna á fólk eiginlega heima í Reykjavík? Jahérna.

En já, ég er sem sagt komin norður, í heilu lagi og allt dótið mitt líka. Búin að setja bleiku satínrúmfötin utan um nýju sængina mín, setja bleika unaðsmjúka flísteppið sem ég fékk frá Dagnýju á rúmið mitt, Miss Piggy er komin á góðan stað sem og allar bækurnar mínar og skóladótið. Jahá, það er gott að vera komin heim.

Er byrjuð í starfsþjálfuninni sem lítur bara út fyrir að verða mjög mjög skemmtilegt og spennandi. Það er líka eitthvað við svona "men in uniform"... Kannski verður þetta bara íslensk útgáfa af Gray´s anatomy! Hugsiði ykkur hvað það yrði nú skemmtilegt!

Ég er búin að vera ekkert smá dúleg eftir að ég kom hingað. Búin að redda netsambandinu hérna á stúdentagörðunum, búin að panta tíma fyrir Kermit í klossaskiptingu, búin að versla kort í ræktina, búin að koma öllu dótinu fyrir, búin að elda fyrstu máltíðina hérna (Rogan Josh kjúlli... indverskt.. jömmí!), búin að fara í 5 ára afmæli og fá ótrúlega gott að borða, búin að kíkja út á Karólínu með Völlunni yndislegu, búin að taka nokkra göngutúra á hálkunni sem leynist undir snjónum, búin að horfa á Kalla og sælgætisgerðina -aftur, búin að mæta á fund hjá UJA, búin að versla nýtt front á símann minn (sem er eitthvað laser dæmi.. fékk það á 50% afslætti sem var fínt), búin með eina hæð í konfektkassanum sem ég var send með úr Garðabænum, búin að lesa bókina sem ég var með, búin að byrja á annarri :),  búin að hitta Mettu frænku í Glerártorgi - þar sem svala fólkið verslar - og lofa að elda (nú eða baka, eða bæði) fyrir skinnið.... afar dugleg!

busy%20busy%20mouse

Ahhh... núna þarf ég bara að fara litast um eftir vinnu hérna! 


Það styttist...

... í að ég nenni að setjast niður fyrir framan tölvuna til að skrifa smá blogg.

Komst heil norður, líður unaðslega - hérna vil ég vera.

Tek á móti heimsóknum, hafið samband.

Löv, F.

Fjordungssjukrahusid-a-Akur


Að flytja er góð skemmtun...

... en allt sem fylgir flutningum er frekar leiðinlegt. T.d. að pakka niður, ákveða hvað maður þarf að eiga og hvað ekki, taka uppúr kössum og töskum, koma dótinu fyrir o.þ.h. Ekki minn tebolli, enda hef ég fengið minn skerf af flutningum. 

Eftir að hafa búið á sama stað, í Ólafsvík (flutum reyndar 2 sinnum í nýtt og betra hús en það telst ekki með því ég man varla eftir því), flutti ég norður á Akureyri til þess að stunda mitt nám í Menntaskólanum á Akureyri. Ég bjó á heimavistinni fyrstu 2 árin, með tilheyrandi pakka-niður-elsi og taka-upp-elsi. Þegar ég kom heim um jólin var ég með slatta af dóti en fór alltaf með enn meira dót norður aftur. Svo þurfti jú að pakka öllu niður aftur um vorið og tæma og þrífa herbergið. Þetta gerði ég sko 2 sinnum, hana nú. 

 

powers_te_movingpictures

 

Þá flutti ég í íbúðina í Hrafnagilsstrætinu og bjó með Svenna og Nonna. Þar sem þeir eru karlmenn, og ég safnari, tók ég fullt af dóti með norður þá um haustið til að innrétta íbúðina (og fylla skápana). Sama gerðist um jólin, ég tók fullt af dóti heim, fór aftur norður með enn meira dót. Um vorið þurfti svo að pakka öllu niður og þrífa allt.

Fjórða og síðasta árið mitt í MA bjó ég á þremur stöðum í nágrenni við Súper (sem þekkist e.t.v. betur sem Strax Byggðarvegi). Sama sagan, dót norður, dót vestur, enn meira dót norður um jólin. Eftir jólin flutti ég svo í húsið við hliðiná þar sem ég bjó og nokkru seinna aðeins nær Súper. Þetta þýddi auðvitað "pakka niður ferli" frá helv... enda á ég allt - nánast. Um vorið var svo öllu pakkað niður með meiri gleði en áður, ég var búin með þetta tímabil ævi minnar - stúdent heillin.

Þegar ég fór svo í spænskuskóla í 3 mánuði var ég með um 20 kg í yfirvigt - á leiðinni út! Þið getið ímyndað ykkur hvað ég var með mikið þegar ég kom heim aftur, nokkrum skópörum og flíkum ríkari - svo ekki sé minnst á bækurnar og geisladiskana. Þessir flutningar teljast þó ekki alvöru flutningar, því ég þurfti ekki að pakka niður öllu draslinu mínu - bara fötum og svoleiðis.

packed-car

Síðan ég byrjaði í Háskólanum hef ég búið á 3 stöðum, fyrst í Skipasundinu með henni Hjördísi minni, svo í Gautlandinu alein og sæl og nú bý ég í Kópavogi með fríðum flokki (Kermit, Feita, Miss Piggy etc.). Allt hefur þetta krafist flutninga með tilheyrandi hendingum og ruslasöfnun, en einhvern veginn er ég voðalega klár að safna að mér aftur. Ég hefði verið fín rétt eftir Ísöldina.

Núna skal pían svo flytja í 4 mánuði. Margur hefði haldið það eilítið auðveldara en að flytja "for good" en svo er sko aldeilis ekki. Alltaf ómar spurningin: Hvað þarf ég að hafa í 4 mánuði? Nota ég þetta næstu 4 mánuði ef ég hef ekki notað þetta síðustu 2 ár? Þetta væri aðeins auðveldara ef ég væri að flytja á Selfoss, en það er ansi langt á milli Kópavogs og Akureyrar.  Núna er því Kermit við það að æla af dóti, en lítum á björtu hliðarnar: ef það kemur svaðaleg vindkviða á leiðinni þá fjúkum við að minnsta kosti ekki útaf sökum þyngsla! :)

Ergo: ég ætla að búa í húsbíl í framtíðinni. 

 

istockphoto_1268920_mini_rv_pink_trailer

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband