18.5.2007 | 00:31
Umferðarhljóð eða fuglar
Fyndið hvernig maður finnur sinn stað. Síðustu dagar hafa verið frekar erfiðir hjá mér. Stærsti áhrifavaldurinn þar var sá að ég var stödd í Reykjavík. Mér leiðist Reykjavík gasalega mikið. Umferðarhljóð allan sólarhringinn, umferðarteppur, endalaust mikið af fólki, langar vegalengdir, erfitt að fá stæði, flestir á svo mikilli hraðferð að þeir hafa vart tíma til að heilsa og þar fram eftir götunum. Ég er samt alls ekki andstæðan við þetta. Ég er ekki Heiða í sveitinni hjá afa sínum; mjólka kýrnar og kemba hestunum, langt í næstu búð eða vídjóleigu, léleg internettenging, enginn nágranni. Það er ekki ég. Mér finnst samt unaðslegt að komast í sveitina til ömmu og afa þar sem eru dýr af öllum stærðum og gerðum og ég get labbað uppá Hól, borðað ber og horft yfir landið. Æði.
Núna þegar ég er komin á Akureyri er ég eins og fáviti. Ég get ekki hætt að brosa. Fáránlegt, ég veit. Grasið fyrir utan gluggann minn er orðið grænt síðan ég fór suður. Ég heyri ekki í umferð, bara fuglum sem syngja væntanlega mökunarsönginn sinn. Ég ætti kannski að finna mér sérstakan mökunarsöng... hmm..
Það er örugglega ekki bara Eyrin fagra og ljúfa sem kallar fram brosið. Eftir nokkra klukkutíma byrja ég í fyrstu alvöru vinnunni minni. Alvöru vinnu as in vinna sem félagsráðgjafi. Er búin að hlakka til í nokkrar vikur, ótrúlega spennandi starf! Ótrúlegt að ég sé komin á þennan stað. Hversu oft fannst mér ég ekki geta meira? Hversu oft tók ég tímabilið: Ég er bara ekki þessi týpa til að vera í háskólanámi? Jahér.
Helgin verður væntanlega ljúf líka, en áætlað er að Túttan kíki til Völlunnar á laugardagskvöldið, já jafnvel með ostasalat eða annað djúsímeti, og já jafnvel verður tekið í spil. Svo þarf ég að þvo nokkrar vélar og hengja út á snúru (er nýbúin að fatta að það eru útisnúrur fyrir utan húsið mitt) og jafnvel fara í leiðangur. Eitt er víst að ég þarf ekki að læra þessa helgina!
P.s. ég er þessi ofurbrúna í bleiku peysunni... heltönuð eftir sól síðustu daga ;)
P.s.2. Núna er ég svo spennt að ég get ekki sofnað... og klukkan rúmlega eitt... obbosí!
P.s.3. Klukkan orðin tvö og ég ekki sofnuð.. þrátt fyrir Damien Rice! Hann sem klikkar aldrei.. doh.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Ferðalög, Menning og listir, Stjórnmál og samfélag, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 02:05 | Facebook
Athugasemdir
Gangi þér vel í nýju vinnunni sæta... hef reyndar engar áhyggjur af því.. þú ert alveg með þetta:)
Hildigunnur - líka félagsráðgjafi (IP-tala skráð) 18.5.2007 kl. 10:09
toj toj toj í nýju vinnunni. Ég er svakalega montin af þér
Þóra Marteins (IP-tala skráð) 18.5.2007 kl. 16:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.