8.3.2007 | 23:22
Hlemmur - a must see!!
Ég gerði mér dagamun í kvöld eftir langa vinnuviku. Á leið minni um hið stórkostlega Amtsbókasafn á Akureyri kom ég við í kvikmyndahillunni og skoðaði fýsilegar myndir. Voru þar allnokkrar sem ég gat hugsað mér að verja/eyða tíma mínum í. Þar á meðal Notting Hill (eins og einhverjir kunna að vita þá er ég fíkill á þá mynd), Volver (Pedro Almodóvar er bara klárlega einn mesti snilli tilli sem ég veit um) og svo Hlemmur. Fyrir valinu að þessu sinni var heimildarmyndin Hlemmur eftir Ólaf Sveinsson, sem fékk hina eftirsóttu Eddu árið 2003 sem besta íslenska heimildarmyndin auk þess sem Sigurrós fékk Edduna sama ár fyrir frumsamda tónlist í myndinni. Ekki slæm ræma það.
Allavegana. Myndin byrjaði vel, afar vel. Mjög athyglisverðar persónur kynntar til leiks, flott settings og tónlistin fúnkeraði vel við það sem var að gerast á skjánum. Reyndar fannst mér spurningarnar mjög leiðandi sem notaðar voru, en svörin sem viðmælendur komu með tilbaka voru aftur á móti sönn. Ég fékk það a.m.k. ekki á tilfinninguna að spurningarnar hefður verið stór áhrifavaldur. Að mínu mati er þetta mynd sem flestir ættu að sjá. Eins og Birgir Örn segir í gagnrýni sinni: ,,Sterk og nauðsynleg mynd sem gefur sýn inní hluta þjóðfélagsins sem við reynum að þegja í hel". Ég gleymdi mér algjörlega í lífi þessara aðila sem myndin tók til. Áberandi fannst mér sögurnar af því að enginn þeirra hafði neitt samband að ráði við börnin sín (og barnabörnin) og margir bara alls ekkert - ekki að þeirra undirlagi. Ég finn ennþá sting í hjartanu vegna þessa. Þetta undirstrikar einnig hvað það er ofboðslega mikilvægt að hafa aðstandendur með í dæminu, hvað svo sem er að gerast í lífi fólks. Fjölskyldan er eins og órói sagði Virgina Satir, ef eitthvað kemur fyrir einn þá riðlast allur óróinn. Oft er lítið hugsað um aðstandendurna og hvað þeir eru að fást við. En aftur að myndinni. Einn aðilinn var/er? strætóbílstjóri. Hann virkaði alveg þokkalega vel á mig, búinn að ganga í gegnum margt en einnig búinn að hífa sig upp og ná sér aftur á strik. Ljúfur og rólegur maður sem langaði svolítið til þess að eiga konu til að koma heim til á kvöldin og spjalla við. Hann sagðist vera að íhuga það að fá sér konu frá Asíu, þær væru svo broshýrar og nytu lífsins. Allt gott og blessað með það. En svo kom höggið á hana Fanney Dóru. Stuttu seinna í myndinni sagðist hann ekki treysta ráðamönnum þjóðarinnar og ekki aðhyllast neina pólitíska stefnu hérlendis. Stefnan sem hann aðhyllist er sósíalískur þjóðernisstefna. Já. Maðurinn var alveg með það á hreinu að Nazi ætti eftir að gerast hérna á Íslandi. Það væri alltaf að koma fleira og fleira dökkt fólk hingað til landsins og það þyrfti að gera eitthvað í því. Jámm.. ekki orð um það meir. Horfið á myndina! Þegar fór á líða undir lokin þurfti ég svo að setja á pásu öðru hverju til að þurrka vot augun svo ég gæti fókusað á skjáinn. Meyra konan.
Afsakið.. þetta kom útúr mér í einni bunu. Ergo: Sjáið myndina sem fyrst! Og ef þið munið eftir því, deilið skoðun ykkar með öðrum, bloggið, sendið sms og talið um myndina á kaffistofum. Ég veit ég er svolítið á eftir, myndin orðin nokkurra ára gömul, en hún er klassi. Tékkið á kynnismyndbandinu.
Kvót myndarinnar: Manni svíður oft og maður grætur. Svo koma nætur. Sorgin hverfur með sólinni þegar hún skín að morgni. (þegar hann talaði um að hann fengi ekki að vera með börnum sínum og barnabörnum)
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Kvikmyndir, Menning og listir, Sjónvarp, Stjórnmál og samfélag, Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
á þessa mynd, hún er góð!
valla (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 12:16
Ég hef horft þá þessa mynd... hún gerði mig reiða, mjög reiða. Kannski af því þetta nálægt mér að mörgu leyti. Mér fannst myndin gera aðstandendur að "vondu" fólki, eins og þegar jólin voru og þess háttar. Þessir menn hafa margir fyrirgert sínum rétti til samskipta við fjölskyldur sínar. Flestir hafa fengið mun fleiri tækifæri en hollt getur talist, flestir þeirra fengju sennilega að vera í samskiptum við börn sín og barnabörn ef þær væru tilbúnir til þess að lifa þannig lífi og koma fram við sitt fólk af virðingu.
Sá sem ég þekki á eitthvað á þriðja tug meðferða að baki, stutta edrútíma þess á milli en lengri sukktúra. Hann man ekki afmælisdaga barna sinna né barnabarna, barnabörnin hafa ekki séð hann í 3 ár og eitt þeirra hefur hann aldrei séð. Hin muna ekki eftir honum. Börnin hans upplifa ekkert nema sársauka í kringum hann og mynd eins og þessi gerir fátt annað en að búa til samviskubit hjá þeim. Börnin hafa tekið þá ákvörðun að þeirra hamingja sem mikilvægari en hans, sú ákvörðun var erfið fyrir þau og mynd eins og þessi gerir þeim enn erfiðara fyrir að standa við hana.
Sorry langlokuna... en þetta finnst mér :) Myndin sýnir samt sáran raunveruleika þessa fólks ég fer ekki ofan af því.
Ásdís Ýr (IP-tala skráð) 11.3.2007 kl. 13:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.