3.9.2006 | 19:54
Opið álver
Álverið í Straumsvík var opið almenningi í dag. Að sjálfsögðu fórum við í vinnunni með fólkið okkar til að berja þeessa reiðinnar ósköp augum. Ég verð nú að játa að ég var nokkuð mikið spennt að fara þangað. Það er einhver mistískur blær yfir svona stöðum sem alla jafna eru lokaðir almenningi. Hvað sem skoðun minni um álver líður þá verður að segjast að þessi dagur var mjög vel heppnaður hjá þeim. Boðið var upp á rútuferðir frá Fjarðarkaupum til þess að minnka umferð. Þegar inná svæðið var komið fengu allir dagskrá og búið var að merkja allt voðalega fínt. Þarna var t.d. vélasýning þar sem risavaxnar "gröfur" (eða svona dótarí sem líkist gröfum, með allskonar dótarí framaná) voru til sýnis. Þá var einnig til sýnis slökkviliðsbíll Álversins sem og tækjabílar. Frábært fannst mér að fara í skoðunarferð um Álverið í rútu. Það voru nokkrir strætóar sem keyrðu fyrifram ákveðna leið í gegnum svæðið og nokkur hús og í hverjum strætó var 1 starfsmaður Álversins sem sagði fólki frá hvað væri gert hvar og hvernig þetta virkaði. Einnig taldi hann upp ýmsar almennar upplýsingar, s.s. að í ár er Álverið 40 ára og þar vinna 480 starfsmenn (minnir mig). Frábært að fá að sjá þetta allt saman, get ekki sagt annað.
Þá var boðið uppá ýmiskonar skemmtun. Friðrik Ómar og Guðrún Gunnars voru þarna að syngja, Gunni og Felix mættu á svæðið, Möguleikhúsið var með sýningu um álver og listamenn sýndu verk í mötuneytinu og víðar. Þá var einnig boðið uppá nýbökuð vínarbrauð, "kaffihúsakaffi" frá Kaffitár og ýmislegt annað. Fjöldinn allur af fólki var þarna, enda veðrið unaðslegt. Á leiðinni út af svæðinu kíktum við svo í Kerskála 3 þar sem álið er búið til (húsið sem er næst þjóðveginum). Auðvitað þurftum við að setja upp hjálm og hlífðargleraugu - og það sem meira er: skilja eftir debetkortin svo segulröndin skemmist ekki. Í það heila: fræðandi og skemmtileg ferð um þetta heljarinnar svæði.
Það er eitthvað við svona staði; álver, vegagerðina, Frímúrarana, Kárahnjúka ofl. sem ég heillast af. Ég hugsaði nú allnokkrum sinnum um það í dag hversu mikið ég væri til í að vinna í álveri eitt sumar og fá að kynnast þessu SJÁLF. Ætli það spili ekki inní hversu geigvænlega forvitin ég er. Ég held að minnsta kosti að ég myndi taka mig vel út í skærum vinnugalla, með appelsínugulan hjálm, stór hlífðargleraugu, hjólandi fram og til baka á þessu stóra svæði.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Menning og listir, Dægurmál, Ferðalög | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.