Bloggfærslur mánaðarins, september 2006
27.9.2006 | 21:55
Kvartaldarbarnið
Loksins kom að afmælisdeginum langþráða. Loksins er ég orðin 25 ára! Dagurinn var frábær í alla staði. Bekkurinn minn söng fyrir mig, mér var boðið í morgunkaffi, fékk nokkra tugi af sms-um með afmælisóskum og annað eins af símtölum, þrjú símtöl með afmælissöngnum og kossa og knús útum allan bæ. Hrikalega gaman. Mamma og lilsys komu í bæinn og færðu mér hrikalega töff bleikt blóm, gullfallegan hring frá Láru Gullsmiði á Skólavörðustígnum og bleiki Fat-boy stóllinn minn kemur í næstu viku!!! Eftir að hafa skoðað nokkrar dýrabúðir með lilsys á meðan mammslan var í skólanum fengum við okkur að borða á Shalimar í Austurstrætinu... jömmí.
Þegar ég kom svo heim í gærkvöldi og ætlaði að fara að læra varð ég ekki svo kát. Tölvan mín er farin í verkfall og vill ekki kveikja á sér. Náði að ræsa hana smá upp en hún drap alltaf á sér aftur. Áðan náði ég svo að ræsa hana og brenna gögnin mín á geisladisk - in case! Elskulega yndislega tónskáldið mitt, hún Þóra vinkona mín, var (og er) svo hrikalega djúsílega falleg að lána mér fartölvuna sína þar til guðdómlega bróðir minn kemur með sína tölvu í borgina. Ég var farin að sjá fram á nokkra daga með handkrampa eftir að hafa glósað niður - fríhendis.
Ef ég er ekki búin að bjóða þér í afmælisveisluna okkar Magga næsta laugardag þá er ég ekki með gsm-númerið þitt síðan síminn minn drukknaði í bjór. Hafðu þá samband við mig í tölvupósti (fds@hi.is).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.9.2006 | 17:24
Heyr heyr!
Loksins loksins heyrir maður frá framtíðarstéttarfélaginu. Páll Ólafsson er nýr formaður og er sá maður einstaklega vel starfinu vaxinn. Ég hef alltof oft "kvartað" um það á hinum ýmsum samkundum þar sem félagsráðgjafa er að finna, hvað mér finnst vanta okkar álit í fjölmiðlana. Bæði er ég þá að tala um að stéttin sem slík þarf að vera mun iðnari við að skrifa blaðagreinar um málefni líðandi stundar enda erum við þvílíkur brunnur upplýsinga að hálfa væri nóg. Þá er ég einnig að tala um að fjölmiðlar ættu að vera iðnari við það að taka viðtöl við félagsráðgjafa þegar velferðarmál eru í brennidepli. Sársjaldan sér maður viðtöl við félagsráðgjafa og það þykir mér miður.
Í samræðum mínum um þetta málefni við starfandi félagsráðgjafa fæ ég oft þau svör að enginn tími sé til þess að setjast niður og rita greinar í blöðin eða tjá sig um málin. Í flestum tilfelllum blæs ég á svoleiðis prump-afsakanir. Vissulega gilda þær í einstaka tilvikum, en ég vil meina að þegar fólk veit mikið um efnið, líkt og félagsráðgjafi sem starfar við ákveðin mál, þá tekur það enga stund að koma skoðun sinni á framfæri. Klárlega er þetta líka pólitískt vandamál, enda er það margsannað að félagsráðgjafar hafa alltof, alltof, alltof mörg mál á sinni könnu. Um það gæti ég skrifað heila bók held ég svo ég læt hér við sitja.
Ég vona að þessi ályktun frá Stéttafélagi íslenskra félagsráðgjafa sé einungis upphafið að aukinni þátttöku félagsráðgjafa í samfélagslegum umræðum um íslenskt samfélag. Fjögurra ára háskólamenntun, svo ég tali ekki um alla meistaragráðurnar sem búa í greininni, gefur okkur víðfeðma þekkingu á okkar málaflokkum. Ofan á það kemur svo starfsreynslan og hafsjór upplýsinga sem gætu nýst við að leysa ógrynni vandamála sem við stöndum frammi fyrir.
Palli og co - heyr heyr heyr!!!
Ráðning sviðsstjóra Velferðarsviðs óásættanleg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.9.2006 | 07:46
3 - 2 - 1 - STARA!
Kl. 7:05 í morgun var verið að sýna gamlan teiknimyndaþátt frá minni barnæsku. Þrír, tveir, einn - STARA! Kærleiksbirnirnir voru náttúrulega bara æðislegir. Hvað maður gat skemmt sér vel við áhorfun. Eins og með Bevery Hills og Melrose Place þá verð ég bara að segja að þættirnir voru betri í minningunni. Þeir eru nú samt voðalega krúttlegir!
Vá hvað Scissor sisters er frábær hljómsveit. Ég uppgötvaði þá nú ekki fyrr en slagararnir fóru að hljóma í útvarpinu og byrjaði á því að hlusta á vinsælu lögin þeirra. Málið er að allur diskurinn þeirra er frábær! Núna langar mig hrikalega í nýja diskinn, önnur eins snilld á ferð vænti ég.
Fór á Afganga í gærkvöldi með Ðí Hösk og Félaga Haffa. Fyrir mitt leyti var sýningin frábær! Svakalega skemmtilegur leikur hjá þeim Elmu Lísu og Stefáni Hallli (fyndni gaurinn úr USS! auglýsingunni) um samskipti kynjanna. Það voru mýmargir punktar sem mig langaði að nótera niður, helst langar mig bara að fara aftur. Leikmyndin var stórkostleg, mjög minimalísk og flott. Verkið svissar í nokkrum tíðum sem gerir það frekar töff. Mæli eindregið með að þið kíkið á þetta verk (miðasala s. 551-4700).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2006 | 18:56
nýtt uppáhald...
Er búin að uppgötva fjöldann allan af djúsí mat sem er fljótlegur, ódýr og hrikalega góður.
- Lítil dós kotasæla - blanda við hana 1-1/2 tsk Garam Masala og smá steyttum kóríanderfræjum. Nota þetta ofan á volgt Naan brauð (sem m.a. fæst tilbúið í nánast öllum búðum og hægt að skella í ristina í 1 mín)
- Ainsley Harriott bollasúpurnar... namminamm! Alvöru bragð, ekki pakkabragð!
- Hafragrautur inní örbylgju - hefðbundi gamli góða, nú eða epla og kanil grautur.
- Wasa hrökkbrauð úr rúgi með sesamfræjum - með smjöri og smá Maldon-salti.. best með Ribenadjús.
Þetta er bara brotabrot af listanum... alltaf gaman að uppgötva e-ð nýtt eða finna gamlar hugmyndir.
Hér á landi voru staddir 2 æskulýðsstarfsmenn frá Rússlandi á dögunum og voru þeir í heimsókn hjá okkur í LÆF. Í gærkvöldi sýndum við þeim næturlíf borgarinnar og enduðum - surprise surprise - á Ölstofunni. Snilldarkvöld púnktur is sem endaði í Heimdellingapartýi þar sem ég skemmti mér konunglega.
Hitti Agga leikstjóra í gærkvöldi sem var stuð, hann er alltaf jafn fallegur og lokkandi. Bauð mér m.a.s. á sýninguna sína í kvöld - Afgangar heitir verkið. Hlakka svakalega til enda eeeeeeelska ég að fara í leikhús.
Næturvakt í nótt... zzzzz... gat skipt vaktinni á morgun þannig að vúbbídú, kemst í ammlisveislur! :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2006 | 16:17
Dagur heyrnarlausra er á morgun!
Á morgun, föstudaginn 22. september, er Dagur heyrnarlausra. Af þessu tilefni verður efnt til málþings í Salnum, Kópavogi frá kl. 13:00 til 17:00 og ég skora á ykkur að mæta. Þokkalega ætla ég að mæta!
Verð líka að benda ykkur á mjög svo áhugavert opið bréf til Jóns Ásgeirs, þó ekki frá Róbergi Marshall.
Svo er ég komin með hugmyndir að afmælisgjöf: armband með áletruninni "Táknmál" á íslensku táknmáli. Mæli með því að þið fjárfestið í þessu - fyrir ykkur sjálf! Ótrúlega töff.is!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.9.2006 | 10:37
Barnastarfsemi
Jæja... loksins get ég farið að eignast börn. Unaðsleg þessi nöfn alveg hreint. Ætli Freud sé leyfilegt?
Annars er Gúlludjamm í kvöld með tilheyrandi veitingum, bollu og kynningu ;) En áður en það skellur á er Landsþing Ungja Jafnaðarmanna haldið í Mosó...
Mannanafnanefnd samþykkir Sókrates | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.9.2006 | 20:05
9-11
Fékk þetta sent í pósti áðan... athyglisvert?
1. Í New York City eru 11 bókstafir
2. Í Afghanistan eru 11 bókstafir
3. Í nafni Ramsin Yuseb (Hryðjuverkamaðurinn sem hótaði að eyðileggja Twin Tower árið 1993) eru 11 bókstafir.
4. Nafnið George W Bush er 11 bókstafir
Þetta gæti allt verið hrein tilviljun, en nú verður þetta áhugavert:
1. New York er 11. fylkið
2. Í flugi 11 voru 92 farþegar (9 + 2 = 11)
3. Í flugi númer 77 sem einnig flaug á tvíburaturnana voru 65 farþegar (6 + 5 11)
4. Árasinn átti sér stað 11. september, sem er einnig þekkt sem 9/11 (9 + 1 + 1 =11)
5. Dagsetningin er eins og neyðarnúmerið í Bandaríkjunum 911 (9 + 1 + 1 = 11)
Ennþá hreinar tilviljanir?? Haltu lestrinum áfram.....
1. Heildarfjöldi fórnarlambanna sem voru í flugvélunum sem notaðar voru í árásunum var 254 (2 + 5 + 4 = 11)
2. 11. september er 254. dagurinn á árinu (2 + 5 + 4 = 11)
3. Hryðjuverkaárásin í Madríd átti sér stað 3.11.2004 (3 + 1 + 1 + 2 + 0 + 0 + 4 = 11)
4. Hryðjuverkaárásin í Madríd átti sér stað 911 dögum eftir árásina á Twin Towers.
... og nú kemur það sem er ennþá merkilegra:
Á eftir fána Bandaríkjanna (Stars and stripes) þá er Örninn þekktasta merki landsins
* Í eftirfarandi versi úr Kóraninum, hinni helgu ritningu Íslam, stendur:
"For it is written that a son of Arabia would awaken a fearsome Eagle.
The wrath of the Eagle would be felt throughout the lands of Allah and
while some of the people trembled in despair still more rejoiced:
For the wrath of the Eagle cleansed the lands of Allah and there was peace."
Þetta er vers númer 9.11 í Kóraninum.
Heldur þú ennþá að um hreinar tilviljanir sé að ræða? Prófaður þá eftirfarandi:
* Farðu í Microsoft Word og gerðu þetta:
1. Skrifaðu með hástöfum: Q33 NY. Flugnúmerið á fyrstu vélinni sem var flogið á tvíburaturnana.
2. Litaðu Q33 NY
3. Breyttu stafastærðinni í 48
4. Breyttu leturgerðinni í WINGDINGS (eða WINGDINGS 1)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.9.2006 | 19:06
Ljóskan
já.. Fanney Dóra ljóska.is get ég sagt ykkur. Ekki það að ég sé að gera grín að steríótýpunni heldur er ég orðin ljóshærð. Elska að labba inná hárgreiðslustofu og leyfa sérfræðingnum að ráða alveg... labba svo út mörgum klukkutímum seinna með brosið hriginn.
Takið frá 30. sept! Ætla að halda uppá ammlið mitt þá. More to come later...
Rock-star partý hjá mér í kvöld... vííííí.
Annars bara same old, same old.. næstum því :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2006 | 00:59
Sáttmáli fyrir fatlaða - hugleiðingar
Þann 25. ágúst sl. samþykktu 100 þátttökulönd sáttmála Sameinuðu þjóðanna en hann hefur það hlutverk að vernda og efla réttindi og virðingu einstaklinga með fötlun (Convention on the Protection and Promotion of the Rights and Dignity of Persons with Disabilities). Þessi alþjóðlegi samningur mun auka rétt og frelsi einstaklinga með fötlun allt kringum jörðina á sambærilegan hátt og mannréttindasáttmáli og barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna. Reynt verður að gæta þess að skilgreina orðið "fatlaður" rúmt til að tryggja það að verndin taki til allra þeirra sem þarfnast hennar. Ljóst er að sáttmálinn mun stuðla að breyttum hugsanagangi varðandi málefni fatlaðra.
Þetta er samantekt af heimasíðu Félagsmálaráðuneytisins en uppkast að samningnum í heild sinni má finna hérna. Vissulega fagna ég þessu, annað er glatað. En þegar ég las yfir listann yfir meginatriði samningsins fór ég aðeins að pæla. Meðal meginatriða má nefna:
- Skylda ríkja til að breyta lögum og koma í veg fyrir hvers kyns venju eða framkvæmd er orsaka mismunun fatlaðra gagnvart öðrum hópum.
- Ríki skulu fjarlægja hindranir að aðgengi að umhverfi og samgöngutækjum.
- Fatlaðir skulu hafa aðgengi að opinberum þjónustustofnunum, upplýsingum og netinu.
- Fatlað fólk á ekki að þola neins konar ólögmæta frelsissviptingu.
- Jafn réttur til fræðslu og menntunar.
- Réttur til vinnu og atvinnu. Fjarlægja skal hindranir á vinnumarkaði og stöðva mismun á vinnumarkaði.
- Réttur til fullnægjandi lífsgæða og félagslegrar verndar.
- Réttur til jafnrar þátttöku í samfélaginu, svo sem skoðanaskipta og stjórnmála.
- Réttur til þátttöku í tómstundum, íþróttum og menningarlífi.
Það eru kannski skiptar skoðanir um það hvort heyrnarlausir tilheyri fötluðum eða ekki, en þar sem talað er um að skilgreiningin eigi að vera rúm gef ég mér að þeir tilheyri þeim hópi. Ég ætla ekki að fara inná þá umræðu hversu hrikalega glatað það er að Íslendingar hafi ekki ennþá viðurkennt íslenska táknmálið sem eitt af móðurmálum landsins. Fáránlegt alveg. Bendi aftur á þann punkt sem ég kom inná í blaðagreininni um daginn: getum við viðurkennt einstaklinginn ef við viðurkennum ekki tungumál hans?
Árið 1999 fór Félag heyrnarlausra, með Berglindi Stefánsdóttur í fararbroddi, í mál við Ríkisútvarpið. Ástæðan var afar einföld, túlkun á framboðsræðum í sjónvarpi kvöldið fyrir Alþingiskosningarnar. Þarna var um grunnmannréttindi að ræða. Dóminn má sjá í heild sinni hérna.
Í fyrra var lagt fram frumvarp til laga um textun á íslensku efni í sjónvarpi. Frumvarpið er skv. heimasíðu Alþingis í nefnd og hefur verið þar síðan 13. desember 2005. í frumvarpinu kemur m.a. fram að textað efni í íslensku sjónvarpi er um 1 klukkustund á mánuði!!! Til samanburðar má nefna að í Danmörku eru þetta 189 klukkustundir á mánuði og á Englandi er 80% af öllu efni BBC, ITV og C4 textað (tölur síðan 2003, hugsanlega hærri tölur - vonandi!). Skv. því sem ég hef heyrt er það ekki svo dýrt að texta sjónvarpsefni og því skil ég ekki hvar hnífurinn stendur fastur í kúnni. Tökum fréttatíma sem dæmi. Heyrnarlausir hafa sinn eigin fréttatíma á RÚV sem er 8 mínútur á dag. Þegar eitthvað gerist í samfélagi heyrnarlausra sem fjölmiðlum finnst fréttnæmt þá er fréttin iðulega textuð - sem er frábært. En eiga heyrnarlausir að sitja fyrir framan fréttatímann og bíða eftir að einhver fréttin komi textuð? Sá texti sem fréttamenn lesa hlýtur að vera til textaður, fréttamenn lesa hann jú af skjám. Er mikið mál að setja þennan texta í 888 svo heyrnarlausir geti horft á fréttatímann? Þetta er aðeins örlítið - en mikilvægt - dæmi um það hvernig við, íslenska þjóðin, mismunum samlöndum okkar.
Ég gæti svo sem skrifað heila ritgerð um pælingar mínar í kringum þetta en ætla að láta þetta duga. Ég ætla ekki að fara í einstök atriði í þessum sáttmála en benda á þessa punkta hér að ofan og hvet ykkur til að hugsa um heyrnarlausa þegar þið lesið yfir þetta. Mig langar líka til þess að benda á það að meðan við bíðum þess enn að íslenska táknmálið verði viðurkennt þá voru Svíar að fagna 25 ára afmæli sænska táknmálsins sem móðurmáli í Svíþjóð. Hversu langt á eftir viljum við vera?
Svona til gamans þá linka ég á færsluna með greininni sem birtist í Lesbók Moggans.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.9.2006 | 07:36
Mataræði
Ég hef nú bloggað um það áður að ég fæ æði fyrir ákveðnum tegundum af mat. T.d. var grænn hlunkur eitt það besta núna í vor, fyrst þegar ég byrjaði á næturvöktum varð ég að fá ristað brauð og kanínukakó, svo fór ég að fá löngun í AB-mjólk með banönum, svo samloku með kæfu en núna held ég að ég sé búin að ná toppnum. Var svo gríðarlega upptekin við að stússast í skóladóti og laga bloggsíðu okkar útskriftarnemana að ég gleymdi að borða. Hrökk svo upp við gríðarlegt garnagaul uppúr sex og það eina sem komst að hjá mér var að ég þurfti að búa mér til hafragraut. Nota bene: ég hef aldrei borðar hafragraut! Í sumar hef ég þó eldað hafragraut allnokkrum sinnum á næturvöktum svo ég kunni handbrögðin.
Núna er ég svo að gæða mér á rjúkandi hafragraut með kanilsykri.. mmm... Held það sé líka voða gott að brytja epli ofan í hafragrautinn. Hafiði fleiri hugmyndir fyrir mig?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)