2.1.2007 | 11:53
Að flytja er góð skemmtun...
... en allt sem fylgir flutningum er frekar leiðinlegt. T.d. að pakka niður, ákveða hvað maður þarf að eiga og hvað ekki, taka uppúr kössum og töskum, koma dótinu fyrir o.þ.h. Ekki minn tebolli, enda hef ég fengið minn skerf af flutningum.
Eftir að hafa búið á sama stað, í Ólafsvík (flutum reyndar 2 sinnum í nýtt og betra hús en það telst ekki með því ég man varla eftir því), flutti ég norður á Akureyri til þess að stunda mitt nám í Menntaskólanum á Akureyri. Ég bjó á heimavistinni fyrstu 2 árin, með tilheyrandi pakka-niður-elsi og taka-upp-elsi. Þegar ég kom heim um jólin var ég með slatta af dóti en fór alltaf með enn meira dót norður aftur. Svo þurfti jú að pakka öllu niður aftur um vorið og tæma og þrífa herbergið. Þetta gerði ég sko 2 sinnum, hana nú.
Þá flutti ég í íbúðina í Hrafnagilsstrætinu og bjó með Svenna og Nonna. Þar sem þeir eru karlmenn, og ég safnari, tók ég fullt af dóti með norður þá um haustið til að innrétta íbúðina (og fylla skápana). Sama gerðist um jólin, ég tók fullt af dóti heim, fór aftur norður með enn meira dót. Um vorið þurfti svo að pakka öllu niður og þrífa allt.
Fjórða og síðasta árið mitt í MA bjó ég á þremur stöðum í nágrenni við Súper (sem þekkist e.t.v. betur sem Strax Byggðarvegi). Sama sagan, dót norður, dót vestur, enn meira dót norður um jólin. Eftir jólin flutti ég svo í húsið við hliðiná þar sem ég bjó og nokkru seinna aðeins nær Súper. Þetta þýddi auðvitað "pakka niður ferli" frá helv... enda á ég allt - nánast. Um vorið var svo öllu pakkað niður með meiri gleði en áður, ég var búin með þetta tímabil ævi minnar - stúdent heillin.
Þegar ég fór svo í spænskuskóla í 3 mánuði var ég með um 20 kg í yfirvigt - á leiðinni út! Þið getið ímyndað ykkur hvað ég var með mikið þegar ég kom heim aftur, nokkrum skópörum og flíkum ríkari - svo ekki sé minnst á bækurnar og geisladiskana. Þessir flutningar teljast þó ekki alvöru flutningar, því ég þurfti ekki að pakka niður öllu draslinu mínu - bara fötum og svoleiðis.
Síðan ég byrjaði í Háskólanum hef ég búið á 3 stöðum, fyrst í Skipasundinu með henni Hjördísi minni, svo í Gautlandinu alein og sæl og nú bý ég í Kópavogi með fríðum flokki (Kermit, Feita, Miss Piggy etc.). Allt hefur þetta krafist flutninga með tilheyrandi hendingum og ruslasöfnun, en einhvern veginn er ég voðalega klár að safna að mér aftur. Ég hefði verið fín rétt eftir Ísöldina.
Núna skal pían svo flytja í 4 mánuði. Margur hefði haldið það eilítið auðveldara en að flytja "for good" en svo er sko aldeilis ekki. Alltaf ómar spurningin: Hvað þarf ég að hafa í 4 mánuði? Nota ég þetta næstu 4 mánuði ef ég hef ekki notað þetta síðustu 2 ár? Þetta væri aðeins auðveldara ef ég væri að flytja á Selfoss, en það er ansi langt á milli Kópavogs og Akureyrar. Núna er því Kermit við það að æla af dóti, en lítum á björtu hliðarnar: ef það kemur svaðaleg vindkviða á leiðinni þá fjúkum við að minnsta kosti ekki útaf sökum þyngsla! :)
Ergo: ég ætla að búa í húsbíl í framtíðinni.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Ferðalög, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:10 | Facebook
Athugasemdir
kvitt
Ólafur fannberg, 2.1.2007 kl. 16:32
Gangi þér vel í flutningunum , ég kem vonandi norður að heimsækja þig meðan þú ert þarna í fjóra mánuði . ;o)
þórey (IP-tala skráð) 2.1.2007 kl. 22:11
kvitt og gleðilegt flutninga ár
Bragi Einarsson, 3.1.2007 kl. 12:28
Pældu í gleðinni sem þrýstist í gegnum þig þegar þú finnur einn hlut og annan sem þú þarft ekki lengur á að halda! Sú tilfinning er engri lík
Pálína Erna Ásgeirsdóttir, 3.1.2007 kl. 19:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.